Fall – slys

Fall er algengasta orsök þess að ung börn slasast
Á Íslandi slasast mjög mörg börn á aldrinum 0-4 ára í heimahúsum eða í frítíma fjölskyldunnar. Árið 2003 komu til að mynda 1392 börn á þessum aldri á slysadeildina vegna heima- eða frítímaslysa. Þar af höfðu tæplega 700 börn hlotið áverka eftir að hafa dottið. Það er því ljóst að foreldrar og aðrir fullorðnir þurfa að vera betur vakandi fyrir öryggi litlu barnanna.

 

Falla niður af rúmum, sófum og skiptiborðum
Mjög mikilvægt er að foreldrar og forráðmenn barnanna geri sér grein fyrir því að börn á þessum aldri hafa ekki þroska og getu til að forðast hætturnar í umhverfinu.

 

Eitt af undirstöðuatriðunum til að koma í veg fyrir að lítil börn detti er: að lyfta ekki barni upp á eitthvað sem það kemst ekki sjálft upp á. Þaðan er bara ein leið niður og þar kemur  höfuðið fyrst. Þegar börn hafa lært að klifra upp á eitthvað sjálf þá hafa þau líka lært að komast niður aftur án þess að meiða sig. Flest heima- og frítímaslys verða í setustofunni eða svefnherberginu. Oftast vegna þess að barni er lyft upp í sófa eða hjónarúm og sá fullorðni yfirgefur barnið eitt augnablik – á meðan dettur barnið niður á gólf.

 

Á hverju ári slasast nokkur mjög ung börn vegna þess að þau falla niður af skiptiborði. Slysin hafa orðið vegna þess að sá sem er að skipta á barninu gerir sér ekki grein fyrir því að barnið sé farið að geta velt sér, eða spyrnt fótum í vegginn, og við það fallið útaf borðinu og niður á gólf. Hér er mikilvægt að átta sig á því að fallhæðin fyrir smábarnið ofan af skiptiborði og niður á gólf samsvarar falli fullorðins manns ofan af bílskúrsþaki!

 

Matarstóllinn hefur líka reynst einn af þeim stöðum þar sem börnin eru að detta. Strax frá fyrsta degi, sem barn fer að nota slíkan stól, er mikilvægt að það sé haft í beisli í stólnum. Svo þarf að kanna hvort brík sé undir borðinu sem barnið situr við. Það hefur sýnt sig að jafnvel mjög ungum börnum hefur tekist að spyrna svo fast í bríkina að þau hafa dottið aftur fyrir sig. Hægt er á auðveldan hátt að koma í veg fyrir þetta með því að festa stólinn við borðið og er í því sambandi bent á myndskreyttar leiðbeiningar á: www.lydheilsustod.is/frettir/arvekni/nr/882

 

Innkaupakerrurnar
Þegar slysatölur hjá þessum aldurshópi eru skoðaðar nánar vekur það athygli hversu mörg börn slasast í verslunum. Ástæðan þar er oftar en ekki sú að börn detta úr innkaupakerrum. Því miður eru lítil börn, sem ekki eru fest í kerrurnar, oft skilin eftir ein á meðan sá fullorðni sem er með þeim fer og nær í einhverja vöru. Barninu finnst það yfirgefið, reynir að fara á eftir og dettur við það úr kerrunni.  Svo er einnig talsvert algengt að barnið er ekki látið sitja í sætinu heldur standa í kerrunni – en þar á barnið alls ekki að vera.

Ágætu foreldrar og forráðamenn kynnið ykkur nánar hvernig koma megi í veg fyrir að börn slasist á heimasíðu Lýðheilsustöðvar.