Fæðing og sængurlega

 • Velkomin á Kvennadeildina!

  Fæðing og sængurlega er stórkostlegur áfangi í lífi hverrar fjölskyldu. Kvennadeild Landspítalans er stærsta fæðingadeild landsins og býður upp á fjölbreytta þjónustu við konur í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Hér eru upplýsingar um stefnu Kvennadeildar og þá starfsemi Kvennadeildar sem tengist fæðingu og sængulegu.

 • Stefna Kvennadeildar

  Stefnusýn

  Kvennadeild Landspítalans veitir sérhæfða heilbrigðisþjónustu á sviði fæðingafræði og kvenlækninga, annast menntun heilbrigðisstétta og stundar fjölbreytt rannsóknar – og þróunarstarf.

  Starfsemi Kvennadeildar er helguð umönnun, meðferð og annarri þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra og ávallt eru gæði verka, gagn þeirra og hagkvæmni höfð að leiðarljósi.

  Starfsfólki Kvennadeildar er annt um velferð allra þeirra sem starfað er fyrir og með og leggur megináherslu á kærleik og virðing fyrir einstaklingum.

  Sem hluti af háskólasjúkrahúsi er Kvennadeild Landspítalans í farabroddi á sviði heilbrigðisvísinda í fæðingafræði og kvenlæknigum og til fyrirmyndar um þjónustu, framfarir, samstarf og árangur.

 • Meginmarkmið

  Góð, fagleg þjónusta Kvennadeildar felur í sér:

  – að stuðst er við vísindalega prófaða aðferðir/fræði/kenningar til að veita árangursríka þjónustu.

  – að tryggja að skjólstæðingar geti auðveldlega fengið upplýsingar sem þeir þurfa til að velja og taka ákvörðun um eigin meðferð.

  – stöðugt gæðamat á starfseminni, m.t.t. árangurs, viðhorfa skjólstæðinga og kostnaðar.

 • Samfelld og einstaklingshæfð meðferð

  Kvennadeildar Landpítala leggur áherslu á að sjúklingar fái samfellda og einstaklinghæfða meðferð. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að auka samfellda þjónustu, m.a. með stofnun MFS-einingar, LMT-Ljósmæðrateymis, breytingu á ferli við fyrirhugaðan keisaraskurð og samræmdum verklagreglum.

  Áhersla er lög á gagnkvæmt traust og að móðir/fjölskylda þekki aðstæður og umönnunaraðila. Starfsmenn Kvennadeildar hafa að leiðarljósi að einstaklingshæfa umönnun hverrar konu/fjölskyldu.

 • Val kvenna/foreldra

  Þarfir einstaklinga eru mismunandi og því mikilvægt að hægt sé að velja um ólík þjónustuform. Kvennadeild Landspítala leggur áherslu á að konur og fjölskyldur þeirra fái upplýsingar um starfsemi Kvennadeildar, meðferðarvalkosti og við hverju megi búast.

  Boðið er upp á meðferðarvalkosti, m.a. ýmsar aðferðir til verkjadeyfingar, bæði með og án lyfja, og mismunandi fæðingarstellingar. Þá er boðið upp á mismunandi form sængulegu, sem og þjónustu MFS -einingar og LMT-Ljósmæðrateymis.

 • Stutt við eðlilegt barneignarferli

  Áhersla er lögð á stuðning við eðlilegt barneignarferli kvenna með skynsamlegri nýtingu inngripa og tækja.

  Meðganga og fæðing er ekki sjúkdómur. Það er þekkt að gott andrúmsloft auðveldar fæðingu og sængurlegu. Leitast er við að bjóða upp á rólegt andrúmsloft, hlýlegt umhverfi og styðjandi umönnun.

 • Sérfræðiþjónusta

  Starfsfólk Kvennadeildar býr yfir mikilli reynslu og þekkingu og leitast er við að uppfylla óskir hvers og eins, en tryggja jafnframt öryggi móður og barns.

  Sérfræðingar í fæðinga- og kvensjúkdómum er á vakt allan sólarhringinn. Jafnframt er barnallæknir og svæfingalæknir á vakt á Landspítala og hægt er að kalla þá til ef þörf krefur. Þá er hægt að kalla út skurðhjúkrunarfræðinga á skurðstofu kvenna með mjög stuttum fyrirvara.

  Félagsráðgjafar og prestar eru starfandi á Kvennadeild og veita fúslega ráðgjöf. Hægt er að leita til annarra sérfræðinga ef þörf krefur, svo sem sjúkraþjálfara, næringarráðgjafa og annarra sérfræðinga.

 • Sólarhringssamvera

  Við leggjum áherslu á samveru fjölskyldunnar og aðlögun að foreldrahlutverkinu og þar með sólarhringssamveru móður og barns. Gert er ráð fyrir að börn séu inni hjá mæðrum sínum/fjölskyldu allan sólarhringinn ef allt er eðlilegt. Þetta ætti ekki að trufla svefn móður meira en á síðustu vikum meðgöngutímans, en þá vakna flestar mæður oft að nóttu og eiga auðvelt með að sofna á daginn. Það á einnig við um svefn barnsins. Móðirin getur þó beðið starfsfólk að líta eftir barni fyrir sig jafnt að nóttu sem degi.

  Að auki stuðlar sólarhringssamvera móður og barns að farsælli brjóstagjöf.

 • Brjóstagjöf

  Kvennadeild Landspítala leggur megináherslu á að efla og styðja við brjóstagjöf strax eftir fæðingu. Brjóstamjólk er ákjósanlegasta næring nýbura fyrstu 6 mánuði ævinnar eða lengur. Kvennadeild Landspítala styðst við 10 þrep til farsællar brjóstagjafar.

 • Hvers vegna brjóstagjöf?

  Brjóstamjólk er hin eðlilega fæða fyrir börn. Hún hefur öll þau næringarefni sem barnið þarf til viðurværis, auk þess sem hún inniheldur mótefni gegn ýmsum sjúkdómum.

  Brjóstamjólk er alltaf til staðar, hvar sem er og hvenær sem er, hæfilega volg, umhverfisvæn og sparar mæðrum/fjölskyldum óþarfa umstang og kostnað við næringu og umönnun barnsins. Brjóstagjöf stuðlar einnig að góðri tengslamyndun móður og barns, börn fá síður n&yacut e;buragulu og minni hætta er á blæðingum eftir fæðingu. Þá hjálpar brjóstagjöf móður að komast í fyrra líkamlegt form.

 • Tíu þrep til farsællar brjóstagjafar

  1. Við styðjum þig í löngun þinni til að brjóstfæða barn þitt. Við þekkjum kosti brjóstagjafar fyrir barnið, þig og fjölskyldu þína.

  2. Við veitum markvissa fræðslu til að tryggja að fagleg ráðgjöf til þín sé samræmd og á rökum reist.

  3. Við upplýsum verðandi mæður, foreldra, fjölskyldur þeirra og samfélagið um kosti og framkvæmd brjóstagjafar.

  4. Við leitumst við að koma á tengslamyndun móður og barns frá fæðingu og að engin ónauðsynleg truflun verði á eðlilegu upphafi brjóstagjafar.

  5. Við aðstoðum þig og barn þitt í upphafi brjóstagjafar og kennum örvun mjólkurframleiðslu ef til tímabundins aðskilnaðar skyldi koma.

  6. Við munum ekki gefa barni þínu annað en brjóstamólk nema ef heilsufarsleg rök krefjist þess og með þínu samþykki.

  7. Við hvetjum þig til að hafa barnið hjá þér og munum ekki taka það frá þér án leyfis.

  8. Við aðstoðum við brjóstagjöf án takmarkana á fjölda og lengd brjóstagjafar.

  9. Við notum ekki snuð og túttur sem getur truflað sogtækni nýburans.

  10. Við hvetjum og styðjum við stuðningshópa um brjóstagjöf í samfélaginu.

  Reynsla annarra þjóða hefur sýnt að þessi þrep stuðla að betri þjónustu við fjölskyldur og brjóstagjöf gengur betur.

  Í sængurlegunni er rík áhersla lögð á að mæður læri að leggja barnið rétt á brjóst frá upphafi, þekki helstu brjóstagjafastellingar og viti hvenær barnið er að grípa vörtuna rétt. Þetta skiptir mæður miklu varðandi framhald brjóstagjafar.

  Mæður sem fæða veik börn, fyrirbura eða léttbura fá aðstoð við örvun mjólkurframleiðslu innan þriggja klukkustunda frá fæðingu.

 • Reyklaust barneignarferli

  Stefnt er að reyklausu barneignarferli og reyklausu umhverfi barnshafandi kvenna og mæðra með börn á brjósti. Auk skaðsemi reykinga þá trufla reykingar brjóstagjöf. Starfsfólk Kvennadeildar er reiðubúið að aðstoða og styðja þá sem vilja hætta að reykja.

 • Almenn atriði

  Hvað á að hafa með á fæðingardeildina:

  • mæðraskrá
  • inniskó, slopp, tannbursta og snyrtivörur.
  • varasalva, eitthvað að drekka og e.t.v. brjóstsykur.
  • uppáhaldstónlistina á snældu eða diski (gerir andrúmsloftið heimilislegra)
  • bók, tímarit og jafnvel spil.
  • þægilegan fatnað til að klæðast í sængurlegunni, t.d. náttföt og/eða joggingbuxur.

  Aðkoma

  Hús Kvennadeildarinnar er læst á tímabilinu milli kl: 21-07 og þá er einggöngu hægt að komast inn á Kvennadeildina um dyr í sjúkrabílainnkeyrslu Kvennadeildar. Þar er bjalla sem gefur þér samband við deildir Kvennadeildar og Vökudeild.

  Aðstandendur sem eru hjá konu í fæðingu

  Hlutverk aðstandenda í fæðingunni er að veita konunni stuðning og styrk. Sjálfsagt er að þinn besti stuðningsaðili, maki eða annar náinn ættingi eða vinur, sé hjá þér í fæðingu, en æskilegt er að ekki séu fleiri en einn aðili inni á fæðingastofu í senn. Aðstandanda hjá konu í fæðingu er bent á að hafa með sér nesti, inniskó og skiptimynt í síma/sjálfsala, því fæðing getur dregist á langinn. Ekki er heimilt að nota farsíma innanhúss, vegna þess að hann getur truflað nauðsynleg rafeindatæki í byggingunni.

  Upplýsingar

  Æskilegt er að takmarka símhringingar á fæðinga-og sængurlegudeild. Gott er að gefa starfsfólki, ættingjum og vinum upp eitt eða tvö nöfn fjölskyldumeðlima, sem veita má upplýsingar um gang fæðingar og sængurlegu og þeir geta síðan miðlað þeim til annarra ættingja og vina. Þráðlaus sími er á fæðinga- og sængurkvennadeild sem hægt er að fá lánaðan til að hringja og tilkynna fæðingu barnsins.

  Nemar

  Kvennadeild Landspítalans er kennslustofnun fyrir verðandi ljósmæður, lækna og hjúkrunarfræðinga. Fæðandi konur geta því vænst þess að nemar leyti leyfis til að fylgjast með framgangi fæðingarinnar, sem er nauðsynleg reynsla fyrir nemann. Þú hefur að sjálfsögðu rétt til að neita því að hafa nema viðstaddan, en við vonumst til að þú nýtir þér ekki réttinn, því án slíkra námstækifæra læra heilbrigðisstarfsmenn framtíðarinnar ekki sitt fag. Aldrei er þó nema einn nemi við hverja fæðingu. Þá koma hjúkrunarnemar einnig að umönnun sængurkvenna og barna.

  Ábendingar og kvartanir

  Kvennadeild Landspítala er umhugað að veita góða þjónustu. Því biðjum við ykkur að koma ábendingum eða kvörtunum til deildarstjóra eða yfirljósmóður Kvennadeildar.

 • Fæðingardeild

  Á fæðingadeildinni eru 2800-3000 fæðingar á hverju ári. Þrátt fyrir mikinn eril oft á tíðum, er leitast er við að hafa rólegt andrúmsloft. Öll viljum við að fæðing sé ánægjulegur atburður og reynt er að taka tillit til óska hvers og eins, því er mikilvægt að koma sérstökum óskum á framfæri við ljósmóður eða lækni strax við komu á deildina.

  Markmið fæðingardeildar eru:

  • að styðja við eðlilegt ferli fæðingar
  • að styðja ver&e th;andi foreldra í vali og ákvarðanatöku um allt er varðar eigin meðferð
  • að tryggja öryggi móður og barns/barna
  • skynsamleg nýting inngripa, tækni og öryggistækja, sem háskólasjúkrahús býður upp á
  • að veita bestu meðferð sem völ er á hverju sinni.
 • Opið hús

  Verðandi foreldrum býðst að koma í heimsókn á fæðingardeild hvert þriðjudagskvöld kl.19:30. Þar kynnir ljósmóðir starfsemi deildarinnar og valmöguleika í fæðingu, svo sem deyfingar, vatnsbað, stellingar o.fl. Skráning er í síma 543-3049 frá frá kl 09:00-14:00.

 • Vaktþjónustan

  Á fæðingadeild Kvennadeildar Landspítalans eru ljósmæður og læknar á vakt allan sólarhringinn. Teljir þú að fæðing sé hafin, legvatn sé farið, hreyfingar barnsins séu minni en verið hefur eða þurfir þú einhverjar upplýsingar eða ráðleggingar er velkomið að hafa samband hvenær sem er og tala við ljósmóður. Þú ákveður þá í samráði við ljósmóðurina hvert framhaldið er.

  Ætlir þú að koma í skoðun eða komið er að fæðingu er æskilegt að þú hringir á fæðingadeildina og tilkynnir komu þína. Hús Kvennadeildarinnar er læst á tímabilinu milli kl. 21-07 og þá er eingöngu hægt að komast inn á Kvennadeildina um dyr í sjúkrabílainnkeyrslu Kvennadeildar. Þar er bjalla sem gefur þér samband við fæðingadeildina.

 • Hreiðrið

  Hreiðrið er fæðinga- og sængurlegudeild, sem staðsett er á 3. hæð Kvennadeildar B-álmu. Í Hreiðrinu fer fram fæðingahjálp kvenna sem nýta sér þjónustu MFS-einingar og LMT-Ljósmæðrateymis og stutt fjölskyldumiðuð sængurlega. Á deildinni eru 8 fæðinga- og fjölskylduherbergi og áhersla er á lögð á samveru kjarnafjölskyldunnar og stuðning og fræðslu við eðlilegt ferli. MFS-einingin sinnir hraustum konum í M.

 • MFS-einingin

  MFS-einingin sinnir hraustum konum í Meðgöngu, Fæðingu og Sængurlegu. Fæðing og sængurlega á Kvennadeild verður í Hreiðrinu.

  Markmið MFS-einingarinnar eru:

  • að verðandi foreldrar fái samfellda þjónustu sömu ljósmæðra bæði í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu
  • að gera verðandi foreldrum fært að taka aukna ábyrgð varðandi meðgönguna, fæðinguna og sængurleguna
  • að forðast óþarfa inngrip í eðlilegt ferli og að styðja verðandi foreldra í ákvarðanatöku um þætti er varða þau sjálf
  • að gera fjölskyldunni fært að sameinast sem fyrst eftir fæðinguna og styrkja þannig tengslamyndun.

  MFS-ljósmæður annast mæðraeftirlit frá upphafi, foreldrafræðslu og fæðingahjálp. Konur sem njóta MFS-þjónustunnar eiga kost á 12-36 klst. sængurlegu á Kvennadeild en eftir það fá konurnar þjónustu MFS-ljósmæðra heim eftir þörfum. MFS-ljósmæður annast allar hraustar konur. Ef þær eiga börn fyrir þarf sú meðganga og fæðing að hafa gegnið eðlilega fyrir sig. MFS-ljósmóðir er á fæðingarvakt allan sólarhringinn. Að lokinni fæðingu getur faðirinn eða náinn aðstandandi mögulega dvalist að vild hjá konunni og heimsóknartímar eru frjálsir. Nánari upplýsingar veita MFS-ljósmæður í síma 543-3250.

