Félagsleg tengsl og minni

Með vaxandi aldri þjóðarinnar verða elliglöp meira áberandi. Talið er að tæplega 2000 Íslendingar 65 ára og eldri séu með elliglöp og vegur Alzheimer sjúkdómur þar þyngst. Sjúkdómurinn þróast hægt og bítandi og leiðir til dauða á 7–10 árum að meðaltali. Einkennin eru margbreytileg, en þau sem mest ber á eru minnistap, dómgreindarleysi, vandamál við tal, erfiðleikar við rökhugsun, breytingar á hugarfari og persónuleika, skortur á frumkvæði, erfiðleikar við að vinna flóknari verk sem áður reyndust mönnum auðveld, og loks áttar sjúklingurinn sig illa á tíma og stað. Oft koma fram tilfinningar eins og vonleysi og hræðsla.

Orsakir sjúkdómsins eru ekki þekktar né heldur er mikið vitað um skýringar á versnandi minni og getu aldraðra. Meðferð við Alzheimer-sjúkdómi er reynd með lyfjum. Lyfin hægja á sjúkdómnum en lækna hann ekki. Mikil þörf er á því að aðstandendur og sjúklingurinn sjálfur eigi kost á félagslegri aðstoð og góðu sambandi við fagfólk.

Maður er manns gaman

Þótt orsakir séu ekki þekktar er eigi að síður athyglisvert að sterk tengsl við vini og ættingja og þátttaka í ýmsum félagslegum athöfnum tengjast bættu minni, og jafnvel greind, hjá öldruðum. Erfiðlega hefur þó gengið að greina á milli orsakar og afleiðingar í ýmsum rannsóknum.

 

Nýlega var birt könnun sem varpar nokkru ljósi á þetta. Tæplega 3000 manns 65 ára og eldri voru rannsakaðir og þeim síðan fylgt eftir í 12 ár. Þar kom í ljós að ýmis félagsleg vandkvæði í upphafi rannsóknartíma, t.d. að búa einn, hafa ekki samband við vini og ættingja, taka ekki þátt í ýmsum félagslegum athöfnum tengdust mjög marktækt versnandi minni og getu 12 árum síðar. Einnig var dánartala einfaranna hærri en hinna félagslyndu.

Þetta styður því eindregið það sem flestir hafa talið sig vita að sterkir umhverfisþættir og félagslíf á síðasta hluta æviskeiðsins eru mjög af hinu góða. Það sannast enn að höfundur Hávamála hafði rétt fyrir sér í þessu eins og svö mörgu öðru, maður er manns gaman.

 

 

Frá landlæknisembættinu