Felmtur – Fát

Er hægt að lækna fólk sem „paníkerar“? 

Felmtur
„Paník“ er á íslensku yfirleitt kallað felmtur eða fát. Einkenni felmturskasts eru að fólk fær andnauð og hjartslátt, oft að því er virðist upp úr þurru, og finnst þá eins það sé að deyja. Þetta gerist helst þegar viðkomandi er spenntur, undir álagi eða hefur til dæmis drukkið mikið kaffi. Felmtur getur staðið fólki verulega fyrir þrifum í leik og starfi en er ekki endilega upphafsmerki um eitt eða neitt.

Til er meðferð við því sem gefur mjög góða raun sem nefnist hugræn atferlismeðferð. Hún kom fram fyrir einum 10-15 árum og rannsóknir hafa leitt í ljós að þetta er ein árangursríkasta sálfræðimeðferðin sem fyrirfinnst. Allt að 90% þeirra sem njóta þessarar meðferðar losna að mestu við köstin.

Vandinn við felmtur er að fólk upplifir oft köstin sem lífshættulegan líkamlegan sjúkdóm þrátt að fyrir að ítrekaðar læknisrannsóknir hafi ef til vill leitt í ljós að ekkert slíkt sé á ferðinni. Þetta er þó ekkert skrítið þar sem upplifunin er mjög sterk. Í hugrænni meðferð lærist manni hægt og hægt að ýmis merki frá líkamanum sem maður er vanur að líta á sem forboða válegra tíðinda eru það ekki. Manni lærist að það er einmitt athyglin sem maður beinir að þessum merkjum og túlkun þeirra sem magna þau þannig að maður verður felmtri sleginn. Það er nokkuð breytilegt hve langan tíma meðferðin tekur en reikna má með 10-15 tímum hjá sálfræðingi sem beitir þessari meðferð.

Þessi umfjöllun birtist fyrist á Vísindavef HÍ