Frelsi og ábyrgð

Frelsi einstaklingsins er í tísku í dag. Allir eiga að hafa rétt á því að lifa lífi sínu eins og þeim þóknast, ef þeir aðeins fylgja settum lögum. Og þetta er á margan hátt af hinu besta. Ég get lifað mínu lífi eins og mig listir og þú þínu, og allir una glaðir við sitt. Um leið erum við öll ákaflega meðvituð um réttindi okkar. Við, sem frjálsir einstaklingar, höfum margskonar réttindi, skráð og óskráð. Og við viljum gjarnan vernda þessi réttindi. Við höfum til dæmis rétt á því að skemmta okkur ærlega eftir langa vinnudaga, við höfum rétt á því að stunda okkar áhugamál, við höfum rétt á því að njóta frelsisins sem frjálsir einstaklingar í frjálsu samfélagi. Þetta tvennt „frelsi og réttur“ er síðan eitthvað sem hamrað er á við okkur alla daga t.d. í fjölmiðlum. Aftur á móti er annað gamalt hugtak sem gjarnan gleymist enda ekki eins skemmtilegt og hin tvö. Það er hugtakið „ábyrgð“! Berum við ekki ákveðna ábyrgð í lífinu þrátt fyrir allt okkar frelsi og öll okkar réttindi? Jú vissulega. Við berum t.d. ábyrgð á okkur sjálfum. Ef við reykjum of mikið, borðum of mikið eða drekkum of mikið áfengi, getur enginn borið ábyrgð á því nema við sjálf. Enda kemur óhófið niður á okkur sjálfum og okkar líkama og þeim sem næst okkur standa.

Ef aftur á móti sambúðin okkar eða hjónabandið er á rangri leið, þá gleymum við gjarnan því að það erum við bæði sem berum ábyrgð á sambandinu en ekki bara maki okkar. Þá grípum við til réttinda okkar til að afsaka okkur sjálf. „Ég hef rétt á því að vera frjáls, djamma með félögunum, ég hef rétt á því að maki minn sé skemmtilegur“, segjum við eins og maðurinn sem vildi skilja við konuna sína af því að hún hafði aldrei frumkvæðið að neinu skemmtilegu. Hjónabandið var orðið svo leiðinlegt fannst honum. En ekki datt honum í hug að finna upp á neinu sjálfur! Það eru margir sem hlaupa úr einni sambúðinni í aðra vegna þess að þeim finnst þeir hafi frelsi til að velja og rétt á því að allt sé eftir þeirra höfði en gleyma ábyrgðinni sem fylgir því að vera í sambúð, að eiga fjölskyldu. Svo gengur nýja sambúðin með nýja makanum jafn illa eins og sú gamla og þá er bara hlaupið í enn einn faðminn. Og allt fer á sömu leið vegna þess að ábyrgðin gleymist. Það gleymist að 50% af vandanum flyst yfir í nýja sambandið og það er einmitt sá aðili sem ekki vildi horfast í augu við ábyrgð sína á gangi mála.

Stundum finnst mér gott að líkja fjölskyldunni við ávaxtaskál. Ef við setjum ekkert í skálina stendur hún tóm og rykug inni í skáp. Ef við ætlumst bara til þess að maki okkar setji góða ávexti í skálina en leggjum ekkert sjálf að mörkum, þá fyllist skálin aðeins að hálfu leyti. Til þess að skálin sé full þurfi báðir að leggja sína ávexti í púkkið. En þá er líka von á ávaxtaveislu úr skálinni góðu.