Feður og börn

Það hefur sjálfsagt aldrei verið tekið út með sældinni að vera faðir, jafn gaman og það nú yfirleitt er. En ætli staðan fari ekki heldur versnandi. Lengi vel var það aðalsmerki karlmanna að vinna mikið. Og þeir sem voru komnir með fjölskyldu og börn sýndu sig og sönnuðu sem feður og fjölskyldumenn með því að vinna sem mest, skaffa vel og búa vel í haginn fyrir sig og sína. Heiður þeim.

En síðan fór heldur að síga á ógæfuhliðina. Samfara stórsókn kvenna út á vinnumarkaðinn, í stjórnmál, menntun og félagslíf breyttist heimilisbragur og staða feðra var tekin til endurmats. Stundum hefur það endurmat falist í að gera lítið úr feðrum, draga áhuga þeirra og hæfileika varðandi barnaumönnun í efa. Oftar hefur þó verið rætt hvernig unnt sé að gera ramma samfélagsins þannig úr garði að komið sé til móts við þarfir og óskir feðra.

Bæta það upp með barnabörnunum

Kannski var þessi þróun þá engin ógæfa, kannski seig ekki á ógæfuhliðina heldur þvert á móti. Kannski vildu áar okkar vera mun meira með börnum sínum, vinna minna, leika sér meira. Eru ekki ýmsir sem í æsku upplifðu feður sína blómstra þegar unnt var að gera eitthvað annað en vinna, í veiðiferðum, fjallgöngum, útilegum eða bara í fótbolta? Þeir eru margir sem finna feður sína sjá eftir því hversu mikill tími fór í vinnu og hversu lítil í fjölskylduna, sérstaklega þegar börnin voru lítil. Margir reyna að bæta sér það upp með barnabörnunum.

Fyrir nokkrum árum ræddi ég við 25 íslenska karla á aldrinum 20-35 ára um ýmsa þætti tilveru þeirra. Afraksturinn birtist í bókinni „Karlmenn eru bara karlmenn.“ Viðhorf og væntingar íslenskra karla. Eitt af því sem við ræddum mikið var staða þeirra gagnvart börnunum og hvernig (eða hvort) hún væri öðruvísi en staða þeirra feðra var gagnvart þeim. Flestir voru á því að svo væri. Einn sagði:

„Já, þannig að ef við komum aftur að uppeldi og slíkum þáttum, þá voru, má segja, í mínu uppeldi að þá var öll tilfinningavíddin, hún tengdist samskiptum við móður og ¼ ég man nú ekki hvenær það var en ég steig nú einhvern tíma á stokk og hét því að ég skyldi nú verða tilfinningalega meira gefandi faðir heldur en pabbi hafði kannski verið í mínu tilfelli þó hann hafi, á engan hátt, verið vondur. Skilurðu, hann var á engan hátt slæmur en svona, að mörgu leyti, var, ef eitthvað bjátaði á, kannski óþarflega passívur og hlutlaus, svona jarðbundinn bóndi sem spáði meira í sprettu á túnum heldur en hvaða áhyggjur og pælingar voru að hrærast með sonum hans. Þannig að ég held alla vega að í þessu samhengi þá séum við, ja, allt að því jafn tengd stráknum okkar þannig að ég held að ég hafi nú staðið við þetta heit að láta tilfinningadeildina ekkert vera neitt frekar samasemmerki ¼ að tilfinningahliðin sé kvenhlutverk.“

Faðirinn hafði lítið val

Almenna skoðunin meðal viðmælenda minna var sú að mikil vinna feðranna hefði komið í veg fyrir náin tengsl. Minningar um föðurinn voru hins vegar yfirleitt hlýjar og jákvæðir. Menn gerðu sér grein fyrir því að valið var ekki mikið. En jafnframt voru menn ákveðnir í að þeir ætluðu að nota meira af sínu lífi í samskipti við börnin, þeir ætluðu að vera meira gefandi á þeim sviðum tilverunnar sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Á sama tíma og þessi viðhorf breiðast út heyrast raddir af opinberri hálfu sem hvetja til aukinnar þátttöku feðra. Norrænu jafnréttisráðherrarnir taka sig til og samþykja framkvæmdaáætlun í 15 liðum um karla og jafnrétti. Þriðjungur þessara 15 liða snúa beint að feðrum og börnum. Skilaboðin eru greinileg: Þetta er mikilvægt svið!

Hvaða möguleika hafa feður?

En hvernig er þá hin raunverulega staða íslenskra feðra, hvaða praktíska möguleika hafa þeir haft til að breyta í samræmi við vilja sinn? Hvað hefur verið gert af opinberri hálfu til að auka möguleika feðra? Sannleikurinn er sá að allt fram á þennan dag hefur lítið verið gert og víða í samfélaginu er verulega unnið gegn því að feður séu viðurkenndir sem fullgóðir foreldrar.

