Fæðing með sogklukku

Hvað er sogklukka?

Sogklukka er skál sem sett er á koll barnsins og loftæmd þannig að hún festist við kollinn. Á henni er handfang sem er notað til að toga í barnið. Til eru tvær gerðir af sogklukkum, hörð og mjúk. Harðari klukkan er úr stáli en sú mjúka úr sílikoni. Yfirleitt er frekar reynt að beita mjúku klukkunni.

Hvernig er sogklukka notuð?

Forsenda þess að hægt sé að beita sogklukku er að leghálsútvíkkun sé lokið og kollur barnsins kominn vel niður í mjaðmagrindina. Barnið verður að snúa þannig að höfuðið og helst hnakkinn, komi fyrst og fósturbelgirnir verða að hafa rofnað.

Áður en sogkukkan er notuð er spöngin alltaf deyfð og oft er grindarbotninn einnig deyfður. Ef konan hefur fengið mænurótardeyfingu (epidural) getur það þó verið nóg. Stundum reynist nauðsynlegt að klippa í spöngina til að auðvelda fæðinguna. Til að auðvelda rétta notkun sogklukkunnar þarf konan að vera í láréttri stellingu – hálfuppisitjandi, á hlið eða fjórum fótum.

Þegar deyfingin er farin að virka er sogklukkan sett á höfuð barnsins þegar hlé verður á hríðunum og síðan togar læknirinn í sogklukkuna meðan konan rembist vel niður í hverri hríð.

Hvers vegna er notuð sogklukka í fæðingu?

Gripið er til sogklukkunnar þegar ljúka þarf fæðingu sem fyrst.

Ef barnið er talið vera í hættu

Leiki grunur á að barnið sé farið að þreytast eða fái ekki nægilegt súrefni getur fæðingarlæknirinn notað sogklukku til að flýta fæðingunni.

Til að létta álagi af móðurinni

Sé móðirin haldin sjúkdómum þar sem óæskilegt er að hún rembist mikið eða lengi, t.d. ef hún er með háan blóðþrýsting, getur sogklukkan hjálpað og eins ef konan er búin að rembast lengi og er orðin of þreytt og máttlaus til að rembast nógu fast svo barnið geti fæðst.

Ef höfuð barnsins liggur ekki rétt

Sum börn koma niður í mjaðmagrindina í rangri stellingu sem veldur því að erfitt getur reynst fyrir móðurina að þrýsta barninu út af eigin rammleik. Stundum halla þau undir flatt eða snúa með andlitið fram og þá er stærra höfuðmál sem þarf að fara í gegn um grindina og það kostar meiri krafta og lengri tíma.

Langdreginn rembingstími

Ef konan er búin að rembast í lengri tíma án þess að höfuðið færist nægilega niður í grindina getur sogklukkan hjálpað barninu síðasta spölinn. Almennt er talið óæskilegt að lengra líði en ein til ein og hálf klukkustund frá því að konan byrjar að rembast af fullum krafti og þar til barnið er komið í heiminn. Það fer þó eftir líðan móður og barns hvenær (hvort) gripið er til sogklukkunnar.

Hvaða aukaverkanir geta fylgt sogklukku?

Sé sogklukkan notuð á réttan hátt leiðir hún sjaldan til aukaverkana.

Helstu aukaverkanir eru að leggöngin, leghálsinn eða hringvöðvinn við endaþarm rifni. Þótt slíkar rifur séu saumaðar eftir fæðinguna getur grindarbotninn oft verið veikari en ella og konur þjáðst af þvag-, loft- og jafnvel hægðaleka í töluverðan tíma eftir fæðinguna. Einnig eru sum börn marin, bólgin og jafnvel með sár á höfðinu þar sem sogklukkan var lögð. Það er heldur ekki óalgengt að þau séu jafnvel hárlaus á því svæði í dálítinn tíma. Mjög sjaldgæft er að barnið verði fyrir heilablæðingum í kjölfar sogklukkunotkunar, en það kemur fyrir og þá getur hlotist af varanlegur skaði.