Fósturvöxtur og sjúkdómar

Fyrir rúmum 10 árum var sett fram kenning um það að vöxtur fósturs í móðurlífi hefði áhrif á það hvort við fáum kransæðasjúkdóm á fullorðinsárum. Gerð var rannsókn til að prófa þessa kenningu og náði hún til rúmlega 15 þúsund karla og kvenna. Í ljós kom öfugt samband milli fæðingarþyngdar karla og kvenna og hættunnar að deyja úr kransæðasjúkdómi; minni fæðingarþyngd þýddi aukna hættu á að deyja síðar á ævinni úr kransæðasjúkdómi. Þessi rannsókn var gerð í Englandi og hefur síðar verið staðfest í öðrum rannsóknum m.a. á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum. Sambandið milli fæðingarþyngdar og kransæðasjúkdóms er nálægt því að vera þannig að fæðingarþyngd sem er 4 kg (16 merkur) gefur 30% minni hættu á kransæðasjúkdómi en fæðingarþyngd sem er 2,5 kg (10 merkur). Þetta er meðaltal úr stórum rannsóknum og frá þessu er mikið af undantekningum; einstaklingur sem fæðist léttur er í aukinni hættu að fá kransæðasjúkdóm en það þarf ekki að þýða að hann fái hann. Þetta er svipað og hjá þeim sem reykja, reykingar auka hættu á lungnasjúkdómum en sumir einstaklingar reykja mikið og lengi án þess að fá lungnasjúkdóm.

Þessar rannsóknir hafa verið gagnrýndar og sumir hafa átt í miklum erfiðleikum með að kyngja niðurstöðunum. Gagnrýnendurnir hafa m.a. bent á að aukin fæðingarþyngd tengist góðri efnahagslegri þjóðfélagsstöðu og kransæðasjúkdómur fylgi slæmri efnahagslegri þjóðfélagsstöðu. Einnig hefur verið bent á mikið brottfall úr sumum þessara rannsókna (þátttakendur tapast úr rannsókninni) en slíkt getur leitt til skekkju ef viss gerð einstaklinga dettur út en aðrar ekki. Þetta gæti hugsanlega truflað niðurstöður rannsóknanna. Þessu er öllu búið að velta fram og til baka og niðurstaðan er ótvíræð, vissulega eru hér á ferðinni truflandi þættir en þeir skekkja rannsóknirnar ekki nægjanlega mikið til að það breyti lokaniðurstöðunum. Enn einn möguleiki væri að lítil fæðingarþyngd stuðlaði að kransæðasjúkdómi með áhrifum á þekkta áhættuþætti eins og háan blóðþrýsting, sykursýki eða blóðfitu en rannsóknir benda til að svo sé ekki. Í svona tilvikum er m.a. hægt að beita öflugum reikniaðferðum sem draga úr eða eyða áhrifum truflandi þátta. Þó að enn séu til efasemdamenn er nú orðið almennt viðurkennt að milli fæðingarþyngdar og hættu á kransæðasjúkdómi sé öfugt samband. Þetta gildir að vísu bara upp að vissu marki því þegar fæðingarþyngd verður meiri en 4 kg fer áhættan aftur að aukast. Þetta er talið stafa af því að börn mæðra með sykursýki eru oft yfir 4 kg og vegna sykursýkinnar og arfgengi hennar er þessum börnum hættara en öðrum að fá kransæðasjúkdóm síðar á ævinni.

Nú, þegar búið er að staðfesta að lítil fæðingarþyngd feli í sér aukna hættu að fá kransæðasjúkdóm, liggur næst fyrir að rannsaka hvernig á þessu stendur og hvaða þýðingu það hefur fyrir þjóðheilsu. Manni gæti dottið í hug að draga mætti úr hættu á kransæðasjúkdómi með því að bæta næringarástand mæðra á meðgöngu en ekki er hægt að gefa sér slíkt fyrirfram. Rannsóknir hafa reyndar sýnt að líkamshæð mæðra hefur engin áhrif en of mikil líkamsþyngd eykur lítillega hættu á kransæðasjúkdómi hjá barninu. Sá möguleiki sem eftir stendur og þykir líklegasta skýringin er gölluð fylgja með ófullnægjandi starfsemi, sem heftir vöxt fóstursins, þetta leiðir til lágrar fæðingarþyngdar og eykur hættu á kransæðasjúkdómi á einhvern óþekktan hátt.

Heimasíða Magnúsar Jóhannsonar