Ferill heyrnarrannsóknar og meðferðar

1. Pantaður tími

Hægt er að panta tíma í heyrnarrannsókn í síma 581-3855 frá kl. 8-16 alla virka daga. Ekki er nauðsynlegt að hafa tilvísun frá lækni.

Heyrnarrannsókn kostar kr. 1700 á afsláttarkorts, en kr. 600 fyrir þá sem hafa gilt afsláttarkort. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega kostar heyrnarrannsókn kr. 500 og kr. 300 með afsláttarkorti. Reikningur frá Heyrna- og talmeinastöðinni gildir ekki þegar mynda á afsláttarkort, þar sem HTÍ er ekki beinn aðili að almannatryggingakerfinu heldur sjálfstæð stofnun.

2. Sjúkraskýrsla

Til aðfá haldgóðar upplýsingar um heyrnarskerðinguna og þau vandamál sem henni fylgja þarf að svara nokkrum spurningum:

a) Er heyrnarskerðing í fjölskyldunni?
b) Hefur þú „fengið í eyrun?“ (hlustarverk, eyrnabólgu eða þ.h.)
c) Hefur þú fengið höfuðáverka?
d) Hefur þú unnið í eða verið í miklum hávaða um ævina, verið nærri sprengingu, skotið af byssu o.s. frv.?
e) Hefur þú gengist undir heyrnaraðgerð?
f) Annað sem kann að skipta máli?

3. Heyrnarmæling

Heyrnin er mæld í hljóðeinangruðum klefa, yfirleitt með heyrnartólum sem sett eru yfir eyrun og höfuðið. Fyrst er hlustað á mismunandi tóna og þú beðinn um að gefa merki í hvert sinn sem þú heyrir. Þannig er kannað hvað þú þarft mikinn hljóðstyrk til að heyra mismunandi tóna.

Þá er einnig prófað hversu vel þú heyrir og greinir mál. Til þess þarft þú að endurtaka nokkur orð sem leikin eru af segulbandi og heyrast í heyrnartólunum.

Stundum þarf að gera ýmis önnur próf til að rannsaka heyrnina og greina hvað er að.

Heyrnarritið er fært inn á tölvu og geymt þar. Þegar kemur að læknisrannsókninni sér læknirinn heyrnarritið á tölvuskjánum hjá sér.

4. Læknisskoðun

Læknisskoðunin er sársaukalaus. Læknirinn skoðar eyrun og athugar hvort mikill mergur er í eyranu (tappi) og hreinsar hlustina ef með þarf. Þá er hljóðhimnan athuguð vel, og sést þá hvort eitthvað hefur farið úrskeiðis, hvort hljóðhimnan er inndregin, eða hovrt merki sjást um vökva í miðeyra. Að skoðun lokinni ráðleggur svo læknirinn frekari meðferð eða eftirlit, ef tilefni þykir til. Ef þörf er á frekari læknismeðferð eð yfirleitt vísað til sérfræðings.

5. Heyrnartækjaval

Hafi læknirinn í samráði við þig álitið ráðlegt að prófa heyrnartæki er þér vísað til heyrnarfræðinga eða heyrnarlæknis, sem hjálpar þér að velja rétt tæki.

6. Hlustarstykki

Næst er tekið mót af eyranum, en eftir því er smíðað hlustarstykki, sem fellur alveg að hlustinni. Hlustarstykkið á alls ekki að meiða eða særa.

7. Heyrnartæki úthlutað

Heyrnarfræðingurinn eða heyrnarlæknirinn úthlutar heyrnartækinu og kennir á það. Yfirleitt er þetta hægt nokkrum vikum eftir að mótið er tekið af hlustinni.

Oft koma ýmis önnur hjálpartæki til greina, og er reynt að benda heyrnatækjanotendum á þau tæki sem völ er á og líklegt er að komi að gagni.

Oft getur verið nauðsynlegt að koma aftur á heyrnarstöðina til að læra betur á tækið eða afla sé frekari upplýsinga. Starfsmenn stöðvarinnar munu reyna eftir bestu getu að veita slíka hjálp.

8. Endurnýjun heyrnartækja

Um endurnýjun gilda þær meginreglur að hægt er að fá heyrnartæki á þriggja ára fresti og njóta þar með þeirra niðurgreiðslna úr ríkissjóði sem gilda hverju sinni.

Ef heyrn versnar fyrir þann tíma, eða ef talið er að framfarir eða nýjung geti gert það að verkum að annars tækis er þörf, getur yfirlæknir leyft að endurmat fari fram, og er þá mögulegt að úthluta aftur heyrnartæki.

9. Verð á heyrnartækjum

Greiða þarf sem svarar 40% af verði eins heyrnartækis en 30% ef úthlutað er á bæði eyru.

Ef heyrnarskerðingin er mjög mikil og þörf er á dýrum tækjum með mikilli mögnun þarf að greiða 20% af innkaupsverði tækisins.

Börn fá heyrnartæki og rafhlöður ókeypis allt að 18 ára aldri. Lífeyrisþegar og öryrkjar fá rafhlöður niðurgreiddar.

Oft er úthlutað ýmsum hjálpartækjum til viðbótar heyrnartækjum og eru slík tæki einnig niðurgreidd.

10. Viðgerðir og bráðaþjónusta

Tekið er sérstakt viðgerðargjald (jöfnunargjald) þegar tæki er keypt. Og þá gert við heyrnartækið þér að kostnaðarlausu í fjögur ár.

Ekki er hægt að gera ráð fyrir að gert sé við heyrnartækið á meðan beðið er, en reynt er að hjálpa fólki eins og mögulegt er í því efni.

Til þess að tryggja þjónustu er alltaf æskilegast að panta tíma. Að sjálfsögðu reynum við að veita bráðaþjónustu ef mikið liggur við. Mikilvægt er að þessi þjónusta sé ekki misnotuð.

Birt með góðfúslegu leyfi Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands