Fósturlát

Fósturlát merkir að fóstrið deyr áður en það hefur náð nægum þroska til að lifa. Talað er um fóstur ef meðgangan nær ekki 22 vikum eða barnið er léttara en 500g. Algengast er að fósturlát verði á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar. Allar konur geta misst fóstur og er hættan á fósturláti á bilinu 10 – 35% – eftir aldri konunnar.

Hvaða einkenni benda til fósturláts?

Algengustu einkenni fósturláts snemma á meðgöngu eru:

  • blæðingar
  • verkir í legi
  • þungunareinkenni, s.s. brjóstaspenna og ógleði, hætta.

Blæðingar:

Ef blæðir á meðgöngu þarftu að láta fæðingalækni skoða þig. Læknirinn skoðar legið til að sjá hvort blæðingin er frá leginu sjálfu eða úr leghálsinum.Hann sér einnig hvort leghálsinn hafi opnast. Hafi leghálsinn styst, eða er opinn, getur það bent til þess að fósturlát sé að hefjast eða hafi þegar orðið. Læknirinn athugar líka stærð legsins sjálfs og hvort það er mjúkt eða stíft viðkomu. Sé legið stíft og aumt staðfestir það grun um að fósturlát sé yfirvofandi. Ómskoðun sker endanlega úr um hvaðan blæðingin er og hvort fóstrið er lifandi eða dáið.

Blæðingarnar geta verið jafnmiklar og venjulegar tíðir eða jafnvel enn meiri og þeim geta fylgt verkir í leginu, annaðhvort ofan við lífbeinið eða út í spjaldhrygginn.

Önnur einkenni um fósturlát geta verið smáblæðingar eða brúnleit/blóðlituð útferð dag eftir dag. Margar konur fá vott af blæðingum snemma á meðgöngu og er það oftast hættulaust. Það er samt er ráðlegt að fara í læknisskoðun ef blæðir eftir að þungun hefur orðið.

Stundum getur fóstrið dáið án þess að því fylgi blæðing eða óþægindi. Þá hverfa þungunareinkennin og legið stækkar ekki þótt líði á meðgöngu. Við hlustun heyrist ekki fósturhjartsláttur og ómskoðun staðfestir það. Yfirleitt fer fóstrið af sjálfu sér en stundum þarf að gera útskaf til að ná því.

Það er konum oft mikið áfall að missa fóstur, sérstaklega ef það gerist oft eða seint á meðgöngu. Mörgum finnst gott að tala við prest eða einhvern sem gengið hefur í gegn um svipaða reynslu. Árlega er einnig haldin minningarathöfn um látin fóstur í Fossvogskapellu. Sjúkrahúsprestar og prestar kapellunnar veita nánari upplýsingar.