Flúor í tannvernd

Félag Íslenskra barnatannlækna
Álit 1. Flúor í tannvernd
Desember 1996.

Magnús Júlíus Kristinsson, barnatannlæknir
Margrét Rósa Grímsdóttir, barnatannlæknir
Ólafur Höskuldsson, barnatannlæknir
Sigurður Rúnar Sæmundsson, barnatannlæknir
Stefán Yngvi Finnbogason, barnatannlæknir.

Flúor mun vera sautjánda algengasta frumefni jarðskorpunnar1 og er talið vera um 0,032% hennar. Það er að finna í mismiklum mæli í öllu vatni, jarðvegi og andrúmslofti jarðar2

Helst berst okkur flúor með drykkjarvatni, sumum jarðargróðri og vissu sjávarfangi2. Ekki er með vissu vitað hvort það er mönnum lífsnauðsynlegt en þó eru vísbendingar um að þörf sé snefils þess til myndunar hinna hörðu vefja líkamans og til eðlilegrar æxlunar. 3 Virkni flúors gegn tannátu hefur verið þekkt í rúma hálfa öld. Þótt enn sé ekki að fullu ljóst hvernig það virkar eru áhrifin óumdeild og ekki þekkist neitt annað efni er dregur úr tannátu sem flúor.

Sums staðar er þéttni flúors í vatni hæfileg, annars staðar of mikil en víða of lítil svo sem hér á landi. Flúorbæting neysluvatns mun vera ódýrasta og skilvirkasta leiðin til þess að sjá fólki fyrir flúor í þeim tilgangi að draga úr tannátu. 4 Þar sem drykkjarvatn hefur ekki verið flúorbætt hefur verið brugðið á önnur ráð svo sem að hafa á boðstólum flúortöflur, flúorskol og flúortannkrem. Öllum þrem telst þó fylgja nokkur hætta ofnotkunar því um flúor gildir hið sama og um svo mörg önnur efni og efnasambönd sem mannlíkamanum eru nauðsynleg, svo sem vítamín, vatn og súrefni, að magn þess þarf að vera hæfilegt. Hæfilegt magn flúors er skaðlaust og hindrar tannátu en of mikið flúor skaðar, einkum tennur og bein.

Flúortannkrem

Sýnt hefur verið fram á að notkun flúortannkrems við daglega munnhirðu dragi úr tíðni tannátu. Er slík notkun flúortannkrems nú talin eiga stóran þátt í þeirri rénun tannátu sem hefur orðið vart í mörgum vestrænum löndum á síðasta aldarfjórðungi.5 Til dæmis er tannáta í barnatönnum nú sögð heyra sögurnni til víða á Norðurlöndum. Niðurstöður nokkurra íslenskra kannana benda til svipaðrar minnkunar tannátu þótt nokkru seinna sé hún á ferðinni hér. Þessi rénun tannátu hefur orðið þrátt fyrir flúorsnauð drykkjarvatns okkar og þó að ekki hafi dregið úr sykurneyslu landsmanna sem mun vera einhver sú mesta í heiminum. Meðal þess sem skýrt gæti dvínandi tíðni tannátu hér er aukin og æ almennari notkun flúortannkrems líkt því sem hefur orðið í mörgum öðrum vestrænum löndum.

Vel flestar tegundir þess tannkrems sem nú eru hér á boðstólum innihalda flúor sem nemur 0,04% hið minnsta og 0,15% hið mesta. Við tannburstun barna yngri en 6 ára sem ekki virðist sérlega hætt við tannátu skyldi nota tannkrem sem inniheldur allt að 0,06% F, svo kallað barnatannkrem. Við tannburstun barna yngri en 6 ára sem hætt er við tannátu mætti hins vegar nota krem með allt að 0,10% F. Sjö ára börnum og þaðan af eldri ætti að sjá fyrir tannkremi með 0,10% F eða allt að 0,15% F.

Tannburstun með hæfilegu magni flúortannkrems ætti að hefjast strax og fyrsta tönnin kemur fram. Við tannburstun barns sem er að taka fyrstu tennurnar ætti að nota það magn tannkrems sem samsvarar fjórðungi matbaunar eða fjórðungi stærðar naglar litla fingurs barnsins. Þegar allar tennurnar eru komnar fram ætti að nota það magn tannkrems sem samsvarar lítilli baun eða stærð naglar litla fingurs barnsins. Fram að sex ára aldri barna skyldu foreldrar skammta þeim flúortannkremið hverju sinni og varðveita kremið þar sem börnin ná ekki til.

