Geðrækt

Anna Björg vinnur að heilsueflingu hjá Landlæknisembættinu.

Hvað er geðheilsa?

Geðheilsa er órjúfanlegur hluti heilbrigði fólks og gerir því kleift að nýta vitsmunalega, tilfinningalega og félagslega hæfileika sína. Jafnvægi á geði gerir okkur betur í stakk búin til að takast á við verkefni og álag daglegs lífs og ná auknum þroska. Það er alls ekki einfalt að skilgreina hvað felst í andlegu heilbrigði. Í erli dagsins erum við ekki að velta því mikið fyrir okkur og tökum því sem gefið að við séum allflest við ágæta geðheilsu. Þegar nánar er að gáð og maður veltir því fyrir sér hvað geðheilsa sé í raun getur svarið vafist fyrir okkur. Oft finnst fólki þá auðveldara að skilgreina hvað geðheilsuvandi sé frekar en andlegt heilbrigði. Til þess að efla og rækta geðheilsu er samt sem áður nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvað það er sem einkennir þann sem býr við góða geðheilsu. Sem dæmi má nefna jákvætt viðhorf og vellíðan. Innri styrkleikaþætti eins og sjálfsvirðingu, bjartsýni, og tilfinningu fyrir því að hafa stjórn á lífi sínu og sjá hlutina í samhengi. Getu til að mynda og rækta gefandi tengsl við annað fólk og það að geta tekist á við eða aðlagast mismunandi aðstæðum. Sá sem býr við góða geðheilsu vegnar yfirleitt betur í dagsins önn og getur gefið meira af sér hvort sem það er með fjölskyldu og vinum, við nám, í vinnu eða samfélaginu yfirleitt. Meginatriði geðheilsu eru því að maður sé sjálfstæður, virkur og skapandi þátttakandi í samfélaginu og geti fullnægt þörfum sínum og annarra. Flest okkar geta við ekki uppfyllt þessi atriði nema að takmörkuðu leiti en teljumst samt andlega heilbrigð. Það færir heim sanninn um að geðheilsa er stigskipt og engin ákveðin lína sem skiptir mönnum í heilbrigða og sjúka og að enginn býr við fullkomna geðheilsu. Það hlýtur samt að vera mikilvægt markmið að stefna að því að hver einstaklingur fái að njóta sín sem best og að því beinist geðræktin.

Geðheilsuvandi

Vitað er að á hverjum tíma þjást 22-24% íslensku þjóðarinnar af geðheilsuvanda af einhverjum toga – eða nær einn af hverjum fjórum landsmönnum. Flóra geðheilsuvandamála er margbreytileg og tekur yfir vítt svið. Sem dæmi má nefna sálrænt áfall, geðraskanir eins og kvíða, þunglyndi, geðhvörf og geðklofa, ofnotkun vímuefna, persónuleikatruflanir, átraskanir og sjúkdóma í heila s.s. elliglöp. Til að vandinn sé skilgreindur sem geðsjúkdómur þurfa að vera til staðar ákveðin einkenni sem standa yfir í einhvern tíma og hafa í för með sér skerta starfshæfni eða örorku. Geðheilsuvandi hefur í för með sér þjáningu, örorku og stundum ótímabæran dauðdaga. Slíkum heilsubresti fylgir einnig mikið álag fyrir fjölskyldu, vini og vinnufélaga. Geðheilsuvandamál kosta landsmenn árlega háar fjárhæðir í beinum og óbeinum kostnaði. Nefnd á vegum Evrópusambandsins komst að þeirri niðurstöðu að þau kosti lönd sambandsins 3-4% af vergri þjóðarframleiðslu. Miðað við þær áætlanir má reikna með að árlega kosti geðheilsuvandamál íslenskt samfélag um 20 milljarða. Geðheilsuvandinn heggur líka stórt skarð í mannauðinn. Samkvæmt athugun Alþjóðabankans og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1996, eru geðheilsuvandamál fimm af tíu aðalorsakavöldum örorku og er þunglyndi þar í fyrsta sæti. Fjórðungur þeirra sem eru á fullum örorkubótum á Íslandi eru geðfatlaðir. Sársaukinn sem fylgir geðheilsuvanda verður samt aldrei mældur í peningum. Vanþekking á geðrænum vandamálum veldur því oft að menn taka ekki nógu snemma á vandanum og eiga þar með á hættu að hann aukist. Einnig hefur fáfræði í för með sér fordóma sem gera þeim sjúka og aðstandendum hans enn erfiðara fyrir. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því að geðheilsa er ekki fasteign sem við eigum vísa til lífstíðar heldur ástand sem er stöðugum breytingum undirorpið þess betur getum við tekið ábyrgð á eigin heilsu. Öll getum við eflt eigin geðheilsu, m.a. með því að leggja rækt við heilbrigði og vellíðan hjá okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst.

Geðrækt

Verkefnið Geðrækt sem er samstarfsverkefni Landlæknisembættisins, geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss og Geðhjálpar er ætlað að stuðla að geðheilsueflingu sem nær til allra landsmanna. Geðrækt er ætlað að efla meðvitund einstaklinga, fjölskyldna, félaga, fyrirtækja og samfélagsins alls um geðheilsu. Með geðrækt er lögð áhersla á að hlúa að því sem heilt er og fyrirbyggja með því geðheilsuvanda á borð við kvíða og þynglyndi. Geðrækt getur einnig seinkað alvarlegum einkennum geðraskana og dregið úr þeim.

