Flogaveiki – hvað er það

Hvað er flogaveiki

Flogaveiki er íslenskt orð yfir epilepsy sem komið er úr grísku sögninni epilembanein og þýðir að grípa eða hremma. Orðið flogaveiki er að mörgu leiti villandi þar sem um er að ræða margskonar einkenni frekar en afmarkaðan sjúkdóm. Allir hafa meiri eða minni tilhneigingu til að svara ákveðnum áreitum með flogi en eru misnæmir. Þegar fólk hefur tilhneigingu til að fá endurtekin flog er sagt að það sé flogaveikt.

Flogaveiki er líkamlegt ástand sem verður vegna skyndilegra breytinga á starfsemi heilans og kallast þessar breytingar flog. Þegar heilafrumurnar starfa ekki rétt getur meðvitund einstaklingsins, hreyfingar hans eða gjörðir breyst um tíma. Einkenni floga er því röskun á hreyfingu, skynjun, atferli, tilfinningu og eða meðvitund. Flog eru oftast sjálfstýrð þ.e. kvikna og slokkna af sjálfu sér. Flogaveiki hrjáir fólk af öllum kynþáttum um allan heim og getur byrjað hvenær sem er á mannsævinni.

Orðið flogaveiki er notað um þá einstaklinga sem einkennum er alveg haldið niðri hjá og sem verða ekki varir við neinar óþægilegar aukaverkanir af lyfjameðferð og um þá sem fá flog öðru hverju. Einnig um fólk sem er með illviðráðanlega flogaveiki sem fær tíð og alvarleg flog og býr jafnvel við fötlun. Flogaveiki er algengust meðal barna og eldra fólks.

Leiki grunur á að maður hafi fengið flog er mikilvægt að rannsaka það nákvæmlega. Margir fá eitt flog einhvertíma á ævinni án þess að það sé flogaveiki en ef þau verða fleiri en eitt er mikilvægt að kanna hvort um flogaveiki geti verið að ræða.

Flogaveiki er tilkomin vegna endurtekinnar skammvinnar truflunar í rafboðum heilans sem geta haft í för með sér eftirfarandi afleiðingar:

 • Röskun á meðvitund eða vitund
 • Breytingar á hreyfingu líkamans, skynjun eða ástandi

Oftast er viðkomandi ómeðvitaður um hvað í raun gerðist. Af þeim sökum er mjög mikilvægt að muna og tengja nákvæmlega saman alla atburði í tengslum við flogið og gerð þess. Upplýsingar sjónarvotta eru læknum mjög mikilvægar og geta stundum verið einu upplýsingarnar sem greiningin byggir á.

Hann féll til jarðar og byrjaði að hristast og kippast til óstjórnlega, virtist eiga í erfiðleikum með að anda og varð fölur og þvalur. Eftir um það bil tvær mínútur hættu kippirnir og hann komst til meðvitundar en var aðeins ruglaður. Fyrir flogið var hann að gera það sem hann er vanur að gera en skyndilega hjóðaði hann upp og flogið byrjaði.

Greining Flogaveiki

Þegar læknir fær þessar upplýsingar vakna fjölmargar spurningar:

 • Fékk viðkomandi raunverulega flog eða er einhver önnur skýring á því sem gerðist?
 • Tengist flogið truflun á starfsemi heilans eða eru einhverjar aðrar orsakir?
 • Er þetta örugglega fyrsta flog eða hefur eitthvað svipað gerst áður?

Ef læknirinn er sannfærður um að þetta sé raunverulega flog (en hægt er að rugla mörgu öðru saman við flog) þá er spurt:

 • Er um að ræða einhverjar þekktar orsakir innan heilans, s.s. æxli sem er hægt að meðhöndla sérstaklega?

Til að finna svör getur viðkomandi þurft að fara í ýmsar rannsóknir. Þær eru til að hjálpa við að staðfesta greiningu og líka til að kanna hvort einhverjar þekktar orsakir valda flogunum.

Rannsóknirnar gefa ekki alltaf til kynna að um flogaveiki sé að ræða. Skoðun læknisins og sjúkrasaga viðkomandi hjálpa þar til. Það er ekki óeðlilegt að ekkert finnist við rannsókn en greiningin verði samt flogaveiki.