Merkingar á umbúðum tannkems eru í flestum tilvikum óskýrar og jafnvel villandi um flúorinnihaldið. Ýmist er þar greint frá styrk þess salts sem flúorið myndar með öðrum efnum kremsins og styrk flúorjónarinnar, F. Ennfremur er ruglandi að ýmist er tiltekinn hudraðshluti (%) flúors af heildarþyngd innihalds, eða hlutur þess af milljón táknað með skammstöfuninni ppm (parts per million). Upplýsingar um innihalds tannkremsumbúða þarf að einfalda og staðla svo að þær verði öllum almenningi skiljanlegar. Félag íslenskra barnatannlækna leggur til að á tannkremstúpum verði tilgreindur hundraðshluti (%) flúorjóna í tannkreminu með greinilegum hætti.

Flúorskol

Tannskolun með flúorlausn (0,20%) á 1-2 vikna fresti varnar sannanlega tannskemmdum. Því má mæla með almennri notkun þess í samfélögum þar sem tannskemmdir eru tíðar. Að svo komnu er þó ekki vitað nóg um tíðni tannátu í einstökum byggðarlögum hér á landi til þes að ráðleggja um notkun flúorskols í skólum. Félag íslenskra barnatannlækna mælist til þess að rannsóknir sem sýna tíðni tannátu skólabarna á Íslandi verði birtar í ritrýndum tímaritum hið fyrsta. Einnig er hér fáanleg í lausasölu veik flúorlausn (0,05%) til daglegrar notkunar, en hún er gagnleg þeim sem hætt er við tannátu.

Hjá börnum undir skólaaldri hafnar ætíð visst magn munnskolvatns niðri í maga hvernig svo sem að er farið og einnig kunna börn að kyngja óvart öllum skolvökvanum í stað þess að spýta honum út að skolun lokinni. Vegna þessa og mögulegs skaða tannglerungs á myndunarskeiði er tannskolun með flúorlausn í hvaða styrkleika sem er ekki r&aacute ;ðleg fyrr en á skólaaldri nema að höfðu samráði við tanlækni.

Flúormeðferð hjá tannlækni

Flúorsamsetningar sem tannlæknar bera á tennur til varnar gegn tannátu er af þrem megin gerðum. Algengast er svo kallað flúorlakk af a.m.k. tveim tegundum. Einnig tíðkast penslun með flúorlausn og meðferð sem er fólgin í því að flúorhlaupi er haldið að tönnum í nokkrar mínútur.

Flúorlökkunin verður að teljast þeirra heppilegust bæði vegna öryggis hennar og virkni gegn tannátu. Vart verður mælt með penslun með flúorlausn þar eð aðrar virkari aðferðir eru tiltækar. Meðferð með flúorhlaupi er viðunandi fyrir tennur þeirra sem eru yngri en 4 ára sé fyllstu varúðar gætt.

Eðlilegt er að tannlæknir meti hversu oft slíkrar flúormeðferðar er þörf.

Flúoraukar

Eftir að gagnsemi flúors varð ljós um 1940, en áður en nothæft flúortannkrem stóð til boða, var tekið að bæta þeim sem bjuggu við flúorsnautt drykkjarvatn þann skort á ýmsa vegu svo sem með flúordropum eða flúortöflum eins og hér eru í umferð. Með þeirri skammtastærð sem mælt hefur verið með var verið að reyna að líkja eftir þeirri flúortekju sem fæst með því að neyta daglega vatns sem inniheldur 0,0001% flúors (1 mg flúors í hverjum lítra). 6 Ráð var fyrir gert þegar skammtastærðir voru ákvarðaðar að flúortekjan væri sem næst eingöngu úr drykkjarvatni. Í sumum löndum er flúor hins vegar mun víðar að finna en í neysluvatni og nokkrar kannanir hafa leitt í ljóst tengsl milli flúortöflunotkunar og galla í glerungi tanna. 7 Í grannlöndum okkar hafa því ráðlagðir dagskammtar flúors í töfluformi verið teknir til endurmats.

Hér á landi virðist ekki vera sömu sögu að segja. Hér finnst flúor ekki í drykkjarvatni, drykkjarvörum eða matvælum svo nokkru nemi. Hins vegar inniheldur nánast allt okkar tannkrem flúor og ljóst er að börn gleypa töluverðan hluta þess tannkrems sem í munninn er sett. Hér er því einnig mál að endurskoða ráðlagða dagskammta af flúortöflum.

Komið hefur í ljós að gagnsemi flúors í töfluformi er nokkru minni en í fyrstu var ætlað. Talið er að í flestum tilfellum bæti notkun flúortaflna litlu við þá vörn gegn tannátu sem rétt notkun flúortannkrems veitir. Af þeim sökum er vafasamt að flúorauki í töfluformi geti talist gagnlegur öllum almenningi. Fyrir börn í ýmsum áhættuhópum gæti þó verið þörf flúorauka í töfluformi. Á það einkum við um fötluð börn og langsjúk sem þarfnast lyfja er hafa skaðleg áhrif á tennur eða eiga erfitt með munnhirðu um lengri eða skemmri tíma, börn með tannréttingatæki og börn með mikla tannátuvirkni svo dæmi séu nefnd. Fyrir börn í sérstakri áhættu mættu daglegir flúorskammtar vera eftirfarandi:

Aldur mg F- Töflufjöldi
1/2 árs til 3 ára 0,25 1 tafla
4 ára til 6 ára 0,50 2 töflur
7 ára og eldri 1,00 4 töflur

Til þess að flúor komi tönnum að sem bestu gagni þurfa staðbundin áhrif þess á tennur að fá notið sín. Því þurfa töflurnar t.d. að fá að leysast hægt upp í munninum. Flúortöflur sem eru gleyptar eða muldar út í mat eru tönnum nánast gagnslausar. Af þessum sökum er þörf á flúor í formi sem er heppilegra til þess að láta renna í munni en þær töflur sem nú eru á boðstólum. Hér mætti benda á tyggigúmmí og sogtöflur sem innihalda flúor.

Á myndunarskeiðinu stafar glerungi tanna ávallt einhver hætta af öllum flúorinntökum. Glerungur fullorðinsframtanna er vart úr hættu fyrr en við fjögurra ára aldurinn og glerungsmyndun annarra fullorðinstanna lýkur ekki fyrr en um sex ára aldur. Fyrir sex ára aldur ætti því aldrei samtímis að gefa flúortöflur og bursta með flúortannkremi heldur dreifa á daginn og láta líða nokkrar klukkustundir á milli.

Þar eð þörf flúorauka kann að breytast með tímanum þarf að endurmeta hana reglulega og hvetur Félag íslenskra barnatannlækna til reglulegra kannana heildarflúortekju íslenskra barna til þess að slíkt endurmat verði mögulegt.

Helstu heimildir

1. LARGENT EJ. Fluorides and Human Health. Geneva: WHO, 1970;17.
2. BELL ME og LUDWIG, TG. Fluorides and Human Health. Geneva: WHO, 1970;19.
3. ERICSSON Y. Fluorides and Human Health. Geneva: WHO, 1970;14.
4. MURRAY JJ, RUGG-GUNN AJ og JENKINS GN. Fluorides in Caries Prevention, 3. útgáfa Oxford: Butterworth Heinemann, 1991;222-261
5. NAYLOR MN. (ritstj.) Second international conference, changes in caries prevalence. International Dental Journal 1994;44 (Suppl. 1).
6. ARNOLD EA, McCLURE FJ og WHITE CL. Sodium fluoride tablets for children. Dental Progress 1960;1:8-12.
7. ISMAIL Al. Fluoride supplements: current effectiveness, side effects and recommendations. Community Dentistry and Oral Epidemiology 1994;22:164-172.
8. RIORDAN PJ. Fluoride supplements in caries prevention: a literature review and proposal for a new dosage schedule. J Public Health Dentistry 1993;53:174-189.
9. BIBBY BG., WILKINS E. og WITOL E. A preliminary study of the effects of fluoride lozenges and pills on dental caries. Oral Surg. 1955;8: 213.
10. EVANS RW og STAMM JW. An epidemiological estimate of the critical period during which humans maxillary central incisors are most susceptible to fluorosis. Journal of Public Dental Health Dentistry 1991;51:251-259.