Forvarnarstarf Alnæmissamtakanna

Á meðan ekki er búið að finna bóluefni gegn alnæmi, eða lækningu á sjúkdómnum, verðum við – hvert og eitt okkar – að bregðast við með því að sýna varkárni og ábyrgð í kynlífi, svo alnæmi breiðist ekki frekar út. Fræðsla og upplýsingar eru þess vegna afar mikilvægar.

Allt frá stofnun Alnæmissamtakanna hafa þau staðið fyrir öflugu forvarnarstarfi. Fyrst á meðal samkynhneigðra karla, sem þá voru taldir vera stærsti áhættuhópurinn, en seinustu ár hefur þó nær eingöngu verið stílað inn á gagnkynhneigða og markhópurinn verið á aldrinum 14 til 18 ára. Af þeim sökum hefur mikið verið farið með fræðslu í grunn- og framhaldsskóla og undanfarin ár hefur að meðaltali verið talað yfir 1.500 til 2.000 einstaklingum á ári. Peningarnir hafa verið af skornum skammti og hefur þetta starf því allt verið unnið í sjálfboðavinnu. Það er eflaust ástæðan fyrir því að ekki fæst fólk til að sinna þessu eins og skyldi. Á síðasta ári komu þó læknanemar til liðs við okkur, en þeir fóru í skólana og tóku fyrir helstu kynsjúkdóma. Fulltrúar frá Alnæmissamtökunum sáu hinsvegar um fræðsluna varðandi HIV-smit og alnæmi.

Það er stórfurðulegt að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki sjá þörfina fyrir að efla forvarnir, en vegna fjárskorts hefur fræðslustarfið einungis verið á einni eða fárra hendi. Það skal þó tekið fram að allir þeir sem óska eftir fræðslufundi fá þá ókeypis.

En áfram skal haldið með bjartsýnina að vopni og er fyrirhuguð mikil herferð á árinu 2002, sem vonandi mun taka til sem flestra grunnskóla á landinu. Herferðin mun kosta okkur rétt rúmlega tvær milljónir, og er þá einungis átt við ferða- og gistikostnað. Þessi herferð verður unnin í samstarfi við fræðslumiðstöðvar á landinu öllu.

Besta forvörnin er þó að tala opinskátt um sjúkdóminn og hættuna á smiti og að þeir sem eru smitaðir geti fordómalaust miðlað af reynslu sinni.

Dæmi um spurningar sem komið hafa upp á fræðslufundum og svör við þeim:

Spurning: Er ekki erfitt að geta ekki stundað kynlíf þegar maður er orðinn smitaður?

Svar: Fæstir geta verið án kynlífs og þess vegna er bara að fara varlega, stunda áhættulausara kynlíf og nota smokk.

Spurning: Smitast HIV-veiran við munnmök?

Svar: Já, smit getur mjög auðveldlega átt sér stað við munnmök. Þess vegna ber að forðast þau.

Spurning (stúlka spyr): Er ekki allt í lagi, ef maður sleppir því bara að sofa hjá homma?

Svar: Hann væri líklega ekki hommi ef hann væri að sofa hjá stúlkum. Þar fyrir utan eru hommar ekki lengur í stærsta áhættuhópnum, heldur stúlkur á aldrinum 18-30, stúlkur á þínum aldri.

Ef fólki vantar upplýsingar um starfið eða önnur mál er því velkomið að hringja á skrifstofutíma samtakanna s.e. mán-fimm. kl. 12.00- 16.00 í síma 552-8586.