Fórnum við heilsunni fyrir vinnuna?

Nýverið komu til landsins sænsku sérfræðingarnir Marie Åsberg og Åke Nygren, prófessorar við Karolinska institutet í Stokkhólmi. Þau hafa sérhæft sig í að skoða hvað veldur því að veikindafjarvistir hafa aukist til muna á undanförnum árum.Þau rannsökuðu m.a. vinnutengda álagsþætti og hvaða áhrif þeir hafa á líf fólks. Þar kom fram að æ fleiri einstaklingar, sem jafnan hafa verið við góða heilsu, greinast með depurð, kvíða, vefjagigt og jafnvel þunglyndi.

 

Þegar fólk var spurt hvað það teldi valda þessari vanlíðan vildu mjög margir tengja það vinnuumhverfi sínu. Þar sem of miklar kröfur væru gerðar til einstaklinga eða þeir sjálfir uppteknir af starfsframa og sjálfsvirðingin væri metin eftir vinnuframlagi, væri meiri hætta á langvarandi veikindum. Þegar vinnan situr í fyrirrúmi, og jafnvel námi bætt ofan á fulla vinnu, verða aðrir hlutir óhjákvæmilega út undan.

 

Sá sem leyfir vinnunni að gleypa alla sína krafta einangrast meira og meira frá vinum og fjölskyldu. Í fyrstu hættir einstaklingurinn að gefa sér tíma til að halda matarboð fyrir vinina eða mæta í boð. Leikhús- og bíóferðum fækkar eða afleggjast. Líkamsræktin skiptir ekki máli lengur. Samverustundum með maka fækkar. Börnin fá minni tíma, sem aftur þýðir að þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa við nám og leik og eiga þannig á hættu vanlíðan sem getur leitt þau inn í heim fíkninnar.

 

Allt í einu vaknar svo einstaklingurinn upp við vondan draum. Hann eða hún hefur hvorki sinnt sér né sínum. Einkenni streitu gera vart við sig, hjartsláttur, svimi, vöðvabólga, depurð, svefnörðugleikar, vonleysi, hjónabandið í uppnámi, minni afköst í vinnu. Einstaklingurinn verður óöruggur með sig, gefst jafnvel upp og neyðist til að fara í veikindafrí eða er kannski sagt upp. Sumir missa fjölskyldu sína. Síðan er erfitt að koma sér af stað aftur og sumir þurfa endurhæfingar við til að koma lífi sínu aftur í lag.

 

Hvað er til ráða?

 

 

Við þessar aðstæður skiptir miklu máli að horfa á lífið í heild. Setja sér markmið í einkalífinu jafnt og í vinnunni. Lífið er einskonar vogarskál þar sem einkasjálfið er á annari voginni og vinnusjálfið á hinni. Við þurfum að rækta hvort tveggja. Fjölskyldan og vinir eru þeir sem styðja við bakið á okkur í blíðu og stríðu. Það eru þau sem við elskum að hlæja með eða gráta við öxlina á. Vinnan á hinn bóginn reynir á hæfileika okkar og veitir okkur fjárhagslegt öryggi, sem er forsenda þess að við getum leyft okkur ýmsa hluti. Vinnan má vera ögrandi og reyna á en vinnuálagið þarf að vera sanngjarnt.

 

Yfirmenn þurfa að vera vakandi fyrir þeim starfsmannaauði sem þeir ráða yfir og nota á þann hátt að allir fái notið hæfileika sinna. Yfirmenn eiga að vera vakandi fyrir því að hrósa; þannig ná þeir enn frekar því besta fram hjá hverjum einstaklingi sem um leið verður ánægðari í vinnu og leggur sig betur fram. En fyrst og síðast er það samt einstaklingurinn sjálfur sem þarf að horfa í eigin barm og ber endanlega ábyrgð á eigin heilsu.

 

Tenglar: www.thunglyndi.landlaeknir.is

 

www.ged.is

Frá Landlæknisembættinu