Flogaveiki

Hvað er flogaveiki?

Taugaboð, sem send eru á milli taugafrumna sem tengjast hver annarri á flókinn hátt eru grundvöllur starfsemi heilans. Samspil taugafrumanna þarf að vera samhæft til, að einstaklingurinn geti hugsað, hreyft sig o.s.frv.

Flogaveikiköst koma, þegar samspil taugafrumanna truflast. Eðlileg heilastarfsemi fer úr skorðum og einkenni óeðlilegrar starfsemi koma í ljós til dæmis ósjálfráður samdráttur í vöðvum, minni meðvitund eða meðvitundarleysi, talörðugleikar o.s.frv. Flogaveikikast varir yfirleitt ekki lengi, frá nokkrum sekúndum upp í nokkrar mínútur eða þar til samspil taugafrumanna hefur náð réttum takti aftur.

Fái einhver eitt flog er hann þar með ekki endilega kominn með flogaveiki. Flogaveiki verður ekki greind fyrr en að nokkrum köstum liðnum. Ýmsir sjúkdómar geta kallað fram flog án þess að viðkomandi verði flogaveikur til dæmis sykursýki, sótthiti, eitrun, sólstingur, heilahimnubólga, þungun, blóðsykursfall og höfuðáverkar.

Hver er orsökin?

Orsakir flogaveiki geta verið margar og af ýmsum toga. Flogaveiki virðist vera að einhverju leyti arfgeng, þó erfðamunstur hennar sé ekki þekkt. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir tekst ekki alltaf að finna orsök floganna. Vitað er, að sumar tegundir flogaveiki, sem eru algengar hjá börnum og ungu fólki, hverfa með aldrinum. Þekktar orsakir eru súrefnisskortur við fæðingu, sýkingar (heilahimnubólga og heilabólga), sem og þroskatruflanir í heilanum. Flogaveiki getur komið í kjölfar blóðtappa í heila, heilablæðinga eða æxla í heila. Misnotkun á áfengi getur einnig verið orsök flogaveiki. Sum flogaveikiköst geta stafað af svefnleysi eða leiftrandi ljósi, t.d. frá sjónvarpi eða diskóljósum. Mikil áfengisneysla getur einnig orsakað kast.

Hver eru einkennin?

Eins og greint var frá hér að ofan eru flogaveikiköst mjög mismunandi.

Köstin geta til að mynda lýst sér í skyntruflunum, samdrætti í vöðvum, truflunum á sjón eða heyrn, magaverkjum, ógleði, froðumyndun í munni, svita eða andlegum einkennum t.d. skyndileg hræðsluköst. Sjúklingurinn getur verið meðvitundarlaus eða með meðvitund á meðan á kastinu stendur. Sumir sjúklingar geta gengið um á meðan á kasti stendur en yfirleitt er ekki hægt að ná sambandi við þá. Flogaveikiköst geta varað frá nokkrum sekúndum upp í nokkrar mínútur, yfirleitt aldrei lengur. Flestir þekkja flog á þann hátt, að sjúklingurinn dettur meðvitundarlaus niður og fær krampa. Ef börn eiga í erfiðleikum með að fylgjast með í skólanum, getur það stafað af tíðum köstum þar sem þau missa meðvitund í nokkrar sekúndur (störuflog). Þess háttar köst eru algeng hjá börnum og ungu fólki.

Hvað er til ráða?

Fái einhver flogaveikikast, skiptir mestu að koma í veg fyrir að hann skaði sjálfan sig. Að loknu kasti er sjúklingi komið í læsta hliðarlegu.  Í þessari stöðu á sjúklingurinn ekki að geta velt sér aftur á bakið og kasti hann upp eru mun minni líkur á að sjúklingurinn fái magainnihald ofan í lungun.

Setjið ekki hluti upp í sjúkling sem er í kasti. Farið ekki frá sjúklingnum fyrr en hann kemst meðvitundar aftur og haldið ró ykkar.

Ef flogakastið  er lengur en 5 mínútur, og eða um fyrsta flogakast er að ræða og orsök er óþekkt leitið þá læknishjálpar.  Annars er oftast ekki ástæða til að kalla á hjálp ef viðkomandi er með greinda flogaveiki. Eftir kastið er viðkomandi yfirleitt þreyttur og þarf næði til þess að jafna sig.

Mikilvægt er, að einstaklingur með flogaveiki reyni að lifa sem eðlilegustu lífi og hætti ekki daglegu athöfnum sínum vegna hræðslu við að fá kast. Það er samt nauðsynlegt að viðhafa aðgát við athafnir, sem geta stefnt viðkomandi og öðrum í voða. Hér er gott að hafa samráð við lækni.

Það er ekkert, sem segir, að flogaveikisjúklingar þurfi meiri svefn en aðrir, hinsvegar ef sjúklingurinn missir mikinn svefni eykur það líkurnar á kasti.

Hvernig greinir læknirinn sjúdkóminn?

Sjúkrasaga einstaklingsins hefur mikið að segja áður en greint er.

Í sumum tilfellum getur verið erfitt að greina sjúkdóminn. Oftast er sjúklingurinn sendur til sérfræðings. Grun um flogaveiki er hægt að staðfesta með heilariti, sem mælir virkni rafboða í heilanum (EEG = ElectroEncephaloGraph). Þessi rannsókn getur einnig staðsett upptök floganna og greint gerð þeirra. Vefrænir sjúkdómar í heila geta orsakað flog og þá er unnt að greina með myndgreiningaraðferðum, tölvusneiðmynd (CT) og segulómskoðun (MRI) af heilanum.

Það skal tekið fram, að um flogaveiki getur verið að ræða þrátt fyrir að áðurnefndar rannsóknir greini ekki orsökina. Ef vafi leikur á er sjúklingurinn settur í langtímaheilarit þar sem hann er að auki tekinn upp á myndband. Markmiðið er að fá upplýsingar um lengd kastanna, einkenni og hvað sjúklingurinn gerir fyrir kast, á meðan það stendur yfir og eftir kast. Þessi aðferð er einungis notuð á sérstökum deildum, t.d á taugadeild Landspítalans.

Hver er meðferðin?

Flogaveiki er yfirleitt meðhöndluð með lyfjagjöf. Í flestum tilfellum þarf að gera sér grein fyrir eðli sjúkdómsins áður en hægt er að hefja lyfjagjöf.

Á síðu Lauf, félags flogaveikra er hægt að lesa sér nánar til um Flogaveiki, einkenni og meðferð