Fátækt á Íslandi

Nú eru aftur að koma mánaðarmót og eins og um hver mánaðarmót berst straumur fólks til presta og hjálparstofnanna. Þetta er fólk á öllum aldri og af báðum kynjum. Í hópnum eru margir sem af einhverjum ástæðum hafa orðið undir í þjóðfélagsbaráttunni. Sumir eru öryrkjar, aðrir hafa barist lengi við erfiðan sjúkdóm. Enn aðrir eiga veik börn eða veika aðstandendur og hafa orðið að draga sig út af vinnumarkaðinum um stundarsakir að hluta eða öllu, til þess að helga sig umönnun sjúklingsins. Í hópnum eru líka ellilífeyrisþegar að ógleymdum öllum einstæðu foreldrunum, oftast mæðrum. Svo eru það líka þeir sem eiga fyrir stórri fjölskyldu að sjá, en launin duga ekki til þess að endar nái saman. Einhverjir hafa líka skrifað undir skuldabréf í sakleysi sínu sem ábyrgðarmenn, skuldabréf er féll á þá þegar lántakandi borgaði ekki af láninu. Hópurinn er sem sagt mjög fjölbreyttur. En eitt eiga allir í hópnum sameiginlegt. Í síðustu viku mánaðarins eiga þau ekki fyrir mat eða öðrum nauðþurftum handa sér og sínum. Þess vegna leita þau til presta og hjálparstofnanna, til að fá hjálp til þess að kaupa mat svo að það ríki ekki matarleysi á heimilinu. Það er ekki þar með sagt að allar skuldir hafi verið gerðar upp frá því um síðustu mánaðarmót. Oftast duga tekjurnar ekki til þess. En þegar sjö dagar eru eftir af mánuðinum og enginn matur er til, þá skipta skuldirnar minna máli á móts við það að þurfa að svelta eða að horfa upp á börnin sín svelta.

Þetta er hið sanna andlit fátæktarinnar á Íslandi í dag, andlit sem fáir ef nokkrir kjósa að sýna opinberlega. Það er e.t.v. ekki auðvelt að trúa því að það sé til fólk hér á landi sem hreint og beint á ekki til hnífs og skeiðar. En það er nú samt hin kalda staðreynd fátæktarinnar. Menn deila um hvernig skilgreina beri hugtakið fátækt. Sú skilgreining er í raun sára einföld. Það er fátæk fjölskylda sem verður að neita börnunum sínum um þátttöku í margskonar félagsstarfi vegna þess að það eru engir peningar til á heimilinu. Það eru fátæk börn sem komast ekki í tónlistarskóla, geta ekki stundað íþróttir, eru ekki jafnrétthá öðrum börnum í samfélaginu, af því að foreldrarnir geta ekki greitt þau gjöld sem krafist er. Og það er fjölskylda í neyð sem þarf að biðja um mataraðstoð í miðju velmegunarþjóðfélaginu, af því að engir peningar eru til fyrir mat. Nei, það er ekki auðvelt að trúa því að ástandið sé svona á allt of mörgum heimilum. Þess vegna hafa menn ypt öxlum þegar hjálparaðilar hafa bent á hina sívaxanda þörf fyrir neyðaraðstoð handa fjölskyldum á Íslandi og kallað ábendingarnar ýkjur eða áróður. En fátæktin er nú samt staðreynd sem ekki er hægt að afneita. Það sýndi svo ekki verður um villst í könnun er Rauði Kross Íslands birti fyrir skömmu. Sú könnun opinberaði raunverulegar tölur um fjölda þeirra fjölskyldna og einstaklinga sem eru í miklum vanda vegna fátæktar. Þar kemur fram að um marga er að ræða. Og þeim fer fjölgandi frekar en hitt.

Hvernig er best að bregðast við þessum staðreyndum fátæktarinnar á Íslandi? Ætli fyrsta skrefið sé ekki að viðurkenna fátæktina og hætta að stinga höfðinu í sandinn. Fátæktin er staðreynd á Íslandi. Hún er bæði útbreidd og alvarleg. Og hún heldur áfram að naga þjóðfélagið að innan, eins og Níðhöggur, ef ekki er horfst í augu við vandann.

Sr. Þórhallur Heimisson, prestur í Hafnarfjarðarkirkju.