Fljótleg fiskisúpa með Miðjarðarhafskeim

Úr matreiðslubók Nýkaups, Að hætti Sigga Hall

Hráefni:

1/3 + 1/3 + 1/3 paprika, rauð, græn og gul, skorin í fína strimla

2-4 skalott-laukar, saxaðir fínt
1-2 stk chilipipar, eftir smekk, kjarnahreinsaður og sneiddur í fína strimla
5-8 hvítlauksgeirar, sneiddir þunnt
½ dl jómfrúarólífuolía
1/3 tsk saffran
1 msk tómatpúrre
2 msk sérrí-edik
1 tsk hlynsíróp
1 dl hvítvín
1 lítri fisksoð
Salt og svartur pipar úr kvörn
4-6 tómatar, flysjaðir og kjarnahreinsaðir, skornir í teninga
400 g bláskel (frosin í öskju)
150 g rækjur
150 g hörpudiskur
450 g blandaður fiskur skorinn í bita, t.d. skötuselur, steinbítur, lúða eða annar góður fiskur
2 msk hökkuð steinselja

Aðferð:

Takið paprikuna, skalott-laukinn, chili-piparinn og hvítlaukinn og léttsteikið (án þess að brúna) í jómfrúarólífuolíunni.

Bætið tómatpúrre út í ásamt saffran-þráðunum.

Hellið sérrí-edikinu og hlynsírópinu út í og látið allt blandast vel saman. Hellið hvítvíninu yfir og látið sjóða saman.

Hellið fisksoðinu út í og látið suðuna koma upp. Saltið og piprið að smekk.

Tíu mínútum áður en súpan er borin fram, er ferskum tómat-teningunum, bláskelinni, rækjunum og blönduðu fiskbitunum bætt út í hana og allt látið hitna vel í sjóðandi heitri súpunni.

Að lokum er saxaðri steinselju stráð yfir. Þessi súpa er borin fram með nýbökuðu brauði og ferskri hvítlaukssósu, Að hætti Sigga Hall.

Aðrar uppskriftir á Doktor.is