Ég held að þegar ungt fólk í dag ruglar saman reitum þá komi þau til leiks með svipuð viðhorf til verkaskiptingar. Viðhorfskannanir sýna okkur þetta. Bæði reikna með að stunda launavinnu utan heimilis, bæði stefna að því að verkaskipting heimilisstarfa verði sem jöfnust. Og svona á heildina litið þá held ég að hún sé það framan af. Svo verður konan ólétt og þá fer boltinn að rúlla í allt aðra átt. Þá er ræst hugmyndafræðibatteríið sem segir að mæður sé nú allt annað og betra fyrirbæri en feður, móður beri fyrst og fremst að hugsa um barnið og karlinn leggi sitt af mörkum með því að vinna sem mest, skaffa og skaffa enn betur.

Þetta byrjar strax í þeirri fræðslu sem verðandi foreldrum stendur til boða. Hvert koma nú karlar til að sækja sér fræðslu um hvað gerist þegar þeir verða feður? Þeir koma á kvennadeild Landspítalans. Þar fyrir utan er nýlega búið að setja upp styttu s em heitir „Móðir og barn.“ Hún er af kvenmanni að leika við barn, enginn faðir til staðar enda hann náttúrlega að vinna. Og sú fræðsla sem þarna fer fram beinist fyrst og fremst að mæðrunum. Þetta er að sumu leyti eðlilegt en það er með ólíkindum hvað menn virðast halda að karlar geti gengið inn í föðurhlutverkið á einfaldan og sjálfsagðan hátt. Og þetta er alls ekki bundið við Ísland. Nýleg athugun í Danmörk sýndi að um helmingi feðra sem tekur þátt í foreldrafræðslu fannst að aldrei væri talað til þeirra. Þannig byrjar þetta! Svona er fyrsta beina upplifun karla af því að vera annars flokks foreldrar.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í jafnréttismálum segir í lið 6.5. „Unnið verði að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á.“ Enn hefur þess ekki orðið vart að eitthvað sé unnið að þessu máli af opinberri hálfu. En þess ber að geta sem vel er gert. Margar ljósmæður eru sér fullmeðvitaðar um skekkjuna í foreldrafræðslu og hafa gert ráðstafanir til að vinna gegn henni. Landspítalinn hefur unnið að breytingum sem hafa í för með sér aukna möguleika til samveru allrar fjölskyldunnar eftir fæðingu. Ánokkrum stöðum er boðið upp á sérstaka tíma í foreldrafræðslunni sem eru eingöngu fyrir feður. Ég er þess vegna ekki alveg sannfærður um mikilvægi seinni setningarinnar í lið 6.5. í framkvæmdaáætluninni. „Jafnframt verður gert átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna sinna.“ Ef til vill er það annars staðar en hjá starfsfólki heilbrigðisstofnana sem þörf er á þessu átaki.

Síðan fæðist barnið

Svo fæðist barnið og í svo til öllum tilfellum er það móðirin sem er heima í sex mánaða fæðingarorlofi. Það eru ekki nema rétt tvö ár síðan feður fengu rétt til tveggja vikna orlofs við fæðingu og það hefur ekki mikið verið kynnt. Þó nýttu sér um 60% feðra þennan möguleika strax fyrsta árið. Ef til vill voru fleiri í orlofi þó þeir komi ekki fram í opinberum tölum. Margir semja við atvinnurekanda um að halda launum þessar tvær vikur og koma því ekki fram í tölum Tryggingastofnunar. Sama á við um þá sem nýta hluta sumarleyfis. Þetta er um margt merkilega góður árangur sérstaklega þegar við vitum að sums staðar í atvinnulífinu er slík taka fæðingarorlofs litin mjög óhýru auga. Það eru jú ekki nema 3 ár síðan blikksmiður í Kópavogi var rekinn fyrir að taka sér fæðingarorlof sem hann átti þó fullan og lagalegan rétt á (sbr. innan, september 1997). Og slík framkoma er ekki bundin við Ísland. Það eru ekki nema liðlega 10 ár síðan yfirmaður Nokia lýsti því yfir opinberlega að ef til hans kæmi karlmaður og bæði um fæðingarorlof myndi hann eyðileggja framamöguleika þessa föður. Ekki aðeins innan Nokia heldur í öllu finnska atvinnulífinu. Það er víða veruleg andstaða innan atvinnulífsins við að feður taki fæðingarorlof. Og það á ekki bara við um atvinnurekendur, oft eru millistjórnendur verri og stundum vinnufélagar.

