Flæktu ekki líf þitt að óþörfu

 

 

 

Sjötta geðorðið um að flækja ekki líf sitt að óþörfu er í hrópandi mótsögn við skilaboð auglýsinganna þar sem reynt er að sannfæra fólk um nauðsyn þess að eignast tölvu, farsíma og fleira til að geta lifað af daginn. Mikilvægt er að átta sig á því að þessir hlutir eru ekki nauðsynlegir til að okkur geti liðið vel.

Skilaboð auglýsinganna ýta undir það að okkur langi alltaf í meira og meira og að við gleymum því sem við nú þegar eigum. Ef mann langar alltaf í eitthvað sem maður ekki á, þá verður maður aldrei hamingjusamur. Til þess að finna hamingjuna verður maður að kunna að meta og njóta þess sem maður á.

 

Að einfalda líf sitt felur ekki í sér að afneita öllum tækninýjungum því þær geta stundum hjálpað til við að einfalda lífið. Fólk þarf bara að læra að nota tæknina á skynsaman hátt og átta sig á því að það er hægt að slökkva á tækjunum stöku sinnum. Það er heldur ekki mælt með því að losa sig við allar flækjur því margt af því sem flækir lífið gerir það þess virði að lifa því. Mannleg samskipti eru flókin en ekki væri farsælt að sleppa þeim.

 

 

 

Orkuþjófur

 

 

 

Ákveðnar flækjur eru alltaf slæmar og orkukrefjandi og þær þurfum við að forðast

Sjötta geðorðið segir nefnilega: flæktu ekki líf þitt að óþörfu. Við þurfum að greina hvaða flækjur taka frá okkur orku og hvaða flækjur auðga lífið? Að flækja okkur í óþarfa áhyggjur tekur frá okkur orku. Það reynist ekkert auðveldara að takast á við eitthvert vandamál eða verkefni þótt við höfum haft áhyggjur af því á undan. Að halda að maður geti ekki verið án einstakra veraldlegra hluta flækir lífið einnig að óþörfu og kemur í veg fyrir að við getum notið þess sem við eigum núna. Að flækja sér í eigin hugsanir um allt sem maður á eftir að gera eykur einnig spennu og streitu í lífinu. Óheiðarleiki getur einnig flækt lífið og tekið frá okkur það sem okkur er dýrmætt.

 

Reynum að finna óþarfa flækjurnar í lífi okkar og losum okkur við þær, losum okkur við áhyggjur af því sem á eftir að gera og njótum þess að vera til í dag. Njótum lífsins í sátt við okkur sjálf og þökkum fyrir allt það góða sem við eigum eins og fjölskyldu og vini sem auðga líf okkar.