Fjölbreytnin auðgar mannlífið

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.

Það eru fordómar þegar við dæmum fólk fyrirfram á grundvelli alhæfinga og staðalmynda. Að því leyti verða aldraðir fyrir fordómum. Þeim er við starfslok ýtt til hliðar og markaður bás, þeim er ætlaður ákveðinn lífsmáti, þeirra er ekki lengur þörf í athafnalífinu og þeir eiga að hafa hægt um sig. Það er tilhneiging til að setja þá alla undir einn hatt eins og þeir væru ekki lengur einstaklingar hver með sinn persónuleika, lífsreynslu, áhugamál og óskir. Við eigum margt sameiginlegt, en hvert og eitt okkar er alveg einstakt. Það er það stórkostlega og við eigum að hlú að því og virða það. Fjölbreytnin auðgar mannlífið en fordómar skaða samskipti fólks.

Þessu staðlaða viðhorfi eru aldraðir núna sjálfir að breyta með því að vera virkir þátttakendur á mörgum sviðum mannlífsins. Og það er vel.

Ánægjulegt sýnishorn af margþættu starfi og viðfangsefnum aldraðra mátti nýlega lesa um í blaðinu Í fullu fjöri sem gefið var út í samvinnu við Landsamband eldri borgara og dreift með Morgunblaðinu. Það var þörf ábending um hvaða kraftur býr í þeim hópi sem núna er kominn á eftirlaun. Það er mikil sóun á lífsreynslu, menntun og hæfileikum þessa fólks að gefa því ekki kost á sveigjanlegum starfslokum og nýta krafta þeirra í ýmis verkefni, hlutavinnu eða sjálfboðastörf. Það gefur ellinni innihald og lífsfyllingu þegar eldri borgarar er metnir hæfir til að leysa af hendi margvísleg verkefni og þegar þeir finna að þeir geta orðið einhverjum að liði. Það er einfaldlega heilsuefling og sparar samfélaginu útgjöld. „Besta vernd gegn sjúkdómum aldraðra er að sennilega að vinna bug á kreddum um þá og stuðla að meiri virkni þeirra og þátttöku í samfélaginu meðan heilsa og kraftar endast“, heyrði ég haft eftir lækni.

Feykjum fordómunum burt og sýnum hvað í okkur býr. Njótum efri áranna meðan heilsan leyfir, þau eru yndisleg. Fyllum þau lífi og virkni í leik, starfi og þjónustu við þá sem hafa þörf fyrir umhyggju og gleði. Það er heilsubrunnur fyrir líkama og sál.

Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnaar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.