Eru dagar gleraugnanna brátt taldir?

Um snertilinsur inni í augunum, linsur á gormum, Tryggingarstofnun Ríkisins og fleira spennandi

Síðustu ár hefur orðið gríðarlega hröð þróun í meðferð á svokölluðum sjónlagsgöllum, þ.e. nærsýni, fjarsýni og sjónskekkju. Sjónlagsgallar eiga það sameiginlegt að myndin sem við skynjum lendir ekki á sjónhimnunni “,, fókus”, heldur ,,úr fókus”, annað hvort vegna þess að augað er of langt (nærsýni) eða stutt (fjarsýni), nú eða vegna þess að hornhimnan er ekki regluleg í lögun (sjónskekkja). Á örskömmum tíma hefur komið fram ný sérgrein innan augnlækninganna, sjónlagslækningar, og er nú svo komið að sjónlagsaðgerðir eru algengustu aðgerðir sem framkvæmdar eru á mannslíkamanum. Margir hafa nú þegar getað kastað frá sér þeim hækjum sem gleraugu og snertilinsur óneitanlega eru. Enn virðist nokkuð í land með að Tryggingarstofnun Ríkisins taki almennt þátt í kostnaði við þessar aðgerðir líkt og aðgerðir við öðrum sjúkdómum. Virðist þar vera um allnokkra þröngsýni að ræða, þar sem nærsýni, fjarsýni og sjónskekkja eru ekki síður sjúkdómar en magabólgur, skarð í vör og sykursýki. Nái sjónlagsgallinn yfir ákveðið mark, er einstaklingurinn algjörlega ósjálfbjarga án hjálpartækjanna og óhæfur til að takast á við athafnir daglegs lífs. Því er ánægjulegt að loks séu til staðar meðferðarmöguleikar sem minnka þörf fólks á hjálpartækjunum og í mörgum tilvikum losar það við þau. Jafnframt hafa mörg félagasamtök hér á landi sýnt þá framsýni að greiða niður kostnað við aðgerðirnar fyrir félagsmenn sína.

 

Þrátt fyrir að sjónlagslækningar hafi náð tryggilegri fótfestu þá er ýmislegt að gerast á sjóndeildarhringnum í þessari sérgrein. Meðal annars má nefna:

 

Snertilinsur sem settar eru inn í augun.

Þrátt fyrir að lasermeðferð hafi tryggt sig í sessi sem góð og örugg meðferð við ýmsum sjónlagsgöllum, hefur ekki verið hægt að beita henni á alla með sjónlagsgalla. Einkum á þetta við þá sem eru með mikla sjónlagsgalla á borð við yfir 5 díoptríu fjarsýni og yfir 8 díoptríu nærsýni. Ástæðan fyrir þessu er einkum sú, að í lasermeðferðinni er lögun hornhimnunnar breytt og hún er þynnt nokkuð, þeim mun meira sem meir er lagfært af sjónlagsgallanum. Til þess að tryggja öryggi aðgerðarinnar eru því fáir sem komast í laseraðgerð af þeim hópum sem fyrr eru nefndir, þ.e. með mikla fjarsýni eða nærsýni. Nú hefur komið fram ný aðferð sem þykir lofa afar góðu í nágrannalöndum okkar. Þessi aðgerð felst í því að linsu, sem er eins þunn og venjuleg snertilinsa (,,kontaktlinsa”) er smeygt inn í augað á bak við lithimnuna inn um örlítið gat. Árangur þessara aðgerða þykir með afbrigðum góður og eru þær góð viðbót við laseraðgerðirnar, sem hafa gefið afar góða raun fyrir þá sem eru með minni sjónlagsgalla. Dr. Göran Helgason í Svíþjóð, lýsir þessari aðgerð sem byltingarkenndri. Hann hefur framkvæmt nokkur hundruð slíkra aðgerða með frábærum árangri og afar fáum fylgikvillum. Nú þegar erum við í Sjónlagi farnir að skoða fólk hér á landi með þessa aðgerð í huga og nokkur biðlisti hefur þegar myndast. Miklar líkur eru á því að við förum að framkvæma þessar aðgerðir hér á Íslandi innan nokkurra mánaða.

 

Linsur inn í augað fyrir ,,ellifjarsýnina”