En þetta er ef til vill að breytast. Að minnsta kosti segja mér margir þeirra verðandi feðra sem ég hitti í foreldrafræðslu að þeir hafi samið við sinn atvinnurekanda um að halda launum í væntanlegu fæðingarorlofi. Einn orðaði það þannig að ef fyrirtækið væri ekki reiðubúið að koma til móts við það að hann vildi sinna fjölskyldunni þá einfaldlega færi hann. „Ég hef ekki áhuga á að vera hjá fyrirtæki sem lítur svo á að ég sé bara eitthvað sem þeir geti notað að vild.“

Vinna karla eykst þegar börnin fæðast

Samkvæmt því sem fram kemur í riti Lilju Mósesdóttur og Davíðs Þórs Björgvinssonar um samspil vinnu og fjölskyldulífs á Íslandi verða verulegarbreytingar á vinnutíma fólks þegar fyrsta barnið kemur í heiminn: Meðaltal vinnustunda á viku (1996)

Karlar Konur
Pör 49 32
Barnlaus 45 34
Yngsta barn 0-6 ára 53 28
Yngsta barn 7-15 ára 53 35

Konurnar minnka vinnu sína um sex stundir á viku, karlarnir auka hana um átta stundir á viku. Þetta hefur gífurlega víðtæk áhrif. Eitt er að þetta ýtir undir hugmyndir um að konur séu annars flokks vinnuafl og erfiðar þess vegna konum þátttöku á vinnumarkaðinum Og hitt er að þetta hefur feikileg áhrif á tengsl karla við heimilið og börnin.

Það er þarna sem vatnaskilin verða. Með fæðingu fyrsta barns fer konan inn á heimili ð, minnkar launavinnuna og eykur þekkingu sína og völd varðandi heimilisstörf, umhyggju og uppeldi barna. Karlarnir auka við launavinnu sína, treysta tengslin við vinnumarkaðinn og styrkja stöðu sína þar. Jafnframt verða þeir í æ ríkari mæli hornrekur á eigin heimili.

Kunna að klæða börnin sín

Það er svo sem ekki að undra þó konur og karlar séu í þessari stöðu. Oft á tíðum virðist manni að það sé beinlínis unnið markvisst að því að grafa undan feðrum sem fullgóðum foreldrum. Þegar Morgunblaðið fjallaði um mannekluna á leikskólum Reykjavíkur 17. október síðastliðinn birti blaðið mynd af feðrum sem voru að sækja börnin sín. Í myndatexta þótti nauðsynlegt að taka fram að þeir bæru sig fagmannlega að við að klæða börnin í útifötin. Eins og það séu einhver tíðindi að menn kunni þetta eftir að hafa gert það mörg hundruð sinnum!

Og einu tilfellin þar sem Morgunblaðið telur sér heimilt að víkja frá þeirri kröfu að atvinnuauglýsingar séu orðaðar þannig að þær geti átt við bæði kynin, er þegar auglýst er eftir manneskju til að gæta eða sinna börnum, þá er í lagi að taka fram að það eigi að vera kvenmaður.

Þetta er þeim mun undarlegra þegar haft er í huga að rannsóknir sýna aftur og aftur það sem menn auðveldlega sjá í umhverfi sínu. Feður eru engu síðri foreldrar en mæður. Nýlega var gefinn út í þriðja sinn mikill doðrantur um hlutverk föðurins í þroska barnsins. Þegar þar eru dregnar saman í inngangi niðurstöður rannsókna á því hvaða áhrif það hafi á börn ef feður eru mjög virkir þátttakendur í umönnun og uppeldi er niðurstaðan þessi: „Börnin sýna aukna vitsmunalega hæfileika, aukna samkennd með öðrum, eru síður bundin af hefðbundnum kynímyndum og eru í mun betra innra jafnvægi.“

Staðan er um margt svolítið skrítið. Allir segjast vilja aukna þátttöku feðra. Feðurnir vilja það, mæðurnar vilja það, börnin vilja það og ráðamenn segjast vilja það. Samt miðar ákaflega treglega og feður eru um margt í mjög erfiðri aðstöðu. Annars vegar hvílir enn á þeim framfærsluskyldan sem meginþáttur stöðu þeirra í fjölskyldulífinu. Hins vegar eru allra óskir um aukna og nánari þátttöku.

  • Breytingar framundan

Víða eru þó teikn á lofti um breytingar. Flestir stjórnmálaflokkar lofuðu fyrir kosningar að gera sitthvað til að bæta möguleika feðra. Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram margháttaðar tillögur sem gæfu fjölskyldum aukið rými í samfélaginu og veittu feðrum aukin tækifæri. Og í því að þetta er skrifað eru þrír ráðherrar að lofa viðamiklum breytingum á lögum um fæðingarorlof sem koma til með að gjörbreyta aðstöðu foreldra og í fyrsta sinn veita feðrum raunverulega mögulieka á að vera heima með ungum börnum sínum.

Ef til vill er ekki ýkja langt í að það teljist jafn fáránlegt að feður hafi ekki fulla möguleika til að sinna börnum sínum og að konur hafi ekki fulla möguleika til að sækja sér þá menntun sem hugur þeirra stendur til.

Heimasíða Félags ábyrgra feðra

Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur