Fíkniefni – frá fikti til dauða

 

Af hverju byrjar ungt fólk að nota fíkniefni?

1. „Ég var bara með öðrum, hugsaði ekki út í það“.
2. „Mig langaði að prófa þegar félagarnir sögðu að það væri gott“.
3. „Ég fór að drekka áfengi á unglingsárunum og kynntist þá nýju fólki sem var einn daginn með hass. Ég hélt að mér yrði sparkað úr hópnum ef ég yrði ekki með“.
4. „Fannst það töff á þeim tíma og sá sem bauð mér efnið fullyrti að það yrði ekki vanabindandi“.
5. „Veit það ekki. Ég hef aldrei pælt í því, þú segir nokkuð… “
6. „Ég sá það sem leið út úr sálrænni kreppu og óöryggi. Víman og nýji félagsskapurinn hjálpaði mér að gleyma vandamálum sem ég stóð frammi fyrir og gat ekki leyst“.

Þetta eru svör nokkurra ungmenna sem valin voru af handahófi. Öll hafa þau svipaða sögu að segja:

Komu frá allskonar heimilum en áttu það sameiginlegt að vera í litlum samböndum við foreldra og eyða með þeim litlum tíma. Þau byrjuðu að drekka áfengi 14-16 ára og komust fljótt í kynni við „nýja“ vini sem kynntu þau fyrir hassi. Þau notuðu hassið, ásamt áfengi, í nokkurn tíma en kynntust þá amfetamíni. Tóku þá amfetamín í nefið í fyrstu en fóru síðan að sprauta því í æð. Eftir þetta notuðu þau hvaða vímuefni sem var og fjármögnuðu neysluna með ýmsum afbrotum.

Þau hafa ekki stundað skóla eða vinnu í langan tíma og flest höfðu algerlega slitnað úr sambandi við fjölskyldu sína, vini og kunnungja. Ýmsir sjúkdómar fóru að gera vart við sig, sálrænir og líkamlegir. Þau voru sjúkleg í útliti og virtust vera miklu eldri en þau voru.

Þau eru nú í misárangursríkri baráttu við að hætta fíkniefnaneyslu og víst er að sú barátta verður löng og erfið og skilur eftir sig ör alla ævi.

Unga fólkið fékk allt sínar fyrstu upplýsingar um fíkniefni frá þeim sem þegar voru farnir að umgangast þau, sölumönnum eða neytendum.

Allar þær upplýsingar voru kolrangar, stundum vísvitandi ósannar í þeim tilgangi að fá fólkið til að neyta efnanna en stundum vissi fólkið sem upplýsingarnar gaf ekki betur sjálft.

Enginn unglinganna fékk upplýsingar eða fræðslu frá foreldrum. Þeir vissu mjög lítið eða ekkert um áhrif og hættu af neyslu fíkniefna.

Flestöll neyttu ungmennin fíkniefna í fyrsta skipti í heimahúsi hjá „kunningja“ og stóðu venjulega frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðum fyrirvaralaust um hvort þau ætluðu að prófa. Öll féllu þau á þessu prófi.

Nokkur sameiginleg einkenni þeirra sem eru að byrja í fíkniefnaneyslu:

1. Breytingar á lífsstíl, fatnaði, viðhorfum, kunningjum, tónlist.
2. Samband við foreldra rofnar, áhugi á fjölskyldunni minnkar.
3. Missir áhuga á skóla, námsárangur minnkar, allt virðist snúast um nýju kunningjana.
4. Mætir illa í vinnu, forföll, lognar útskýringar.
5. Lengi úti, kemur stundum ekki heim alla nóttina. Hverfur í nokkra daga. Mikill svefn eftir slíkar tarnir.
6. Virðist missa áhuga á að þrífa sig og sóðaskapur í kringum viðkomandi.
7. Verður uppstökkur og erfitt að ná sambandi við viðkomandi. Mætir öllum tilraunum til að ræða málin með öfgakenndum viðbrögðum. Virðist vera allt annar einstaklingur.
8. Peningar fara að hverfa frá nákomnum, viðkomandi verður uppvís að svikum, prettum og tvöfeldni.

Lendir í höndum lögreglunnar vegna óreglu eða afbrota.