Blóðprufa er tekin til að skoða almennt heilbrigði og hjálpar til við að útiloka óeðlilega starfsemi í líkamanum sem gæti orsakað flogin.

Tölvusneiðmyndataka og segulómun (CT og MRI) af heila getur hjálpað til við að greina breytingar í heila sem hugsanlega orsaka flog. En hjá mörgum kemur ekkert fram sem skýrt geti hvað orsakaði flog.

Heilalínurit (EEG) mælir rafspennubreytingar í heilaberki. Rafskaut eru fest í hársvörð sjúklings á ákveðinn hátt. Boðin eru mögnuð upp og skráð með sérstökum pennum á pappír. Rannsóknin er sársaukalaus og tekur um 30 mínútur. Hafa ber í huga að heilalínurit gefur einungis upplýsingar um rafspennubreytingar í heilanum á því tímabili sem upptakan á sér stað. Því er heilalínurit einungis marktækt ef dæmigerðar truflanir sjást á meðan á upptöku stendur. Eðlilegt heilalínurit útilokar því ekki möguleikann á flogaveiki. Stundum er þörf á langtíma upptöku. Sjúklingur er þá tengdur við tæki sem hann getur borið á sér. Boðin frá rafskautum í hársverði eru skráð á snældu. Skráningin getur tekið marga daga og sjúklingur getur sinnt sínum daglegu störfum á meðan.

Orsök flogaveiki

Orsök flogaveiki er í grundvallaratriðum sú sama. Í heilanum eru rafboð og við eðlilegar aðstæður eiga frumur heilans samskipti sín á milli með því að mynda örlitla rafspennu sem þær senda frá sér á mjög lágri tíðni, truflun á þessum rafboðum veldur flogum. Truflunin getur annað hvort verið vegna rangra efnaboða í heila eða skemmda í heilafrumum s.s. þær sem koma fram við æxlisvöxt eða þegar heilaæxli er fjarlægt. Stundum getur flog því verið byrjunareinkenni einhvers sjúkdóms s.s. í alvarlegum tilvikum byrjun á heilaæxli eða góðkynja arfbundin truflun sem varir stundum bara í ákveðinn tíma og hverfur svo. Eða af völdum höfuðáverka, áfengisneyslu, blýeitrunar, galla í þroska heilans fyrir fæðingu, af sjúkdómum s.s. heilahimnubólgu eða alvarlegum mislingatilfellum. Í mörgum tilfellum eru orsakir óþekktar þá kemur flogaveikin eins og þruma úr heiðskýru lofti án fyrirvara. Orsakir flogaveiki eru afar margvíslegar og hjá um 40% finnast engar skýringar. Flogaveiki er ekki smitandi.

Helstu gerðir floga

Til eru yfir 20 tegundir floga sem lýsa sér á marga mismunandi vegu. Sumir fá aðeins eina tegund floga en það er alls ekki óvenjulegt að fá tvær eða fleiri tegundir. Talað er um tvo aðalflokka: Annars vegar flogaveiki með staðbundin upptök og hins vegar flogaveiki þar sem truflun verður um allan heilann, altæk flog. Algengustu staðbundnu flogin eiga upptök sín í gagnaugalappa heilans. Þeim er skipt í einföld staðbundin flog þar sem meðvitund raskast ekki, fjölþætt staðbundin flog þar sem meðvitund raskast og flog sem breiðast út og verða altæk flog. Altæk flog eru talin um 40% allra floga en staðbundin flog um 60%. Þar af eru fjölþætt staðbundin flog u.þ.b. 34%. Flogaveiki er ýmist sjúkdómsvakin þ.e.a.s. flogaveiki með vefræna orsök sem tengjast hinum undirliggjandi sjúkdómi eða sjálfvakin þ.e.a.s. orsökin óþekkt en tengist líklega erfðaþáttum. Algengustu gerðir altækra floga eru krampaflog og störuflog. Staðbundin flog hafa áhrif á hreyfingar, skynjanir, dultaugakerfið (öndun, hjartslátt, meltingu o.s.frv.) og meðvitund. Sumum finnst þeir skynja fyrirboða, (t.d. undarlegt bragð, lykt eða hljóð). Þessir fyrirboðar gefa vísbendingu um það hvar í heilanum flogin eiga upptök sín. Fyrirboðinn getur verið gagnleg viðvörun til að bregðast við flogi eða koma í veg fyrir það.

