Flúor

Flúor er eitt algengasta frumefni jarðarinnar og finnst mjög víða, svo sem í andrúmslofti, sjó, jarðvegi og í dýra- og jurtaríkinu. Ítrekaðar rannsóknir hafa sýnt fram á að flúor er langvirkasta efnið til varnar tannskemmdum.

Vatn er aðalflúorgjafi fólks en sé það undanskilið fæst flúor aðallega úr té og fiskmeti, og þá einkum úr beinum og roði. Rannsóknir hafa leitt í ljós að flúortekja Íslendinga er mjög lítil þar sem drykkjarvatn okkar er mjög flúorsnautt. Holl áhrif flúors á tennur í hæfilegu magni eru óvéfengjanleg. Drykkjarvatn með um 1 mg af flúor í hverjum lítra dregur verulega úr tannskemmdum. Skiptir þá ekki máli hvort flúorinn er í vatninu frá náttúrunnar hendi eða hefur verið bætt í það. Margar þjóðir hafa aukið flúormagn þess og náð með því góðum árangri. Flúor hefur einnig verið bætt í matvæli, svo sem salt og mjólk, eða gefinn í töfluformi. Þá fær og glerungur tannanna flúor úr tannkremi og við flúormeðferð tannlæknis.

Flúor dregur úr tannátu á þrennan hátt:

  • Í fyrsta lagi dregur hann úr áhrifum sýkilsins með því að smjúga inn í veggi hans og rugla með því hvatastarfsemi hans þannig að sýrumyndun hans verður minni.
  • Í öðru lagi, og þá ekki síst á tannmyndunarskeiði, sest hann á glerunginn og styrkir hann og á sama hátt tekur glerungurinn í sig flúor frá tannkremi eða í flúormeðferð tannlæknis svo að tennurnar verða torleystari í sýru.
  • Í þriðja lagi hindrar flúor úrkölkun vegna sýrumyndunar og hraðar stórlega endurkölkun og græðslu tannátusárs á byrjunarstigi.
Mjög hefur dregið úr tannskemmdum hjá börnum og unglingum á undanförnum árum á Íslandi sem og í öðrum löndum. Þessi þróun er umfram allt talin tengjast aukinni notkun flúors. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er talið að yfir 120 millj. íbúa fái hæfilegt magn flúors í drykkjarvatni. Ítarlegar samanburðarrannsóknir á heilsufari fólks sem fær hæfilegt magn flúors í drykkjarvatni og þess sem minna magn fær hafa ekki leitt í ljós nein áhrif flúors á heilsufar önnur en þau að hann styrkir tennurnar. Vegna þess hve flúortekja með fæðu er lítil hér á landi fá íslensk skólabörn aðallega flúor úr tannkremi en einnig við flúorskolun í skólum og við reglubundna flúormeðferð hjá tannlæknum.

Flúor fæst úr…..

……flúortannkremi, flúorskoli, flúorsogtöflum, flúortyggigúmmíi og flúorlakki.

I. Flúortannkrem

Allir sem hafa eigin tennur þurfa að bursta þær með flúortannkremi kvölds og morgna til að viðhalda góðri tannheilsu. Tannburstun með flúortannkremi á að hefjast strax og fyrsta tönnin kemur. Mikilvægt er að aðstoða börn við tannburstun til 10 ára aldurs.

Gagnið er ekki í réttu hlutfalli við magnið

Sparið tannkremið, bóla á stærð við nögl á litla fingri nægir á burstann hverju sinni. Allt umfram það fer til spillis. Það skiptir höfuðmáli hversu lengi og oft flúor snertir tennurnar. Leyfið því tannkreminu að staldra við í munninum. Ekki er nauðsynlegt að skola munninn á eftir, það nægir að skyrpa.

Það fer eftir ástandi tannanna hvort nauðsynlegt er að fá flúor með öðrum hætti en úr tannkremi. Sjúkdómar, lyfjanotkun og lélegt mataræði auka flúorþörf. Leitaðu ráða hjá tannlækni eða tannfræðingi.

II. Flúorskol

Öll grunnskólabörn landsins ættu að skola tennurnar með sterkri flúorlausn, 0,20%, á 1-2 vikna fresti. Veik flúorlausn, 0,05%, til daglegrar notkunar er fáanleg í lausasölu.

III. Flúorsogtöflur

0,25 mg töflur fást í heilsugæslustöðvum og í lausasölu.

Daglegir flúorsogtöfluskammtar
Börn yngri en 4 ára: Hæfilegt magn 0,25 mg eða 1 tafla.
Börn á aldrinum 4-6 ára: Hæfilegt magn 0,50 mg eða 2 töflur.
Börn 7 ára og eldri: Hæfilegt magn 1,0 mg eða 4 töflur.
Best er að dreifa sogtöflunum yfir daginn svo að staðbundin áhrif flúors verði sem mest. Flúorsogtöflur eru einkum heppilegar fyrir einstaklinga í áhættuhópi.

IV. Flúortyggigúmmí

Flúrortyggigúmmí getur verið heppilegt fyrir þá sem hafa skert munnvatnsrennsli og aðra sem hætt er við tannskemmdum. Notkun þess ætti alltaf að vera skv. fyrirmælum tannlæknis.

V. Flúorlakksmeðferð

Flúorlakksmeðferð hjá tannlækni er mjög áhrifarík og örugg. Lakkið loðir við tennurnar og verkar vel og lengi.

Ofnotkun flúors

Um ofnotkun flúors gildir það sama og um svo mörg önnur efni og efnasambönd sem mannslíkamanum eru nauðsynleg, svo sem vítamín, súrefni o.fl., að magnið þarf að vera hæfilegt. Hæfilegt magn flúors hindrar tannátu en of mikið flúor getur valdið breytingum í glerungi tanna, en þær eru skaðlausar.

Ofangreindar upplýsingar um flúor eru unnar af vinnuhópi á vegum Tannverndarráðs.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannn verndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is