Geðheilsa er …

…. að láta sér líða vel.

Hér á eftir fara nokkur einkenni fólks með góða geðheilsu:

1. Það hefur jákvæðar tilfinningar gagnvart sjálfu sér.

Það er ekki ofurliði borið af tilfinningum sínum, svo sem kvíða, reiði, ást, afbrýðisemi, sektarkennd eða áhyggjum.

Það getur tekið vonbrigðum lífssins.

Viðhorf þess til sjálfs síns og annarra einkennist af umburðarlyndi og eiginleika til að gera grín að sjálfu sér.

Það vanmetur hvorki né ofmetur færni sína.

Það viðurkennir eigin ófullkomleika.

Það hefur sjálfsvirðingu.

Því finnst flestar aðstæður viðráðanlegar.

Það hefur ánægju af einföldum, daglegum athöfnum.

Geðheilsa snýst um:1. Tilfinningar þínar gagnvart sjálfum þér.
2. Tilfinningar þínar gagnvart öðrum
3. Hvernig þú tekst á við kröfur lífsins.

2. Því líður vel innan um annað fólk.

Það getur veitt ástúð og tekið tillit til annarra.

Það bindur varanleg og fullnægjandi persónuleg sambönd.

Því líkar vel vð aðra, treystir þeim og býst við því sama af þeim.

Það virðir margbreytileika mannlífsins.

Það misnotar ekki aðra né lætur misnota sig.

Það hefur tilfinningu fyrir því að tilheyra ákveðnum hópi.

Það finnur til ábyrgðar gagnvart meðbræðrum sínum.

3. Það getur tekist á við kröfur lífsins.

Það bregst strax við vandamálum sínum.

Það viðurkennir ábyrgð sína.

Það mótar umhverfi sitt ef það er mögulegt en lagar sig að því ef það er nauðsynlegt.

Það getur skipulagt framtíðina og hræðist hana ekki.

Það fagnar nýjum hugmyndum og nýrri reynslu.

Það notar hæfileika sína.

Það setur sér raunhæf markmið.

Það getur tekið eigin ákvarðanir.

Það er ánægt með að gera sitt besta.

Þegar talað er um geðheilsu dettur mörgum í hug geðsjúkdómar. En geðheilsa er annað og meira en að vera laus við geðsjúkdóma.

Geðheilsa er okkur öllum kappsmál, hvort sem við eigum orð yfir hana eða ekki. Þegar við tölum um hamingju, hugarró, ánægju eða fullnægju eru við venjulega að tala um geðheilsu.

Geðheilsa snertir daglegt líf allra og tengist því, almennt séð, hvernig okkur vegnar – í fjölskyldu, skóla, leik og starfi, meðal jafningja og í samfélaginu.

Geðheilsa felur í sér hvernig hverjum og einum tekst að samræma eigin þrár, metnað, getu, hugsjónir, tilfinningar og samvisku, kröfum lífsins.

Engin ákveðin lína skiptir fólki í heilbrigða og sjúka og til eru mörg ólík stig geðheilsu.

Ekkert eitt einkenni er í sjálfu sér sönnun góðrar geðheilsu, né heldur er skortur á einhverju einu einkenni sönnun fyrir geðsjúkdómi. Og engin býr alltaf við fullkomna geðheilsu.

Ein leið til að lýsa geðheilsu er að lýsa fólki með góða geðheilsu. Það eitt að vita hvað geðheilsa er, er ekki það sama og að vera heilbrigður á geði, en sú vitneskja getur hjálpað þér að skilja hvað það felur í sér.

Rauði kross Íslands

Rauði kross Íslands er sjálfboðaliðahreyfing 18 þúsund félagsmanna og yfir þúsund virkra sjálfboðaliða sem starfa í 51 deild um allt land.

Sjálfboðaliðar og starfsmenn aðstoða flóttamenn, kenna skyndihjálp, hjálpa einstaklingum í þrengingum, safna fötum til neyðarhjálpar, starfa með börnum og ungmennum, gegna lykilhlutverki í neyðarvörnum og inna af hendi óteljandi önnur störf til þess að létta og koma í veg fyrir þjáningar.

Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða kross Íslands nær á hverju ári til þúsunda fórnarlamba hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim.

Vin – athvarf fyrir geðfatlaða, Hverfisgötu 47, Reykjavík, s. 561-2612
Dvöl – athvarf fyrir geðfatlaða, Reynihvammi 43, Kópavogi s. 554-1260
Laut – athvarf fyrir geðfatlaða, Þingvallastræti 32, Akureyri s. 462-6632

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands, redcross.is