Þessi atriði ein og sér þurfa eki nauðsynlega að þýða að einstaklingurinn sé kominn í óreglu en við athuganir hefur komið í ljós að þau, og reyndar mörg önnur, eru sameiginleg flestum sem fara að neyta fíkniefna.

Mjög margir neytendur fjármagna neyslu sína með sölu fíkniefna til annarra og vilja því koma upp kúnnahópi í kringum sig. Þeir sækjast því eftir að fá vini og kunningja til að prófa efnið og byrja að nóta það.

Þegar framboð, eða magn fíkniefna í umferð er mikið hér á landi eru smásalarnir stundum með mikið efni í fórum sínum sem þeir þurfa að vera búnir að selja innan skamms tíma. Oft skuldar þá neytandinn smásalanum, smásalinn heildsalanum og hann innflytjendanum o.s.frv. Þá myndast þrýstingur frá eigendum efnisins að selja strax. Þá er unglingur sem venjulega á erfitt með að nálgast fíkniefni skyndilega kominn með mikið magn sem hann þarf að losa sig við.

Á þeim stundum fjölgar nýjum neytendum mikið og allur kunningjahópur þeirra sem þegar eru að fikta verður í hættu, í skólanum, á vinnustaðnum….

Kannabisefni

Eru efni sem unnin eru úr p löntunni Cannabis Sativa. Hún er ræktuð í heitu loftslagi en það efni sem smyglað er hingað til lands kemur mest frá Evrópu. Kannabisefnin eru maríúana, hass og hassolía. Þau innihalda öll sama vímugefandi efnið, sem er skammstafað THC. Öll gefa þau sömu vímu. Kannabisefni eru reykt.

Hass

Er langalgengasta fíkniefnið á Íslandi.
Áhrif:
Sljóleiki, leti, sinnuleysi, kæruleysi, tilfinningaleg og líkamleg deyfð. Fljótlega fer að bera á því að neytendur einangrast í eigin heimi, flestar tilfinningar sofna, minni bregst, sérstaklega skammtímaminni, námshæfileikar minnka. Svefnleysi, skjálfti og lungnaskaðar fylgja oft.

Einstaklingur undir áhrifum hass er sinnulaus, dofinn, rauðeygður með fljótandi dauf augu, þurr í munni. Hann hefur lítinn áhuga á því sem sagt er við hann og getur ekki einbeitt sér. Hann virðist vera í „öðrum heimi“. Stundum lykta föt hans og hár af hassreyk.

THC

Sem er vímugefandi efnið í hassi, binst fituvefjum í heila og sest fyrir á heilafrumum. Efnið eyðist mjög seint úr líkamanum þannig að neytendur bera mjög snemma fyrrgreind einkenni alltaf, jafnvel þótt þeir séu ekki í vímu. Þetta á sérstaklega við um sálræn og tilfinningaleg einkenni. Leiðin sem flestir velja út úr doðanum og grámyglunni sem fylgja eru örvandi efni s.s. amfetamín og kókaín.

Amfetamín og Kókaín

Eru örvandi efni, ljóst duft venjulega sogið upp í nefið í fyrstu. Efnin virka bæði á miðtaugakerfið og eru svipuð.
Áhrif:
Líkamsstarfsemi, hugsun og tilfinningar verða fyrir örvunaráhrifum. Miklar öfgar í framkomu og hegðun, í báðar áttir. Hreyfingar hraðar, vöðvar oft spenntir, augu uppglennt, augasteinar stórir. Neytandinn verður ör, skapbráður, missir matarlyst og sefur ekki undir áhrifum. Magaverkir, vöðvabólga og ýmsir aðrir sjúkdómar fylgja neyslunni.

Eftir neyslu í nokkurn tíma fer að sjá mikið á útliti fólks, það horast, lítur sjúklega út, „eldist hratt". Fer að bera á ranghugmyndum og geðveikiseinkennum fljótlega, t.d. ofsóknaræði. Líkaminn byggir upp þol gegn efnunum þannig að fólk þarf stærri skammta. Það leiðir oft til þess að fólk fer að sprauta efninu í æð. Amfetamín og kókaín er oft neytt með áfengi. Efnin eru mjög dýr þannig að neyslan dregur venjulega slóð af öðrum afbrotum, svikum eða prettum á eftir sér.

