Eyrnasuð – algengur vandi

Eyrnasuð (tinnitus) er algengara en margur heldur. Flestir hafa reyndar fundið fyrir eyrnasuði tímabundið einhvern tíma og fæstir leitað sér aðstoðar vegna þess. Suðið er algengara í körlum en konum og eykst tíðni þess með aldri. Oft tengist það heyrnarskerðingu. Gera má ráð fyrir að um einn af hverjum tuttugu fullorðinna hafi eyrnasuð og allt að 10–15% fólks eldra en 65 ára. Sem betur fer hefur aðeins lítill hópur fólks suð sem er svo alvarlegt að það hafi áhrif á starfsgetu og lífsgæði. Hjá sumum getur suðið verið nærfellt óþolandi. Ýmsir sem hafa suð halda sig vera með alvarlegt læknisfræðilegt vandamál sem orsök suðsins. Svo er mjög sjaldan.

Greina þarf á milli hlutlægs og huglægs suðs. Við hlutlægt suð kemur fram raunverulegt hljóð sem oftast má rekja til blóðflæðis í æðum nálægt eyranu. Langflestir hafa hins vegar huglægt suð, þ.e.a.s. heyra hljóð án þess að það myndist í hljóðgjafa. Orsakir eru margar en helstar eru skaði vegna hávaða og áhrifa lyfja. Mjög mörg lyf geta valdið eyrnasuði og þekkja flestir tengsl aspiríns eða magnýls við eyrnasuð. Ýmsir taugasjúkdómar geta valdið eyrnasuði, höfuðáverkar, sýkingar af ýmsu tagi, þ.á.m. eyrnabólga og heilahimnubólga, o.fl.  Um fjórðungur þeirra sem eyrnasuð hafa greina það jafnt í báðum eyrum, um þriðjungur einungis í öðru eyra en hinir meira í öðru en hinu. Hliðlægt eyrnasuð er nærfellt aldrei af völdum æxlisvaxtar en ótti við slíkt er algengur.

Meðferð reynist erfið

Meðferð eyrnasuðs er erfið enda er orsök suðsins ekki vel þekkt. Oft er talið að suðið eigi uppruna sinn í heyrnartaug eða kuðungi eyrans en aðrar rannsóknir benda til að uppruninn geti verið í miðtaugakerfinu. Orsakirnar eru líklega margvíslegar og flóknar og skýrir það að nokkru leyti hve erfitt hefur reynst að finna viðhlítandi meðferð.

Margir tugir rannsókna hafa verið gerðar á lyfjameðferð við eyrnasuði en lyf með sannaðri virkni er ekki til. Hið sama má segja um ýmsar aðferðir hjálækninga, engin þeirra hefur reynst viðhlítandi, hvort sem um er að ræða nálarstungur eða Gingko Biloba. Tvær meðferðarleiðir hafa reynst happadrýgstar, annars vegar svonefnd endurþjálfunarmeðferð (tinnitus retraining therapy, TRT) og þar hefur jafnvel náðst bati í 75% sjúklinga. Hljóðtæki sem „breiða yfir“ suðið (masking) hafa einnig reynst gagnleg. Skurðaðgerðir eru umdeildar, en hefur einstöku sinnum verið beitt.  Meginþungi meðferðar er yfirleitt veittur af teymi heilbrigðisstarfsmanna úr ýmsum áttum, þ.á.m. háls-, nef- og eyrnalækna, geðlækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, heyrnarfræðinga o.fl.

Mestu máli skiptir að sjálfsögðu að reyna að forðast tilurð eyrnasuðs og þar skiptir heyrnarvernd af ýmsu tagi mestu máli, draga úr hávaða í vinnuumhverfi o.s.frv.

 

Frá Landlæknisembættinu