Fyrstu erfiðleikarnir í hjónabandinu

Strax á fyrstu tveimur árum hjónabandsins geta komið fram alvarlegir brestir. Þetta á að sjálfsögðu einnig við um óvígða sambúð. Tilfinningaleg togstreita kemur vígsluvottorði ekkert við.

Þegar öldur mesta ástarbrímans hefur lægt og lognmolla hversdagsleikans hefur tekið við kemur í ljós hvort ástin lifir af daglegt amstur.

Nú kemur fram hvernig þau eru ólík hvort öðru og tilfinningaleg nærvera „framandi manneskju getur verið ógnvekjandi.

Það er ekki óttalaust að afhjúpa sig. Ef til vill stendur maður ekki undir væntingum hins. Við getum líka sjálf orðið fyrir vonbrigðum.

Ég spyr oft pör sem leita til mín með hjónabandsvandræði sín: „Hvers vegna varðstu ástfangin af honum? „Af hverju varðstu ástfanginn af henni? Ástæðan fyrir því að ég spyr er að yfirleitt hafa þau átt kost á öðrum, hvers vegna völdu þau einmitt þessa manneskju? Fyrir kemur að sá eiginleiki sem vakti neistann er einmitt sá sem erfitt er að umbera í hversdagslífinu. „Hann var svo hress og bjartsýnn, hann tók lífinu svo létt, eins og leik, sagði einn skjólstæðingur minn, en nú fannst henni hann bara ábyrgðarlaus. „Hún var alltaf svo falleg og vel tilhöfð og smekklega til fara. Eftir tveggja ára sambúð var hann rasandi yfir því að hún héngi tímunum saman fyrir framan spegilinn og í fataverslunum – sem sagt alger tímasóun!

Harkaleg viðbrögð sem koma af stað rifrildi geta líka spunnist vegna þess að álfar, tröll og draugar bernskunnar og æskunnar koma upp á yfirborðið þegar við bindumst sterkum tilfinningaböndum. Við höfum hugsanlega aldrei tengst neinum eins náið, nema foreldrum okkar í bernsku. Ótti við höfnun og vonbrigði getur komið fram og ef til vill löngu gleymdar minningar um sár atvik.

Við þurfum að aðlagast hvort öðru án þess að glata okkar eigin sjálfsmynd og ekki verður komist hjá valkostum og málamiðlunum.Krafa um allt eða ekkert getur auðveldlega orðið banamein sambandsins. Það, sem skiptir sköpum, er samvinna, tillit til eigin tilfinninga og hvors annars og kjarkur til að segja skýrt já og nei.

„Ef sambandið á að vera svona, er eins gott að skilja bara.“ Við getum hugsanlega beygt fólk undir vilja okkar með hótun af þessu tagi, en er það ekki dýru verði keypt?

Við byggjum strax í upphafi grunninn að því hvernig tekið muni verða á ósamkomulagi og vandamálum í hjónabandinu í framtíðinni.

Myndin af hinu fullkomna pari, tveimur manneskjum sem eru skapaðar hvor fyrir aðra, er draumur og ekki raunveruleiki.

Nýtrúlofaða parið, í algleymi hvort yfir öðru, sem situr límt saman í sófanum og þarf stöðugt að vera að snerta hvort annað og drekka úr sama glasi, getur valdið einhleypingi svima með þessari vaðandi hamingju. Hinir segja ekkert. Þeir hugsa ef til vill: „Almáttugur, leyfum þeim það bara, það endist hvort eð er ekki lengi. Þau haldast eflaust ekki í hendur eftir nokkur ár, nema við hátíðleg tækifæri, og þau hætta sennilega líka að kyssast, nema í einrúmi“.

Það er ekki viðeigandi að sýna ástúð opinberlega.

Ef fólk byrjar að vera saman eða giftir sig mjög ungt er mikil hætta á því að það þroskist hvort í sína áttina, sérstaklega ef annað er í námi.

Á menntasetrum eru skilnaðartölur oft yfir 50% á ári sem skýrist af því að menntun breytir oft lífsviðhorfum og lífsgildum fólks.

Ef makinn gætir bús og barna á þessum árum eða stundar aðra vinnu og verður fyrir allt öðrum áhrifum eru miklar líkur á því að hjónabandið gliðni í sundur, nema þau geri sér sérstakt far um að þroskast saman.

Húsnæðisþrengingar og fjárhagsvandræði, að ekki sé minnst á atvinnuleysi, ógna hjónabandinu. Hætt er við að stúlkur sem flosna upp úr námi og eiga erfitt með að fá vinnu noti hjónabandið sem haldreipi – þar geti þær verið brúklegar til einhvers. Einnig hefur ætíð þekkst að sumar stúlkur giftast til að sleppa burt frá foreldrum sínum.