Krakk

Er kókaín í basísku formi, litlir hvítir kögglar sem eru reyktir. Áhrif þess eru ýkt áhrif kókaíns. Lögreglan hefur ekki orðið vör við krakk á Íslandi.

LSD

Er oftast í formi vökva sem hefur verið látinn síast í pappírsarkir með mörgun litlum myndum á. Hver mynd er einn neysluskammtur. Áhrifin eru fyrst og fremst ofskynjanir, ofheyrnir og ofsýnir. Efnið blekkir öll skynfæri, tilfinningar og hugsun. Alvarleg geðveikiseinkenni skammt undan.

Öðru hvoru virðast tilraunir unglinga með SNIFFEFNA aukast. Efnin eru mörg en eiga það sameiginlegt að vera lyktarsterk, rokgjörn efni, t.d. lím, gas, lökk.

Einstaklingur undir áhrifum verður mjög sljór og ruglaður í ríminu. Efnin hafa bein áhrif á taugakerfið og hjarta. Hjartsláttur eykst og oft fellur neytandinn í yfirlið fyrst eftir inntöku. Mikil hætta á lostástandi og hjartastoppi.

E-pilla

E-pilla er heiti á þeim vímugjafa, sem síðast skaut upp kollinum á íslenskum fíkniefnamarkaði. Efnið er, eins og nafnið (E-pilla) gefur til kynna, oftast í pilluformi, en þær eru allt frá því að vera hvítar yfir í það að vera litaðar, s.s. gular, bleikar, brúnar o.s.frv. Pillurnar eru oftast með mynd eða merki á annarri hvorri hliðinni. Meðal neytenda er efnið þá nefnt eftir myndinni. Virka efnið í E-pillunni nefnist MDA, MDMA eða MDEA. Þetta eru amfetamínafbrigði með amfetamín- og LSD-líka verkun, nokkuð mismunandi eftir því um hvaða efni er að ræða hverju sinni. Við inntöku E-pillunnar örvast neytandinn og við neyslu stærri skammta geta ofskynjanir fylgt í kjölfarið. Þessu getur fylgt algert kæruleysi í meðferð eigin líkama s.s. varðandi kynlíf.

Áhrif:

 • Þreytu-, hungur- og þorstatilfinning hverfur, en það getur leitt til ofreynslu og vökvataps. Slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.
 • Áhrifin á taugakerfið fela í sér stífleika í vöðvum og tannagnístan er endað getur með krampa, sem jafnvel lyf vinna illa eða ekki á.
 • Áhrifin á líkamshitann veldur því að hann rýkur upp og þrátt fyrir alla nútímatækni getur verið illmögulegt að ná honum niður og neytandinn getur dáið.
 • Áhrifin á hjarta- og æðakerfið leiða til breytinga á blóðþrýstingi og/eða truflana á hjartslætti.
 • Eituráhrif á nýru, sem í fyrstu valda auknum þvaglátum, geta endað með varanlegum skemmdum.
 • Blóðstorkutruflanir, sem geta t.d. valdið heilablæðingum.
 • Geðræn áhrif – fyrst væg, s.s. þreyta og svefnleysi, – síðan alvarlegri eins og þunglyndi og ofsóknarkennd.

Af mörgum álitinn vafasamasti vímugjafi á markaðinum.

 • Smjörsýra (Gamma hydroxybutyrate)
 • Efnið er glær vökvi með lítið bragð og lykt. Það var eitthvað nota til svæfinga en aðeins í stuttan t&iacute ;ma vegna aukaverkana, einkum krampa. Þegar tekið hefur verið inn ákveðið magn kemur víma lík áfengisvímu, en þá er stutt í að neytandinn sofni útaf. Þá hægir á öndun og neytandinn er í lífshættu sérstaklega ef hann hefur tekið inn önnur vímuefni, áfengi eða róandi lyf. Eftir vímuna man einstaklingurinn ekkert eftir því sem gerðist á meðan hann var í vímunni. Efnið hefur verið nefnt „Rapedrug“ því nauðgarar hafa sett það í vínglös hjá fórnarlömbum sínum.

  Almenningsálitið

  Reynslan hefur sýnt að fíkniefnasala verður ekki einugis stöðvuð með löggæslu eða sértækum aðgerðum stjórnvalda. Á meðan neytendur/kaupendur eru til staðar verða alltaf til seljendur, sem vilja græða án tillits til skaðsemi efnannna. Hinir svokölluðu „dílerar“, reyna sífellt að skapa sér sem besta aðstöðu til að græða á sem flestum. Í dag er nóg af glæpamönnum, sem hafa áhuga á að fjármagna fíkniefnakaup, flytja efnin inn og selja. Þeim er nákvæmlega sama hvaða afleiðingar gerðir þeirra hafa fyrir aðra. Þeir græða á meðan aðrir blæða. Ef verulegur árangur á að nást í að draga úr möguleikum þessarra manna þarf almenna hugarfarsbreytingu og samstöðu gegn fíkniefnum og öðrum vímuefnum

  • Hver og einn þarf að líta sér nær. Gott fordæmi og góðar fyrirmyndir segja meira en mörg orð.
  • Allir þurfa að vera samtaka í að taka til hendinni – hver á sínu sviði.
  • Virða ber störf þeirra, sem áhuga hafa á að láta þessi mál til sín taka – hvort sem um er að ræða forvarnir, viðbrögð eða meðferð.
  • Nauðsynlegt er að hver og einn leiti sér réttra upplýsinga um skaðsemi fíkniefna.
  • Öllum, sem vita um neyslu, innflutning, dreifingu eða sölu fíkniefna ber skylda til að tilkynna það réttum yfirvöldum.
  • Það er skylda hvers og eins, sem veit um einstakling í fíkniefnavanda, að gera sitt svo koma megi honum til aðstoðar.

  Útivist – samstaða foreldra

  Mörg vímuefnavandamál unglinga og barna byrja vegna aðhaldsleysis. Þau hefjast oftast eftir að lögboðnum útivistartíma er lokið. Ef foreldrar, forráðamenn og aðrir sem starfa með börnum og unglingum eru samtaka um að virða útivistarreglur draga þeir mikið úr hættunni á að ungt fólk byrji að neyta eða ánetjist vímuefnum. Jafnframt dregur úr líkum á að fólk á þessum aldri leiðist út í eða láti leiðast út í ýmisskonar afbrot. Eftir að útivistartíma lýkur verða oft óæskilegar hópamyndanir er leitt geta til einhvers, sem ekki verður aftur tekið.

  Flestir foreldrar kannast við setninguna „Allir hinir krakkarnir mega það“.

  Þessi gamalkunna aðferð til að ná sínu fram hefur oft skilað árangri, einkum þegar foreldrarnir eru óráðnir og bera ekki saman bækur sínar. Hafa ber í huga að:

  • Útivistarreglur eru bundnar í lög og reglur og öllum ber að fara að lögum.
  • Við sendum börnum okkar ýmis skilaboð ef við sjálf hunsum gildandi reglur.
  • Ef við viljum búa börnin okkar vel undir lífið er mikilvægt að þau venjist því frá unga aldri að samfélagið setur þegnum sínum ýmsar reglur, sem ætlast er til að farið sé eftir.
  • Sá sem kemur seint heim fer seint að sofa. Skólinn er vinnustaður barnanna – syfjaðir og þreyttir nemendur afkasta litlu og námsárangur þeirra verður lakari en ella. Unglingur þarf að meðaltali minnst níu stunda svefn á sólarhring.
  • Sumum finnast útivistarreglur of strangar og telja þær ekki í takt við tímann. Þeir hinir sömu ættu að hugleiða að í nútímasamfélagi stafar unglingum hætta af mörgu. Slysin gera ekki boð á undan sér. Samræmdar útivistarreglur eru settar til að vernda börnin og unglingana.
  • Stundum þarf að halda fast um tauminn þótt það veki tímabundnar mótbárur. Foreldrar bera ábyrgð á uppeldi og velferð barnanna og eiga að haga uppeldinu þannig að börn verða ekki fyrir áföllum.
  • Útivistarreglur eru eins og umferðarreglur – því fleiri sem virða þær – þeim mun auðveldar ganga hlutirnir fyrir sig og því minni líkur eru á óhöppum og slysum.
  • Hugsum til hinna foreldranna áður en við gefum lausan tauminn.