Margir spennandi kostir eru á sjóndeildarhringnum fyrir þá fjölmörgu sem þurfa lestrargleraugu eða hvíldargleraugu upp úr fertugu. ,,Ellifjarsýni”, eða ,,nærstillingarvandi”, er eðlilegt fyrirbrigði, sem kemur fram þegar augasteinninn harðnar með aldri. Augasteinninn verkar nefnilega líkt og ,,autofocus” myndavél, þ.e. fókuserar nær og fjær án vandkvæða með því að breyta lögun sinni (þykknar þegar horft er nálægt, þynnist þegar horfir langt í burtu). Með aldrinum verður augað eins og ,,fixed focus” myndavélar, þ.e. eins og gamla Kodak Instamatic vélin sem margir muna eftir. Upp úr fertugu þarf því fólk að fara að nota plúslinsur (þykkar linsur) til að fá nálæga hluti í fókus. Slík gleraugu eru svo almenn að þau má fá orðið í apótekum og matvöruverslunum. Vísindamenn í augnlækningum hafa víða lagt höfuðið í bleyti til að finna lausn á þessum alheimsvanda enda fátt eins víst á lífsleiðinni nema ef vera kynni fæðing og dauði. Reynt hefur verið að fara í kringum þetta vandamál með því að gera það auga sem er víkjandi (já, augun eru ýmist ríkjandi eða víkjandi, rétt eins og við erum með ríkjandi hendi og fót) örlítið nærsýnt. Þetta kallast á erlendum málum ,,monovision” og hefur verið þýtt sem skiptisjón hér á landi. Þetta hefur verið nýtt t.d. í laseraðgerðum, þar sem ríkjandi augað (oftast hægra augað) er leiðrétt að ,,núllinu”, þ.e. það þarf engin gleraugu til að sjá í fjarska, en víkjandi augað er gert u.þ.b. –0,50 til –1,00 nærsýnt. Það auga sér þá ekki alveg eins skýrt í fjarska, en sér þeim mun betur nálægt sér. He ilinn aðlagast þessu oftast furðuvel og notar ríkjandi augað sem fjarlægðarauga, en víkjandi augað sem nálægðar- eða lestrarauga. Þetta er líka hægt að gera með snertilinsum, þ.e. að setja væga plúslinsu fyrir framan víkjandi augað. Þessi lausn hentar þó ekki öllum og gefur viðkomandi ekki hæfni til að fókusera sjálfkrafa líkt og í æsku. Menn hefur löngum dreymt um að geta fært einstaklingum þann hæfileika á ný og nú hillir undir að það takist, a.m.k. að einhverju leyti. Framleiddar hafa verið linsur á einskonar gormum, sem eru settar í stað harðnaða augasteinsins. Eftir að þær hafa verið settar inn í augað geta þær breytt fókusnum í auganu eftir því sem hlutur er færður nær eða fjær einstaklingnum, rétt eins og um yngri einstakling væri að ræða. Þó er ekki um það að ræða að nýi gerviaugasteinninn breyti um lögun, líkt og sá gamli gerði fyrr á dögum, heldur að hann færist fram og aftur vegna plastgormanna sem hann er festur í. Að sumu leyti líkjumst við því fiskunum, en í þeim færist augasteinninn aftur á bak þegar þeir horfa á nálæga hluti. Er ekki að efa að fiskiþjóðinni hér hlýni um hjartarætur að færast nær uppruna sínum og sínu helsta viðurværi og taki slíkri nýjung feginshendi þegar hún berst hingað til lands, en það verður örugglega innan fárra ára.

 

Fjórðukynslóðarmeðferðin

Öryggi lasermeðferðar við sjónlagsgöllum hefur aukist mjög undanfarin ár. Líkt og áður hefur komið fram er þetta algengasta skurðaðgerð sem framkvæmd er í heiminum og helgast það fyrst og fremst af því hversu margir eru með sjónlagsgalla, en yfir 70% Asíubúa þurfa á gleraugum að halda daglega, en um þriðjungur Vesturlandabúa, þar á meðal Íslandinga. Síaukið öryggi meðferðarinnar á þó líka sinn þátt í vinsældum aðgerðarinnar. Eitt af því sem hefur bætt öryggi meðferðarinnar er bætt lasertækni, en á undanförnum árum hefur svokallaður ,,skannandi laser” (scanning laser) notið æ meiri vinsælda, en nákvæmni hans er mun meiri en annarra lasergerða sem notaðar voru í upphafi lækninganna. Á allra síðustu árum hefur síðan tekist að bæta lasertæknina enn með því að útbúa lasertækin með viðbótarbúnaði sem kallaður hefur verið fjórðukynslóðarbúnaður. Þessi búnaður gerir það að verkum að unnt er að ,,klæðskerasauma” hverja hornhimnu fyrir sig, þ.e. í stað þess að meðhöndla hana einungis með tilliti til sjónlagsgallans (þ.e. tölva lasertækisins er forrituð með upplýsingum um bestu gler sem viðkomandi þarf á að halda) er hún meðhöndluð eftir landakorti sem útbúið er af henni. Þetta tryggir að þær ójöfnur sem kunna að vera fyrir á hornhimnunni eru jafnaðar út, fjöllin á hornhimnunni eru meðhöndluð meir en dalirnir síður. Þetta hefur hrundið af stað goðsögninni um svokallaða ofursjón, þ.e. að viðkomandi geti séð betur án gleraugna eftir aðgerð en með gleraugum fyrir aðgerð, og vissulega gerist það í sumum tilvikum. Mikilvægara er þó að kunni hornhimna að verða óregluleg að lögun eftir laseraðgerð, sem getur gerst í 1 aðgerð af 300 sem framkvæmdar eru, er í flestum tilvikum hægt að lagfæra það með slíkri fjórðukynslóðaraðgerð. Þetta eykur til mikilla muna öryggi laseraðgerða og festir þær enn frekar í sessi.

 

Af ofangreindu er ljóst að margir möguleikar eru að ryðja hjálpartækjunum gleraugum og snertilinsum úr sessi. Ljóst er að slík hjálpartæki verða áfram við lýði, en þó sennilega í æ minni mæli eftir því sem árin líða. Ekki er langt síðan að laseraðgerðir þóttu einungis fyrir ofurhuga, bæði í hópi lækna og sjúklinga. Nú eru þær orðnar algengustu aðgerðir sem framkvæmdar eru og meðferðarmöguleikarnir aukast stöðugt. Vera kann að í framtíðinni muni fólk líta á gleraugu sömu augum og hækjur. Og kannski tekur Tryggingarstofnunin við sér líka. Eða … kannski ekki.

 

Dr. Med. Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir.