Forðist Munntóbak

Inngangur

Þegar talað er um reyklaust tóbak er átt við neftóbak og munntóbak. Neftóbaks hefur verið neytt á Íslandi í mjög langan tíma. Munntóbaks hefur aftur á móti verið neytt í mun styttri tíma svo einhverju nemi en notkun þess hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum einkum meðal yngra fólks. Ein skýringin á þessari auknu neyslu ungs fólks gæti verið sú, að það hefur verið talið minna ávanabindandi og ekki eins hættulegt og að reykja. Nú er aftur á móti ljóst að neysla munntóbaks er ekki síður ávanabindandi en sígarettureykingar.

Áhrif munntóbaks

Munntóbak er þurrkað og samanpressað og inniheldur mikið magn af nikótíni, um það bil þrefalt meira en er í sígarettutóbaki. Nikótínið hefur mjög slakandi áhrif þegar þess er neytt í miklu magni og verður neytandi munntóbaks mun frekar háður því en sá sem notar reyktóbak. Þegar munntóbakið er lagt undir vörina kemst það auðveldlega inn í háræðar í slímhúð munnsins og skilar mjög hratt áhrifum í líkama viðkomandi einstaklings. Fljótt verða sýnileg merki á slímhúð þeirra einstaklinga sem nota munntóbak, hún verður sprungin og jafnvel rifin að sjá, því í sumar tegundir munntóbaks eru settar gleragnir sem rífa slímhúðina.

Munntóbak er hlaðið sykri til bragðauka, hækkar því sýrustigið í munni og eykur þar með líkur á tannskemmdum. Oft verður tannholdið bólgið og það hörfar upp á rót tannarinnar. Óbragð og ólykt fylgir bólgum í tannholdi, einnig minnkar bragð og lyktarskyn þeirra sem nota munntóbak. Auk þess er það mikið lýti að sjá fólk með útbólgna vör undan tóbaki.

Munntóbak og krabbamein

Talið er að í munntóbaki séu amk 28 krabbameinsvaldandi efni og sum í meira mæli en í reyktóbaki. Slímhúð þykknar og langvarandi notkun eykur líkur á krabbameini í munnholi og munnvatnskirtlum, einnig í vélinda og ofanverðum meltingarvegi þar sem einhverju af munntóbakssafa er kyngt og tóbakið er líka talið geta valdið krabbameini í brisi. Sá sem notar 10 grömm af munntóbaki á dag fær í sig þrefalt meira af krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir 1 pakka af sígarettum á dag. Talið er að við notkun munntóbaks aukist hættan á því að fólk fái munnkrabbamein verulega. Um 37% þeirra sem fá krabbamein í munnhol eftir notkun munntóbaks eru enn á lífi fimm árum síðar.

Íþróttir og munntóbak

Íþróttir og munntóbak eiga engan veginn saman frekar en íþróttir og reykingar. Við notkun á munntóbaki þrengjast æðarnar í líkamanum og blóðflæði til vöðva minnkar. Þar af leiðandi tekur það mun lengri tíma að byggja upp vöðva hjá þeim einstaklingum sem nota munntóbak en hjá þeim sem gera það ekki. Það er meiri hætta á meiðslum og líka er fólk lengur að ná sér eftir meiðsli ef það notar munntóbak. Notkunin veldur greinilegri hækkun á blóðþrýstingi.

Afreksfólk í  íþróttum hefur komið fram  með útbólgnar varir sem gefur þau skilaboð til aðdáenda að notkun á slíku tóbaki sé í lagi þó að fólk stundi afreksíþróttir. Það er samfélagslega óábyrgt að íþróttafólk sem er fyrirmynd æsku landsins gefi í skyn að notkun munntóbaks sé hluti af þeirra lífsstíl. Slík skilaboð eru slæm, geta haft snjóboltaáhrif og mega hvergi sjást. Það ætti enginn afreksmaður eða afrekskona að nota tóbak af neinu tagi.

Þeir sem hafa áhuga á að hætta notkun munntóbaks er bent á að fá einstaklingsmiðaða aðstoð í síma 8006030 (ráðgjöf í reykbindindi) alla virka daga milli kl. 17 og 19.

biritist fyrst í blaði UFA 2010