 • MFS 2

  MFS 2 er teymi 7 ljósmæðra sem veitir verðandi foreldrum samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. MFS 2 hefur aðstöðu í Hreiðrinu.

  Markmið:

  • Að veita þeim konum, sem velja þjónustu teymisins, samfellda þjónustu sömu ljósmóður í gegnum allt barneignarferlið.
  • Að byggja upp traust samband við konur og fjölskyldur þeirra sem auðveldar markvissa og árangurríka umönnun.
  • Að konur og fjölskyldur þeirra öðlist sjálfsöryggi til þess að takast á við foreldrahlutverkið.

  MFS er opið öllum heilbrigðum konum.
  Aðstaða fyrir fæðingar MFS er í Hreiðrinu þar sem lögð er áhersla á rólegt og heimilislegt umhverfi. Fjölskyldan fer heim innan 36 klst. frá fæðingu og fer sængurlegan fram þar undir eftirliti ljósmóður fjölskyldunnar.

  Bregði út af eðlilegri meðgöngu, fæðingu og sængurlegu svo umönnun annarra fagaðila komi til mun ljósmóðir fjölskyldunnar veita/bjóða þann stuðning sem kostur er.

 • Ljósið – Sængurlega í Hreiðrinu

  Konur/fjölskyldur sem hafa ákveðið að nýta sér heimaþjónustu ljósmæðra eiga kost á 6-24 klst. sængurlegu í Hreiðrinu, mest 36 klst.

  Markmið:

  • að styðja eðlilegt barneignarferli
  • að gefa foreldrum tækifæri á aðlögun að foreldrahlutverki saman
  • að fræða og styðja foreldra til sjálfsumönnunar
  • Stutt sængurlega á sjúkrahúsi.

  Fjölskyldan fær til umráða eitt herbergi, en ljósmæður veita fræðslu og stuðning við eðlilegt ferli. Megináhersla er á sjálfsumönnun, sólarhringssamveru fjölskyldunnar og aðstoð við upphaf brjóstagjafar.

  Heimsóknartími er frjáls og stýra foreldrar honum sjálfir, en við bendum á mikilvægi hvíldar fyrstu sólahringa sængurlegunnar.

 • Sængurkvennadeild

  Sængurkvennadeild er staðsett á 2.hæð Kvennadeildar í A – álmu og hefur 20 rúm sem skiptast þannig. 1 einbýli fyrir endurkomur og sýkingar, 2 tveggja manna stofur, 3 þriggja manna stofur og 1 fjögurra mann stofa. Sængurkvennadeild annast konur sem kjósa að liggja fulla sængurlegu & aacute; kvennadeild og konur sem fætt hafa með keisaraskurði, sogklukku eða töng, fætt fyrirbura eftir 32. vikna meðgöngu og konur með sjúkdóma og aðra áhættuþætti. Hluti vökudeildar er inn af sængukvennadeildinni.

  Markmið

  • Að veita móður/foreldrum fræðslu, leiðbeiningar og aðstoð við aðlögun móður/föður að foreldrahlutverkinu.
  • Efla sjálftraust og færni móður við að annast barn/börn.
  • Stuðla að velheppnaðri brjóstagjöf og styðja heilbrigðar fæðuvenjur barns.
  • Stuðla að sólarhringssamveru móður og barns.
  • Hafa eftirlit með heilsu móður og barns/barna.

  Legutími. Leiðbeinandi viðmið eru um lengd sængurlegu, en aðstæður eru þó metnar hverju sinni.

  Eðlileg fæðing, tangar- og sogklukkufæðing 6-36 klst. ef konan nýtir sér heimaþjónustu, annars útskrift á 4. degi eftir fæðingu
  Keisarafæðing Útskrift á 4.-5. degi
  Tvíburafæðing Útskrift á 5.-8. degi
  Fyrirburafæðing Útskrift á 4.-8. degi

  Heimsóknartími á sængurkvennadeild

  Tíminn eftir fæðinguna er tími aðlögunar barnsins, foreldra þess og systkina. Tími þeirra til að kynnast hvert öðru. Heimsóknartími er því rúmur eða frá kl. 14.00-21.00. Hann er ætlaður föður barnsins, systkinum þess, ömmum og öfum. Nýfædda barnið dvelur þá með fjölskyldu sinni á stofunni. Sérstök gát skal höfð við umönnun nýburans sem er viðkvæmur fyrir sýkingum fyrstu dagana. Æskilegt er að fjölskyldan taki tillit til sængurkonu og nýburans eftir fæðingu, þannig að ekki séu fleiri en 4 heimsóknargestir í einu hjá hverri konu og lengd heimsókna stillt í hóf.

  Heimsóknir margra utanaðkomandi aðila eru þreytandi og raska aðlögun móður og barns, en auka einnig smithættu af algengum veirusýkingum í þjóðfélaginu. Því ættir þú að láta ættingja, vini og kunningja vita um óskir þínar og skipuleggja heimsóknir eftir getu þinni og líðan. Ef þú treystir þér ekki til þess gæti maki þinn, annar ættingi eða vinur tekið það að sér.

  Keisaraskurðir Konur sem fara í fyrirhugaðan keisaraskurð koma beint á sængurkvennadeild að morgni aðgerðardags. Ljósmóðir sængurkvennadeildar fylgir konunni/parinu á skurðstofu og tekur á móti barninu.

 • Heimaþjónusta ljósmæðra

  Öllum konum sem eiga að baki eðlilega meðgöngu og fæðingu gefst kostur á að fara heim 6-24 klst. mest 36 klst. frá fæðingu barns og njóta umönnunnar ljósmóður heima í 7 daga eftir fæðingu. Konum og fjölskyldu þeirra er bent á að kynna sér þennan valmöguleika hjá ljósmóður í mæðravernd. Æskilegt er að konan undirbúi sig og fjölskyldu sína fyrirfram. Konur/fjölskyldur sem nýta sér heimaþjónustu ljósmæðra geta dvalist í Hreiðrinu fram að heimferð. Tryggingastofnun ríkisins greiðir þessa þjónustu að fullu.

 • Brjóstaráðgjöf

  Hafir þú áhyggjur af brjóstagjöf vegna fyrri reynslu eða aðgerða á brjóstum er hægt að leita til brjóstagjafaráðgjafa á Kvennadeild um ráðgjöf og fræðslu á meðgöngu. Brjóstagjafaráðgjafi aðstoðar við sértæk vandamál í sængurlegu. Þá veitir brjóstagjafaráðgjafi aðstoð fyrstu 6 mánuðina eftir fæðingu ef þörf er á. Veitt er ráðgjöf alla virka daga frá kl. 10:00-14:00 í síma eða með viðtölum. Símatími er alla virka daga kl. 11:00 – 12:00. Einnig er hægt að láta skiptiborð kalla brjóstaráðgjafa upp. Viðverutími er frá 10.00-15:00 alla virka daga. Ef brátt vandamál kemur upp utan dagvinnutíma, er hægt að leita til sængurkvennadeildanna.

  Ljáðu mér eyra

  Ljáðu mér eyra er þjónusta við foreldra með erfiða fæðingarreynslu. 3 ljósmæður og fæðingarlæknir veita þessa þjónustu.

  Markmið þjónustunnar er að:

  • létta á óþægilegri reynslu sem tengist erfiðri upplifun af fæðingu
  • stuðla að jákvæðri reynslu foreldra af meðgöngu of fæðingu
  • veita ráðgjöf

  Viðtöl fara fram á Kvennadeild Landspítala. Tímapantanir alla virka daga frá kl.08:00-16:00.

  Símanúmer

  Athugið!!! Reykingar eru ekki leyfðar á Kvennadeild Landspítalans.

  Birt með góðfúslegu leyfi Kvennadeildar Landspítalans, rsp.is