Flogaveikilyf

Flogaveikilyf

Flogaveikilyf eru svo sem áður segir talin vera undirflokkur róandi lyfja og svefnlyfja.

Flogaveiki er skilgreind sem aukin tilhneiging til þess að fá endurtekin flog af mismunandi tegundum með eða án truflaðrar meðvitundar. Flog eru skilgreind sem einkenni um hryðjubundnar og jafnframt stjórnlausar truflanir í rafvirkni taugunga í heilaberki (fyrst og fremst stóra heila), en einnig í öðrum hlutum heilans. Algengust og venjulega mest áberandi eru svokölluð hreyfiflog, öðru nafni krampaflog eða krampar. Flogaveiki er nokkuð algengur sjúkdómur og er á ungum aldri algengasti sjúkdómur í miðtaugakerfinu. Orsakir eru margvíslegar, t.d. áverkar við fæðingu, misvægi milli hamlandi og örvandi boðefna í miðtaugakerfinu o.fl. Flogaveiki sem byrjar á ungum aldri er oft vægari og líklegri til þess að lagast en flogaveiki sem byrjar á fullorðnum aldri.

Flogaveiki er í megindráttum skipt í tvennt eftir því hvort flogin eru staðbundin í öðru heilahveli eða hafa verið svo í upphafi eða þau ná til heilans alls. Kallast fyrri flogin staðflog og eru oftast bundin við afmarkaða skemmd í heilaberkinum, svokallað flogavarp. Síðari flogin nefnast alflog, því að þau ná í upphafi til beggja heilahvela eða heilans alls eins og áður segir. Í lyfjafræðilegu tilliti skiptir þessi flokkun verulegu máli þar eð sum lyf gagnast best gegn staðflogum og það jafnvel þótt þau breiðist út og verði síðar að alflogum, en önnur lyf gagnast best gegn alflogum (þ.e.a.s. flogum sem þegar í upphafi eru alflog).

Eins og áður er bent á hafa öll róandi lyf og svefnlyf krampastillandi verkun í stórum eða fremur stórum lækningalegum skömmtum. Fenemal er dæmi um slíkt lyf. Það hefur verið notað sem flogaveikilyf og er þannig notað enn, en í litlum mæli þó. Gallinn við fenemal og önnur lyf í sama flokki er samt sá að þau slæva hlutaðeigandi einstaklinga um of um leið og þau halda krömpunum niðri. Lyf sem nefnd eru flogaveikilyf hafa því til að bera sérhæfðari krampastillandi verkun, þ.e.a.s. þau halda krömpunum niðri án þess að valda óhóflegri syfju. Sum þessara lyfja eru beinlínis leidd af róandi lyfjum og svefnlyfjum þar sem krampastillandi þættinum er haldið en svefnframkallandi verkun að mestu fjarlægð. Gott dæmi um þess konar lyf er fenýtóin sem leitt er af fenemali (sjá einnig töflu 2).

Fenýtóin er ásamt yngra lyfi, karbamazepíni, aðallyfið gegn staðflogum, en valpróínsýra er aðallyfið gegn alflogum. Ekkert þessara lyfja hefur nokkru sinni verið sett í samband við ávana eða fíkn og góðu heilli myndast ekki þol gegn krampastillandi verkun þeirra (sjá töflu 5). Fráhvarfseinkenni þekkjast þó og þar á meðal geta verið krampaflog. Öll þessi lyf geta hins vegar valdið fósturskemmdum og verður að hafa það í huga þegar lyfin eru gefin þunguðum konum sem haldnar eru flogaveiki.

Það er einnig sameiginlegt þessum lyfjum að þau hefta boðflutning í taugafrumum með því að hamla flæði á naríumjónum inn í frumur (sbr. töflu 5). Þetta er talið hamla losun á glútamínsýru úr skaftendum taugunga við flog. Glútamínsýra er aðalörvandi boðefnið í miðtaugakerfinu og gæti hömlun á losun þessa boðefnis því skýrt sértæka verkun lyfjanna á flog.

Birt með góðfúslegu leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum