Fegurri tennur

Litun tanna

Af hverju breytist litur á tönnum?

Það er eðlilegt að tennur dökkni með árunum. Þær verða oft gulari eða gulbrúnni að lit. Sá litur kemur oftast innan frá. Dæmi um innri litun er litun af völdum lyfja sem tekin eru þegar tennur eru í myndun (tetracyclin) og litun vegna sjúkdóma í kviku tannarinnar. Litur sem kemur utan frá getur verið af völdum tóbaks, kaffidrykkju og tedrykkju. Einnig geta ákveðin lyf s.s. klórhexidín litað tennur. Oft má fjarlægja þennan lit burt með því að pússa tennurnar.

Hvítari tennur

Er hægt að gera tennur hvítari?

Já oft er það hægt. Ef litunin er af völdum sjúkdóms í kviku tannarinnar, má hreinsa hana. Algengast er að gera tennur hvítari með sérstökum efnum, sem þú færð hjá tannlækni þínum. Þá er smíðaður gómur sem passar nákvæmlega yfir þínar tennur. Efnið er sett í góminn og stundum látið vera yfir nótt. Aldrei skyldi framkvæma þessa meðferð nema að höfðu samráði við tannlækni og undir hans leiðsögn.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannlæknafélags Íslands af vef þeirra tannsi.is