Er varasamt að vera í ljósum?

Útfjólublá geislun

Sólin veitir okkur birtu og yl. Í sólarljósi er útfjólublá geislun (UV-geislun, Ultra Violet Radiation) en bylgjulengd hennar er utan þess sviðs sem mannsaugað greinir. Útfjólublá geislun myndar litarefni í húðinni og við verðum "brún". Geislunin er tvenns konar, annars vegar útfjólublá geislun með stuttri bylgjulengd, B-geislun (UV-B), sem er orkumikil og hefur mest áhrif á húðina, og hins vegar útfjólublá geislun með langri bylgjulengd, A-geislun (UV-A). Styrkur B-geislunarinnar er mjög háður sólarhæð, sem ræðst af hnattstöðu, tíma dags og árstíð.

Útfjólublá B-geislun eykur framleiðslu á litarefni (melaníni) í húðinni og yfirhúðin þykknar. A-geislunin leysir síðan litarefnið úr litarfrumum húðarinnar þannig að það verður sýnilegra. Þessi viðbrögð húðarinnar eru eðlileg vörn gegn sólarljósi. Við óhófleg sólböð, eða ljósböð sem stunduð eru á sólbaðsstofum, getur B-geislun valdið brunasárum. A-geislun getur einnig valdið bruna í húð en til þess þarf mun meiri geislun eða lengri geislunartíma. Báðar tegundir geislunar geta skaðað húðfrumur og aukið hættu á varanlegum húðskemmdum og húðsjúkdómum.

Geislun í ljósabekkjum

Perur í ljósabekkjum gefa aðallega frá sér útfjólubláa A-geislun en einnig lítilsháttar B-geislun. Þó eru til ljósabekkir sem gefa jafn mikla B-geislun og sólin í Mið-Evrópulöndunum, eða mun meira en sumarsólin hér á landi. Útfjólublá A-geislun frá perum í ljósabekkjum er oft þrisvar til fjórum sinnum meiri en í sumarsólinni hér á landi. Í nokkrum gerðum ljósabekkja getur útfjólublá geislun í heild verið álíka mikil og í sólarljósi hitabeltislandanna.

Léleg vernd gegn sólbruna

Brúnn húðlitur sem fenginn er með ljósböðum í ljósabekkjum er ekki eins og venjuleg "sólbrúnka" (vegna þess að A-geislunin er hlutfallslega mikil) og veitir því ekki eðlilega vörn gegn sólarljósi. Því er ráðlagt að skýla sér fyrir sólskini þótt húðin sé dökk eftir ljósböð. Ljósböð valda ekki þykknun á hornlagi húðarinnar eins og sólböð gera. Þykknunin er einmitt ein vörn húðarinnar gegn miklu sólskini og seinkar sólbruna. Ef húðin er brún eftir ljósböð verða menn síður varir við byrjunareinkenni sólbruna, til dæmis í löngu sólbaði á sólarströnd. Lítil vörn er því fólgin í „grunnbrúnku" sem fenginn er í ljósabekk áður en farið er til sólarlanda. Best er að venja húðina smátt og smátt við sólarljósið með því að vera úti í byrjun sumars.

Húðin eldist fyrr

Ljósabekkir gefa frá sér meiri útfjólubláa A- geislun en sólin. Þessi geislun smýgur langt undir yfirborð húðarinnar. Óhófleg ljósböð og sólböð valda sliti á húðinni jafnframt því sem teygjanleiki hennar minnkar og hún verður hrukkóttari en ella. Ekki eru til nein smyrsl sem græða slíkan húðskaða að fullu en þó eru til lyf í kremformi sem geta minnkað húðslitið. Rakakrem dugir sjaldnast til að bæta úr þornun í dýpri lögum húðarinnar.

Ljósabekkir eru ekki hættulausir

Hættan við notkun ljósabekkja er sennilega sú sama og af sólarljósi. Nokkuð algengt er að sólarofnæmi komi fram við ljósböð. Rannsóknir benda til þess að útfjólublá A-geislun eigi þátt í myndun húðkrabbameins, en tíðni þess hefur aukist mikið síðustu ár, bæði hér á landi og erlendis, og er það rakið til aukinna sólbaða og ekki síður aukinnar notkunar ljósabekkja. Ár hvert eru greind hér á landi meira en fjörutíu ný tilfelli af krabbameini í húð.