Geðraskanir taka toll af öllum aldurshópum og á öllum aldurskeiðum má vinna fyrirbyggjandi starf og efla geðheilsu. Þó að aðstæður bágrar geðheilsu séu margvíslegar og flóknar hafa kannanir sýnt að hægt er að stuðla að geðheilbrigði og fyrirbyggja heilsubrest. Fjárhagslegur ávinningur af slíku m aðgerðum er augljós og einnig tilfinningalegur ávinningur. Geðrækt tekur líka til geðheilbrigðisþjónustu. Þjónustan þarf að vera sniðin að þörfum notendanna og þeir þurfa að fá tækifæri til að móta hana. Hvetja þarf notendur og veita þeim vettvang til að miðla reynslu sinni og þekkingu bæði til heilbrigðisstofnana og í sjálfshjálparhópum. Eftir það stendur notandinn sterkari og á stofnuninni vita menn betur hvað má bæta.

Verkefni Geðræktar beinast að öllum aldurshópum en sérstök áhersla er lögð á unglinga – þunglyndi, kvíða og sjálfsvíg. Aðstandendur verkefnisins vænta sýnilegs árangurs, jafn í þjóðarhag sem mannauði, en ekki síst með bættri líðan landsmanna, því það er engin heilsa án geðheilsu.

Alþjóðaheilbrigðisdagur WHO, 7. apríl 2001 – helgaður geðheilsu

Hinn 7. apríl n.k. mun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hvetja stjórnvöld og almenning um heim allan til að vinna heilshugar að eflingu geðheilbrigðis. Gro Harlem Brundtland framkvæmdastjóri WHO leggur mikla áherslu á forvarnir og meðferð geðheilsuvandamála og mun þessi áratugur vera helgaður geðheilsu. Geðheilsa er undirstaða þroska og velferðar manneskjunnar og því einnig framþróunar í heiminum. Þess vegna er mikilvægt að horfast í augu við það að geðheilsuvandamál eru hluti daglegs lífs og þeim þarf að sinna. Það er vandfundin sú fjölskylda sem ekki hefur kynnst geðheilsuvanda af eigin raun. Samt sem áður ríkir fáfræði, skömm og fordómar gagnvart þeim sem þjást af geðheilsuvanda. Á undanförnum áratug hafa orðið miklar framfarir í meðferð geðsjúkdóma en vegna vanþekkingar fá ekki allir þá úrlausn sem hægt er að veita. Slagorð WHO fyrir 7. apríl 2001 er “Stop exclusion – dare to care”. Skilaboðin eru að það sé engin gild rök fyrir því að útiloka fólk með geðheilsuvanda. Það er rými fyrir allar gerðir fólks í samfélaginu. Maður skyldi ekki óttast þá sem eru haldnir geðheilsuvanda, hann getur hent alla. Verum vakandi fyrir einkennum geðheilsuvanda og útrýmum misskilningi og rangfærslum um geðheilsuvandamál.

Geðrækt og Landlæknisembættið hafa unnið að undirbúningi þessa dags hér á landi. Lögð er áhersla á að draga úr fordómum og hvetja til umburðarlyndis í garð þeirra sem þjást af geðheilsuvanda. Einnig að koma þeim skilaboðum á framfæri að við berum ábyrgð á eigin geðheilsu og höfum áhrif á heilsu annarra. Leitað hefur verið eftir samstarfi við heilsugæslustöðvar, presta, vinnustaði, kvíkmyndahús, fjölmiðla og aðra upplýsingamiðla. Þessir aðilar gegna lykilhlutverki við að vekja fólk til umhugsunar um miklvægi þess að hlúa að eigin geðheilsu, fjölskyldunnar og annars samferðafólks. Einkunnarorðin eru: “EKKI LÍTA UNDAN – láttu þér annt um andlega heilsu”. Meðal verkefna má nefna breska stuttmynd um geðheilsuvanda sem verður sýnd í Sambíóunum og á sjónvarpstöðvum. Landspítali-háskólasjúkrahús, Heilsuvernd ehf og Vinnueftirlitið leggja áherslu á geðrækt á vinnustöðum þessa vikuna. Fagdeild geðhjúkrunarfræðinga verður með jákvæð skilaboð til almennings. Einnig hefur verið gert veggspjald með eftirfarandi hollráðum:

1. Hugsaðu jákvætt – það er léttara. Slíkar hugsanir verða þér góðir förunautar.
2. Gefstu ekki upp. Velgengni í lífinu er langhlaup.
3. Grunntónn góðs lífs er einfaldleiki. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu.
4. Ekki líta á neitt sem hendir þig sem ósigur. Mistök eru dýrmæt reynsla.
5. Kvíði getur komist upp í vana. Kvíddu því ekki að kveðja hann.
6. Hreyfðu þig daglega. Það léttir lundina.
7. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um.
8. Reyndu að skilja annað fólk og hvetja það.
9. Finndu hæfileikum þínum farveg og ræktaðu þá.
10. Settu þér markmið í lífinu og láttu drauma þína rætast.

Tenglar:

www.ged.is
www.landlaeknir.is
www.who.int/world-health-day/