Það umbyltir tilveru fólks að eignast barn.

Það er ekki hægt að ímynda sér það fyrirfram hvernig líf það er að vera foreldri. Þreytan, þrúgandi ábyrgðin á lítilli, bjargarlausri manneskju er ofviða okkur flestum að skynja fyrirfram. Óraunhæfar, rómantískar væntingar um yndislega, mjúka og ilmandi veru sem liggur í burðarrúminu, glöð og brosandi á ekkert skylt við raunveruleikann.

Svefnleysi og organdi, slefandi krógi sem burðast þarf með daginn út og inn – maður er ekki fyrr búinn að skipta á honum þegar fýlan gýs upp aftur – er nær sanni.

Eitt er það sem lesa má á prenti um dásemdir smábarna en annað, allt annað, er hversdagslegt slítandi streð.

„Ég hafði hlakkað svo mikið til að eignast þennan dreng og nú, þegar hann er kominn, finnst mér hann nánast til trafala og ég er þrælafbrýðisamur út í hann vegna þess að konan mín sinnir honum meira en mér, sagði mér nýbakaður faðir (þetta hef ég oft heyrt feður segja). „Mér finnst ég eiginlega utanveltu. Ef ég reyni að sinna drengnum, segir konan mín: Nei, láttu mig um þetta. Okkur líður ekki vel saman lengur og hún hafnar mér kynferðislega – ég er ekki einu sinni nothæfur í það. Um daginn sprakk allt í loft upp. Ég kom heim úr vinnunni og kom að henni að gefa barninu brjóst og vælandi, allt á hvolfi og illþefjandi bleiur út um allt. Ég spurði hvað hún hefði verið að gera. Hún trylltist og slengdi blautri bleiu framan í mig. Ég pillaði mig burt. Þegar ég kom til baka öskraði hún á mig að ég hefði verið að drekka og að ég hefði svikið sig. Ég var búinn að fá mér nokkra bjóra. Nú er hún farin heim til mömmu sinnar með strákinn. Mamma hennar er líka ein, svo núna geta þær haft það huggulegt saman“.

Þetta er dæmigert fyrir það sem getur gerst ef faðirinn ræður ekki við að aðlagast föðurhlutverkinu og fer að keppa við barnið um ást móðurinnar. Hann getur orðið barnalegur og krefjandi vegna þess að honum finnst hann útundan, sem hann getur líka auðveldlega orðið ef hann er ekki fullorðinn og þroskaður. Í stað stuðnings frá manninum sínum fær móðirin annað barn til viðbótar og þar sem hún er sjálf viðkvæm og brothætt bregst hún öndverð við manninum sem finnst hann enn meira utangarðs. Hún hefur hugsanlega stundað vinnu áður en barnið fæddist og finnst hún nú hræðilega einangruð. Það getur hugsast að hún sé afbrýðisöm út í það að hann fái að taka þátt í atvinnulífinu.

Ef til vill hindrar hún ómeðvitað samband hans við barnið og hann gefst upp á að byggja upp eins náið samband við barnið sitt eins og hann hafði vonast eftir og varpar allri ábyrgðinni á hana. Þegar komið er í slíkan hnút skiptir sköpum að hjónin geti talað út um sín mál og áttað sig á nýjum hlutverkum. Konan sem bæði eiginkona og móðir og maðurinn sem eiginmaður og faðir.

Þetta getur líka bitnað á kynlífinu. Móðirin er upptekin af barninu og þreytt út af stöðugu ónæði og næturtruflunum, og hugsanlega er hún frábitin kynlífi meðan barnið er á brjósti. Ljósmæður og læknar vanrækja oft að segja konunni frá þessu þegar hún spyr um hvenær hún megi fara að stunda kynlíf eftir fæðingu. Þá er henni sagt að það sé í góðu lagi eftir nokkrar vikur og að það sé undir henni sjálfri komið.

Enginn segir henni, að sumar konur missi lystina á kynlífi á því tímabili sem þær eru með barmið á brjósti. Hún fer jafnvel að sofa hjá manninum án þess að langa til þess sjálf. „Það var ekki hægt að láta hann bíða lengur, hann var búinn að hlakka svo til að fá mig heim aftur,“ sagði ung móðir við mig.

Oft má rekja kynkulda til fæðingar fyrsta barns. „Kynlíf okkar lagðist mikið til af þegar við eignuðumst fyrsta barnið,“ sagði mér maður sem fór fram á skilnað eftir sjö ára hjónaband, en hann hafði oft verið konu sinni ótrúr.

Margar konur halda að þær séu óeðlilegar ef þeim líður þannig og margir karlar halda að þeir hafi fengið alveg sérstaklega lélegt eintak af kvenþjóðinni af því að konan þeirra er alltaf þreytt og óhress. Hvorugt er rétt.