Félag um lýðheilsu

Félag um lýðheilsu var stofnað þ. 3. desember 2001. Hugmyndin að slíkum félagsskap kviknaði á námskeiði um lýðheilsu á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands í apríl 2001. Á fundi sem haldinn var í maí komu fulltrúar margra faghópa, félaga og stofnana og lýstu fundarmenn sig reiðubúna til að vinna að stofnun slíks félags. Fundarmenn litu á félagið sem tækifæri til að stilla saman strengi og vinna að nýjum verkefnum á sviði forvarna og heilsueflingar. Félaginu er ætlað að verða nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi.

Tilgangur félagsins

Félag um lýðheilsu er félag fagmanna og áhugafólks um lýðheilsu á Íslandi. Tilgangur félagsins er að:

  • Hvetja til þess að heilbrigðissjónarmiða sem eru byggð á bestu þekkingu á hverjum tíma sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda.
  • Vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.
  • Hvetja til samstarfs þeirra sem starfa á vettvangi lýðheilsu og þeirra sem geta haft áhrif á heilsufar og velferð landsmanna, s.s. sveitarfélaga, skóla og stofnana.
  • Vinna að bættu heilsufari þjóðarinnar með því að standa vörð um gæði þjónustu á sviði lýðheilsu og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
  • Stuðla að menntun, þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu og beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna.

Starf félagsins grundvallast á hugmyndum um jafnræði til heilbrigði. Félagið leggur áherslu á félagslegt réttlæti, jafnrétti, tjáningarfrelsi, frið, gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi í samskiptum og skoðanaskiptum. Félagið skal eiga samskipti við félagasamtök um lýðheilsu á erlendum vettvangi.

Nokkrar algengar spurningar um lýðheilsu

Hvað er lýðheilsa?

Lýðheilsa varðar heilsu þjóðarinnar, heilsu samfélagsins og hópa í samfélaginu. Lýðheilsa varðar félagslega þætti ekki síður en heilsufarslega. Með áherslu á lýðheilsu er stefnt að því að bæta heilbrigði, lengja líf og ekki síður að bæta lífsgæði þjóða og hópa. Þetta er gert með almennri heilsuvernd, heilsueflingu, sjúkdómavörnum og annarri heilbrigðisþjónustu.

Lýðheilsa er það sem kallað er á ensku „public health“ og með því að tala um lýð er höfðað til samfélagsins og þjóðarinnar allrar, samanber lýðræði og lýðveldi. Fjölmargir þættir hafa áhrif á lýðheilsu og því er samvinna grundvallaratriði.

Eru einhverjar fyrirmyndir að þessu félagi?

Við undirbúning stofnunarinnar hefur verið litið til sambærilegra félaga á Norðurlöndunum, Bretlandi og víðar í Evrópu, auk alþjóðlegra samtaka. Slík félög eru nokkurs konar regnhlífarsamtök áhugafólks um lýðheilsu, bæði þeirra sem starfa sem fagmenn og þeir sem koma að málinu frá öðrum hliðum. Á vettvangi slíkra félaga er tækifæri til að stilla saman strengi og vinna að því að tillit sé tekið til heilbrigðissjónarmiða á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Þetta er gert með ýmis konar verkefnum og aðgerðum á sviði forvarna og heilsueflingar.

Félag um lýðheilsu hefur nú þegar fengið aðild að Evrópusamtökum lýðheilsufélaga (European Public Health Association, skammstafað EUPHA). Þetta eru samtök fyrir 24 landsfélög um lýðheilsu í Evrópu og hafa nú starfað í 10 ár. Samtökin halda árlega fundi þar sem saman kemur fjöldi fólks sem sinnir lýðheilsu víða í álfunni. Ársfundur samtakanna var haldinn í Brussel í desember 2001 og í lok nóvember 2002 verður fundur í Dresden í Þýskalandi, sá 10. í röðinni. Samtökin standa einnig að útgáfu fagrits (European Journal of Public Health) þar sem vísindagreinar eru birtar um málefni lýðheilsu. Allir meðlimir landssamtaka EUPHA, þar á meðal meðlimir Félags um lýðheilsu á Íslandi, fá sent heim til sín eintak af þessu riti sem hluti af félagsgjaldinu. Á vegum EUPHA fer einnig fram umræða um að tengja meðlimi í mismunandi löndum enn betur saman en nú er gert með útgáfu vísindaritsins, t.d. með rafrænum fréttabréfum.

Er Félag um lýðheilsu eitthvað fyrir mig?

Rétt til aðildar að Félagi um lýðheilsu eiga fagmenn og áhugafólk um lýðheilsu. Félagið mun beita sér fyrir fundum og lýðheilsuþingum til að skapa frjóa og skemmtilega umræðu um lýðheilsu hér á landi. Ef þú villt vera þátttakandi í slíkri umræðu og hafa áhrif á hana þá átt þú að sækja um aðild. Stofnfélagar eru þeir sem gerast félagar fyrir lok janúar mánaðar. Árgjaldið er 2000 krónur og er áskrift að fagtímariti Evrópusamtakanna (EUPHA), European Journal of Public Health, innifalin í því verði.

Á hvaða hátt verður unnið að markmiðum félagsins?

Eins og kemur fram í tilgangi félagsins hér að ofan þá er það mikilvægt að heilbrigðissjónarmiða, byggð á bestu þekkingu á hverjum tíma, sé gætt við stefnumótun og aðgerðir stjórnvalda. Þetta þýðir m.a. í raun að stjórnvöld íhugi hvernig lagasetning muni geta haft áhrif á heilsu og heilbrigði þjóðarinnar og framkvæmi s.k. heilbrigðismat áður en ákvarðanir eru teknar (sbr. umhverfismat). Nauðsynlegt er að slíku heilbrigðismati sé gefinn meiri gaumur en nú er, þar sem ríkjandi viðhorf er oft að heilbrigðismál séu einkamál heilbrigðisstarfsfólks – og í góðum höndum þeirra.

Sem dæmi um verkefni á sviði lýðheilsu má nefna heilsuvernd barna og aðstæður barnafjölskyldna í samfélaginu. Vinna að betri geðheilsu er einnig mikilvægt lýðheilsuverkefni og þörf á að vekja athygli almennings og stjórnvalda á henni og vinna gegn fordómum. Slíkt er til dæmis gert á vettvangi fjölmiðla, skóla og vinnustaða. Önnur dæmi eru umhverfismál og smitsjúkdómavarnir. Síðan má nefna verðlagningu á matvöru og markaðssetning skyndibita sem hefur mikil áhrif á neyslu okkar, ekki síst ungra. Inn í þessa umræðu blandast síðan tækifæri fólks til að afla sér þekkingar og að leita þjónustu. Í því samhengi er lögð áhersla á jafnræði til heilbrigðis sem verður æ mikilvægara umræðuefni eftir því sem fjölmenning einkennir þjóðfélagið.