Altæk flog frá upphafi; krampaflog, störuflog, fallflog og kippaflog

Krampaflog
Sá sem fær krampaflog missir meðvitund, dettur, blánar jafnvel í framan og taktfastir kippir eða krampar fara um líkamann. Oft sést froða í munnvikum sem stundum er blóðlituð ef tunga eða gómur særist. Í byrjun krampans getur heyrst hávært óp sem stafar af því að kröftugur vöðvasamdráttur þrýstir lofti úr lungum. Af sömu ástæðu getur þvagblaðra og ristill tæmst. Þegar flogið er gengið yfir (það gerist yfirleitt innan fárra mínútna), kemst viðkomandi aftur til meðvitundar og eftir hvíld er hann oftast fær um að hverfa aftur til fyrri iðju.

Störuflog
Þessi gerð floga hefur einnig áhrif á stóran hluta heilans. Þau valda stuttu rænuleysi oftast nokkrar sekúndur. Þau lýsa sér þannig að viðkomandi missir skyndilega meðvitund án þess að detta. Starir fram fyrir sig, sjáöldur víkka, eitt augnablik og heldur síðan áfram þar sem frá var horfið án þess að átta sig á að nokkuð hafi gerst. Stundum sjást kippir í andliti eða útlimum. Köstin geta komið mörgum sinnum á dag og geta auðveldlega farið fram hjá aðstandendum og kennurum. Stundum er talið að um dagdrauma eða vísvitandi einbeitingarleysi sé að ræða. Þessi gerð floga hefst nær alltaf fyrir 15 ára aldur og hættir fyrir 20 ára aldur í um 80% tilfella. Lyfjameðferð er mikilvæg til að hafa hemil á flogunum og til að hindra hugsanlegar aðrar gerðir floga.

Fallflog
Sá sem fær fallflog fellur fyrirvaralaust vegna þess að skyndilega tapast vöðvastyrkur, allur líkaminn verður slappur, einstaklingurinn missir meðvitund og getur fallið illa og meitt sig.

Kippaflog
Skyndilegir útlimakippir, meðvitund tapast ekki alltaf. Slík flog geta komið mörg í röð og yfirleitt dettur viðkomandi ekki.

Staðbundin flog; ráðvilluflog og hreyfi- og skynflog

Ráðvilluflog
Í ráðvilluflogi tapast meðvitund, annað hvort að hluta eða alveg. Oft fylgir starandi augnaráð, munnhreyfingar og síðan ósjálfráð hegðun. Það fylgja engir vöðvakrampar, en viðkomandi virðist í draumkenndu ástandi og sýnir engin viðbrögð þegar yrt er á hann. Hegðun hans er klaufaleg og beinist ekki að neinu sérstöku. Hann getur farið að fitla við fötin sín eða hluti í kringum sig og jafnvel afklæðst. Hann getur hlaupið um og virst hræddur. Sé reynt að hindra hann eða halda honum föstum getur hann brugðist við með ofsa. Þegar hegðunarmynstur er mótað eru flogin oftast eins í hvert skipti. Flogið varir í nokkrar mínútur en einstaklingurinn getur verið ringlaður í langan tíma á eftir. Hann man yfirleitt ekki hvað gerist meðan flogið stóð yfir eða hann hefur þokukenndar minningar um það. Einstaklingur í ráðvilluflogi getur virst drukkinn eða undir áhrifum lyfja.

Hreyfi- og skynflog
Önnur tegund staðbundina floga getur lýst sér sem afbrigðileg hreyfing á afmörkuðu svæði líkamans. Þessi flog verða vegna þess að trufluðu rafboðin eiga sér upptök í þeim hluta heilans sem stjórnar viðkomandi vöðvum. Annað afbrigðið, þegar truflunin á sér stað í sjón- og heyrnarstöðvum heilans, veldur því að viðkomandi heyrir hljóð eða sér hluti sem eru í raun ekki til staðar. Einnig gæti hann fundið fyrir óþægindum í maga, eða fengið ákveðna tilfinningu sem vekur ótta eða fyrirboða. Þessi sérkennilega tilfinning sem kemur rétt fyrir flog er kölluð ára eða aðkenning.

HAFÐU Í HUGA:

 • Að 4-10 af hverjum 1000 eru með flogaveiki
 • Að allir geta fengið flogaveiki hvenær sem er
 • Að skilgreiningin á flogaveiki er mjög víðtæk og nær jafnt til einstaklinga sem flogum er haldið í skefjum hjá og þeirra sem fá óviðráðanleg, tíð, alvarleg og langvinn krampaflog
 • Að stundum fylgja flogin föstu mynstri en þau geta einnig verið algjörlega óútreiknanleg
 • Að sumir finna fyrir aðkenningu áður en þeir fá flog
 • Að flest flog ganga fljótt yfir og hjá mörgum er auðvelt að hafa stjórn á þeim
 • Að einkenni floga eru breytileg frá einum einstaklingi til annars
 • Að flogaveiki er heilsufarsástand sem krefst skilnings og viðurkenningar

Aldraðir með flogaveiki

Með aldrinum verða óneitanlega ýmsar breytingar á starfsemi líkamans. Snerpa og samhæfing minnkar og getur það aukið hættu á ýmsum meiðslum. Æðar líkamans breytast líka sem getur leitt til ýmissa áfalla og sjúkdóma. Flogaveiki meðal aldraðra er að mati margra vanmetinn og dulinn vandi. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur er annar fjölmennasti hópurinn sem greinist með flogaveiki næst á eftir börnum og ungmennum. Í aldurshópnum 40 – 59 ára eru 12 af hverjum 100.000 og hjá 60 ára og eldri eru það 82 af hverjum 100.000, sem greinast með flogaveiki. Í breskum rannsóknum hefur komið fram að 24% allra nýrra tilfella sem greinast með flogaveiki eru eldri en 60 ára. Búist er við að eldra fólki með flogaveiki komi til með að fjölga á næstu áratugum. Mesta fjölgunin verður í elsta hópnum eða þeim sem eru eldri en 80 ára. Það kemur ekki á óvart þar sem flest floganna orsakast af æðasjúkdómum í heila sem tengist hækkandi aldri. Jafnframt fjölgar þeim einstaklingum sem lifa af heilablæðingar og heilablóðtappa vegna betri bráðaþjónustu og endurhæfingar.

Margt gamalt fólk býr eitt og af þeirri ástæðu eru ekki sjónarvottar til staðar sem geta gefið upplýsingar um það sem gerist. Slíkt getur gert alla greiningu erfiðari. Einnig er erfiðara að greina flog frá öðrum athöfnum sem tengjast ef til vill einhverjum öðrum einkennum.

Hjá eldra fólki er oft auðveldara að hafa stjórn á flogum, það bregst betur við lyfjameðferð og þarf stundum minni lyfjaskammta en þeir sem yngri eru.

Að greinast með flogaveiki á efri árum hefur ef til vill ekki mikil áhrif á atvinnu og menntun líkt og það hefur oft hjá yngra fólki. Áhrifin eru oft meiri á samskipti og tengsl fólks sem eru mjög mikilvægir þættir. Eldra fólk getur verið háðara því að komast á milli á bílum sínum og ef sá sem fær flog er sá aðili sem er með ökuréttindi getur missir þeirra réttinda þýtt að tveir einstaklingar verða bundnir heima.

Horfur

Horfur eru mismunandi eftir því hverjar orsakir flogaveikinnar eru. Þannig eru horfur mjög góðar við sum heilkenni í börnum en afar slæmar við önnur. Almennt má segja að um 15% einstaklinga með flogaveiki svari illa lyfjameðferð og hafi því slæmar horfur. Horfur eru verri ef þekkt skemmd er í heila og eins ef um aðrar þroskatruflanir í heila er að ræða. Um það bil 60% einstaklinga með flogaveiki svara vel lyfjameðferð með einu flogaveikilyfi. Skurðaðgerðir hafa breytt horfum hjá einstaklingum með staðbundin flog og líkur er á að um 60-65% þeirra læknist af flogaveikinni við aðgerð, þar sem upptökusvæði floganna er fjarlægt. En hafa ber í huga að einungis lítill hluti einstaklinga með flogaveiki er með flogaveiki sem hægt er að beita skurðaðgerð við. Viss batatilhneiging verður með árunum og venjulega er auðvelt að stilla flog hjá eldri einstaklingum.