Fyrirbyggjum brot- forðumst byltur

Alþekkt orðatiltæki segir að fall sé fararheill, en í reynd getur fall haft í för með sér beinbrot sem varla getur talist til heilla. Þó svo að fólk á öllum aldri verði fyrir því að detta hefur það misalvarlegar afleiðingar í för með sér. Börn detta oft og ef þau brotna eru þau oftast fljót að ná sér. Þegar komið er af barnsaldri þykja ærslaleikir ekki lengur við hæfi og fólk dettur þá síður. Síðan taka við efri árin og og hættan á meiðslum og brotum eykst á ný, meðal annars vegna beinþynningar. Byltur á efri árum geta auk áverka haft í för með sér óöryggi og kvíða sem veldur því að löngun og þor til að hreyfa sig minnkar.

 

 

Hvernig er hægt að draga úr byltum?

 

Til að geta dregið úr byltum og því að þær endurtaki sig er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir orsökum þeirra. Orsaka- eða áhættuþættirnir eru annars vegar tengdir ástandi einstaklingsins sjálfs og hins vegar þáttum í umhverfi.

 

 

Hreyfingarleysi dregur úr vöðvastyrk og liðleika auk þess sem beinmassinn minnkar og jafnvægið skerðist. Kyrrseta og hreyfingarleysi geta verið vegna lífshátta, veikinda, depurðar eða ótta við byltu. Sjúkdómar og hrörnun geta haft í för með sér svima, skert jafnvægisskyn, máttleysi og minni viðbragðsflýti.

 

 

Helstu áhættuþættir fyrir byltur:

 

 • Vöðvamáttleysi 
 • Göngulagstruflanir 
 • Sjóndepra og heyrnarskerðing 
 • Ofnotkun áfengis 
 • Lyfjameðferð (t.d. blóðþrýstingslækkandi lyf, róandi lyf og svefnlyf) 
 • Minnissjúkdómar 
 • Fótavandmál (t.d. skyntruflanir og gigt) 
 • Hættur í umhverfinu (t.d. undirlag, lausar mottur, hál baðkör eða sturtubotnar, snúrur eða þröskuldar innandyra, og óhentugur skófatnaður, misfellur og gangstéttarbrúnir, hálka og léleg lýsing utandyra). 

 

Byltuforvarnir:

 

 

 • Mikilvægt er að leita orsaka hjá einstaklingum sem hafa nýlega dottið. 
 • Ráðlagt er að meta hættu á byltum í reglubundu heilsufarseftirliti aldraðra (upplýsingar um heilsufar og ástand ásamt skoðun á getu til að standa upp úr stól og göngulagi). 
 • Bjóða þarf þeim sem eru í aukinni áhættu fjölþætt úrræði. Slík úrræði, ásamt mati á heilsu- og umhverfisþáttum og endurskoðun á lyfjameðferð, getur fækkað byltum hjá öldruðum og þeim sem eru í mikilli brotahættu eða hafa áður brotnað. 
 • Styrkjandi vöðvaæfingar og jafnvægisþjálfun sem veitt er á einstaklingsgrunni eða í æfingahópi geta ásamt Thai Chi æfingum fækkað byltum. 
 • Þungaberandi líkamsæfingar eru mikilvægar til að bæta jafnvægi, styrkja vöðva og fækka byltum. 
 • Skeljabuxur (sérstakar buxur með stuðpúðum yfir mjöðmum) eru ráðlagðar fyrir aldraða einstaklinga sem búa á á stofnun og eru í áhættuhópi fyrir mjaðmabrot svo framarlega sem rétt notkun þeirra er tryggð. 

 

Huga þarf að fjölbreyttri fæðu og nægum vökva, til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi og færni. Góður skóbúnaður eykur stöðugleika. Stafir, hækjur, göngugrindur, mannbroddar, rétt stillt heyrnartæki og gleraugu af réttum styrk eru mikilvæg hjálpartæki. Gott er að æfa sig við að standa upp frá gólfi, það veitir öryggi að kunna það. Góð hreyfing og styrktarþjálfun varnar byltum, dregur úr brothættu og eykur gæði og magn beina

 

 

Ítarefni:

 

 

Landlaeknir.is

 

Beinvernd.is

 

Doktor.is

Frá Landlæknisembættinu