  Heimapartý

  Snemma fer að bera á því að börn óski eftir að fá að bjóða öllum í bekknum í afmæli eða teiti af einhverju tagi. Í þessu efni eins og öðru er gott að styðjast við ákveðnar reglur frá upphafi – þá minnka líkur á því að málin þróist í óheppilegan farveg síðar.

  Auðvitað láta foreldrar ekki úthýsa sér þótt barnið fái gesti í heimsókn. Ekki er barnið rekið á dyr þegar foreldranir fá gesti? Ef sú venja skapast frá fyrstu tíð að einhver fullorðinn sé á staðnum verður það ekki vandamál á unglingsárunum.

  Ekki er rétt að leggja það á barn eða ungling að bera ábyrgð á heimilinu og engum fjölskyldunnar þegar margir eru saman komnir. M.a. þess vegna þarf einhver fullorðinn að vera til taks.

  Óboðnir gestir eiga það til að birtast þar sem gleðskapur er í gangi og þá geta hlutirnir farið úr böndunum. Dæmi eru um miklar skemmdir og jafnvel þjófnaði.

  Návist fullorðinna veitir unglingum aðhald t.d. varðandi áfengisneyslu og reykingar. Það er erfiðara að fikta með slíkt ef einhver fullorðinn er á staðnum.

  Í foreldralausum partíum er hægt að hrei& eth;ra um sig bak við luktar dyr. Það getur verið erfitt að verjast kynferðislegri áreitni eða nauðgun í heimahúsi þar sem enginn fullorðinn er til staðar. Það er góð regla að hafa ákveðin tímamörk á slíkum boðum, gjarnan samræmd innan bekkjarins og ekki er verra að þau séu kynnt í fréttabréfi sem sent er til allra foreldra í bekknum eða skólanum. Það gerist of oft að unglingar sem eru einir heima yfir helgi bjóði í teiti án vitundar foreldra sinna. Því er gott að gera samkomulag við nágranna um að þeir líti eftir slíku. Það veitir aðhald og stuðning.

  • Lögreglan þarf stuðning allra við að hefta útbreiðslu fíkniefna. Allir þurfa að standa saman.
  • Af hálfu lögreglunnar er sérstök áhersla lögð á að hafa hendur í hári sölumanna, smyglara og eigenda fíkniefnanna, þeirra sem græða á ógæfu neytendanna.
  • Lögreglan heitir þeim sem upplýsingar getur gefið fullum trúnaði. Nafn viðkomandi eða hver hann er verður hvergi gefið upp.

  Foreldrar – þið berið ábyrgð á því að börnin ykkar fái kærleiksríkt uppeldi sem skilar þeim heilum út í lífið!

  Það er oftast einhver brestur í lífi þeirra einstaklinga sem láta leiðast út í óreglu og fíkniefnaneyslu. Vanrækt og afskipt börn og börnum sem líður illa eru líklegri fórnarlömb fíkniefnasala en önnur. Hvernig er það á þínu heimili? Ef þér finnst eitthvað geta verið að – taktu í taumana strax – áður en vandamálið verður of stórt með öllum þeim afleiðingum sem því fylgja. Fæst slík mál leysast af sjálfu sér. Ef vandamál kemur upp eruð þið foreldrarnir oftast lykillinn að lausninni. Hikaðu ekki við að leita aðstoðar eða ráðlegginga hjá:

  Félagsmálastofnun, félagsmála- eða barnaverndaryfirvöldum, Barnaverndarstofu, heilsugæslustöðvum – læknum, kirkjunni – prestum, Rauðakrosshúsinu, Vímulausri æsku – foreldrasamtökum, sálfræði- og ráðgjafarþjónustu í skólum, SÁÁ – fræðslu- og leiðbeiningastöð eða lögreglunni.

  Sjálfvirkur símsvari fíkniefnadeildar lögreglunnar er: 800-5005
  Fólk getur hringt í hann á öllum tímum sólarhrings og komið upplýsingum á framfæri – Nafnleynd er heitið í öllum tilvikum.

  Birt með góðfúslegu leyfi Lögreglunnar í Reykjavík, forvarnadeildar