Fordómar – Samfélagsmein

Hér í þessum pistli ætla ég að fjalla um ákveðið þjóðfélagsmein sem hrjáir mörg nágrannalönd okkar og því miður ekki síður okkar land, þótt meinið sé ef til vill duldara hér á landi en víða annars staðar. Meinið, sem hér um ræðir eru fordómar og mismunun gagnvart fólki, sem skilgreint hefur verið í ákveðinn hóp vegna sameiginlegra einkenna sinna. Þar sem ég þekki best til fordóma gagnvart fólki af erlendum uppruna á Íslandi, legg ég megin áherslu á fordóma gagnvart þeim hópi hér. Því er stundum haldið fram að hér á landi séu engir fordómar og þaðan af síður rasismi eða mismunun. Þeir sem þessu halda fram eru gjarnan að tala um eina ákveðna tegund fordóma þ.e. fordóma sem eru opnir og augljósir og birtast með ofbeldi eða samtökum rasista. Hingað til hefur verið blessunarlega lítið um þessa birtingarmynd fordóma á Íslandi, þó dæmi séu vissulega til um ofbeldi gagnvart fólki vegna uppruna þess. Duldir fordómar, hversdagsrasismi eða óbein mismunun eru hugtök sem færri þekkja en einkenni þeirra eru fyrst og fremst að þau eru aðeins augljós þeim sem fyrir þeim verða eða eru í nánum tengslum við þolendurna. Þetta er ein ástæða þess að margir halda að hér á landi séu litlir sem engir fordómar.

Duldir fordómar gagnvart fólki af erlendum uppruna geta lýst sér á ýmsa vegu, en það sem er þeim sameiginlegt er að þeir byggja allir á ákveðinni fyrirlitningu og lítílsvirðingu gagnvart þeim sem ekki eru af íslenskum uppruna. Þeir geta lýst sér á ýmsan hátt og má þar t.d. nefna atriði eins og afskiptaleysi, þannig að þeir einstaklingar sem verða fyrir þeim eru einangraðir utan við hópinn, þeir verða fyrir skítkasti og niðurlægjandi uppnefnum, það er talað niður til þeirra eða þeir fá verri þjónustu og neikvæðara viðmót. Fordómar í hugum fólks eru yfirleitt næsta skref á undan mismunun, þ.e. fordómarnir í hugum fólks hafa áhrif á hegðun þess gagnvart einstaklingum sem tilheyra þeim hópi sem fordómarnir beinast gegn. Mismunun getur einnig birst á marga ólíka vegu. Bein mismunun getur átt sér stað af opinberum aðilum t.d. í gegnum lög og reglur sem gera fólki mishátt undir höfði eftir uppruna, þjóðerni, kynferði, aldri eða öðrum þáttum. En mismununin getur líka verið óbein og lýsir það sér t.d. hjá einstaklingum sem veita fólki af erlendum uppruna verri þjónustu eða gefa ónógar upplýsingar þannig að viðkomandi fær ekki tækifæri á að nýta sér samfélagslegan rétt sinn. Þannig mismunun verður enginn var við nema sá sem fyrir henni verður. Því fylgir óneitanlega gífurleg vanlíðan að verða fyrir mismunun af þessu tagi, jafnvel á hverjum einasta degi. Fólk, sem upplifir afskiptaleysi og einangrun þjáist af einmannaleika og depurð, það getur verið afar erfitt fyrir þann, sem er smánaður og hæddur af umhverfinu að viðhalda jákvæðri sjálfsmynd og neikvæð sjálfsmynd leiðir til vanlíðunar og einangrunar og sá sem óttast umhverfi sitt vegna stöðugs neikvæðs viðmóts og fyrirlitningar á vissulega á hættu að þjást af kvíða og þunglyndi. Flestir vita hvaða áhrif einelti hefur á þolendur þess. Birtingarmyndir dulinna fordóma eru ekki ósvipaðar einelti og hafa sömu áhrif á einstaklingana sem fyrir þeim verða.

Þannig má segja að duldir fordómar og hversdagsrasismi líkist helst sýkingu í þjóðarlíkamanum. Veiru, sem ekki er sjáanleg, en hættuleg samfélaginu í heild engu að síður. Ef ekkert er að gert til að vinna gegn þessu meini og haldið áfram að loka augunum fyrir hversu hættulegt það er, bara af því að það sést ekki, er hætt við að því takist að veikja undirstöður samfélagsins í heild.

Fyrsta skrefið er því að viðurkenna meinið, jafnvel þótt það sé ekki öllum augljóst og vinna síðan markvisst að því að hefta útbreiðslu þess. Besta leiðin til þess er fræðsla og málefnaleg umræða sem brýtur niður staðalmyndirnar sem dæmt er eftir. Fordómar og neikvæðar staðalmyndir um ákveðna hópa samfélagsins eru lærðar. Börn fæðast ekki með fordóma, þau læra þá. Það er því í okkar höndum, þ.e. þeirra fullorðnu að hafa gát á hvaða staðalmyndir börnin okkar læra og kenna þeim að varast þær og þekkja. Með því móti læra þau að meta hvern einstakling á hans eigin forsendum en ekki aðeins sem fulltrúa ákveðins hóps. Enginn einstaklingur er aðeins fulltrúi ákveðins hóps og skyldi aldrei vera þvingaður í þá stöðu.

Vefur Alþjóðahúss er www.ahus.is

Hér á Doktor.is mun framvegis birtast efni sem til verður í hvatningar- og fræðsluverkefni Landlæknisembættisins, Heilsan í brennidepli. Sjá nánar Heilsan í brennidepli

Þá er einnig hægt að fá nánari upplýsingar á vef Landlæknisembættisins, www.landlaeknir.is