Finndu og ræktaðu hæfileika þína

 

Allir búa yfir einhverjum hæfileikum og það er mikilvægt að við leitum að hæfileikum okkar og ræktum þá.  Þegar hæfileikar okkar fá að njóta sín vinnum við eftir bestu getu. Við slíkar aðstæður náum við að vera stolt og ánægð af verkum okkar.  Ef okkur finnst að við náum ekki að nýta hæfileika okkar í vinnu eða skóla er mikilvægt að við finnum hæfileikum okkar farveg í einhverju áhugamáli. Þannig er hægt að rækta hæfileikana og vera sáttur við störf s.

 

Við eyðum miklum tíma við vinnu, hvort sem það er í skóla, á heimili eða á öðrum vinnustað og því hefur líðan okkar þar áhrif á líðan okkar almennt..  Það er mjög mikilvægt að okkur líði vel við vinnuna því það eykur líkurnar á velgengni og vellíðan.  Ef við erum að fást við eitthvað sem við höfum gaman af þá leggjum við okkur betur fram og náum betri árangri.  Ef við erum hins vegar að fást við eitthvað sem við höfum engan áhuga á, þá gerum við það ekki eins vel og erum síður sátt við okkur sjálf.

 

Hamingja í einkalífi og vinnu er yfirleitt ekki aðskilin. Það hvernig okkur líður heima fyrir getur haft áhrif á vinnuna og svo öfugt. Í sumum tilfellum getur mikil hamingja á öðru sviðinu bætt upp óhamingju á hinu sviðinu. Þannig getur velgengni og vellíðan í vinnu bætt að einhverju óhamingju í einkalífi um tíma og á sama hátt getur mikil hamingja í einkalífi bætt upp vansæld í starfi. Farsælast er þó að vinna að velgengni og vellíðan á báðum sviðum. Sá sem er ánægður í einkalífi er afslappaðri og oft á tíðum einbeittari í starfi en sá sem er vansæll heima fyrir. 

 

Við höfum flest möguleika á að upplifa gleði og hamingju en við þurfum að vinna fyrir því, rækta það góða og hlúa að því.  Eitt af því er að rækta hæfileikana. Allir hafa einhverja hæfileika, hver og einn verður að hafa kjarkinn til þess að finna og meta sína hæfileika til þess að þeir fái að njóta sín. Þetta geta til dæmis verið hæfileikar í mannlegum samskiptum, á sviði lista, að vinna með börnum eða þeim sem eiga erfitt    Finndu þína hæfileika og ræktaðu þá…. 

 

…það eykur líkurnar á velgengni og vellíðan í þínu lífi.

 

 

 

 Dóra Guðrún Guðmundsdóttir

 

Verkefnastjóri Geðræktar