Á flestum ljósabekkjum er tímarofi sem slekkur ljósin áður en hætta skapast á bruna. Ef rofanum er breytt þannig að baðtími lengist eða ljósböð eru endurtekin með of stuttu millibili er hætta á sólbruna þó til staðar.

Bæði útfjólublá A- og B-geislun geta valdið bruna á hornhimnu augans, sem síðan getur valdið skýi á auga og jafnvel blindu. Því er nauðsynlegt að nota viðeigandi hlífðargleraugu við ljósböð. Við sólböð skal nota sólgleraugu sem veita vörn gegn útfjólublárri geislun.

Af þessu er ljóst að ljósabekkir geta verið hættulegir, engu síður en sólin. Börn eiga því ekki að nota ljósabekki. Allir sem hafa ljósa og viðkvæma húð, sem brennur gjarnan í sól, eru ljóshærðir eða rauðhærðir, eða eru með marga fæðingarbletti, ættu að forðast ljósböð. Þeir sem á annað borð kjósa að nota ljósabekki ættu ekki að fara oftar í þá en tíu til fimmtán sinnum á ári. Notkunina á ávallt að miða við hversu vel notandinn þolir sólarljós og fylgja skal leiðbeiningum framleiðanda eða starfsfólks sólbaðsstofa. Þegar ljósabekkur er notaður í fyrsta sinn er hámarkstími fimm til tíu mínútur.

Eftirlit og hreinlæti

Þegar yfirvöld heimila innflutning ljósabekkja er gert ráð fyrir ákveðnum perum í hverri tegund bekkja. Mikilvægt er að eigendur sólbaðsstofa noti ekki sterkari perur en áskilið er. Þá er nauðsynleg t að gæta ýtrasta hreinlætis svo að smitandi sjúkdómar berist ekki milli þeirra sem nota bekkina.

Enginn vítamíngjafi

Ljósabekkir hafa engin áhrif á myndun D-vítamíns í líkamanum eins og gerist við sólböð í sólarljósi. Flestir fá nægilega mikið af þessu vítamíni frá sólinni og úr fæðunni, m.a. lýsi.

Meðferð húðsjúkdóma

Sumar tegundir barnaexems og flösuexems (seborrhea) geta lagast nokkuð við ljósböð. Ekki er þó ráðlagt að hefja meðferð slíkra eða annarra húðsjúkdóma í ljósabekkjum án samráðs við lækni. Ef meðferðar er þörf er hún öruggust á húðsjúkdómadeildum. Á þann hátt má tryggja að greining húðsjúkdómsins sé rétt og meðferðin viðeigandi.

Enda þótt venjulegt sólarljós hafi að jafnaði góð áhrif á bólur gera geislar í ljósabekkjum ekki sama gagn. Margar betri og hættulausar aðferðir má nota við þeim.

Sérstakir ljósabekkir, sem gefa mikla útfjólubláa B-geislun, eru notaðir við meðferð á sóra (psoriasis) og öðrum húðsjúkdómum. Um slíka ljósabekki gilda sérstakar reglur og þá má aðeins nota samkvæmt læknisráði. Útfjólublá A-geislun er einnig notuð við meðferð á sóra en einungis með lyfi sem gerir húðina mjög næma fyrir þess háttar geislun. Slík meðferð fer aðeins fram á húðsjúkdómadeildum.

Háfjallasólir

Áður fyrr voru svonefndar háfjallasólir notaðar til ljósbaða. Þær gefa oft frá sér mun meiri útfjólubláa B-geislun en ljósabekkir og er því eindregið varað við notkun þeirra.

Varúðar þörf

Eins og hér hefur verið nefnt er ástæða til að nota ljósabekki með mikilli varúð. Þeir sem stunda sólböð úti við eða í ljósabekkjum ættu að fylgjast vel með öllum breytingum sem verða á húðinni. Rétt er að leita læknis ef fólk hefur áhyggjur af blettum á húð, ekki síst ef þeir eru skörðóttir, mislitir og stærri en sex millimetrar í þvermál.

Ekki er ástæða til að amast við því að fólk láti geisla sólar leika um sig, ef það er gert innan skynsamlegra marka, en fátt eða ekkert mælir með því að nota ljósabekki í þeim tilgangi.

Upplýsingar þessar eru unnar í samráði við göngudeild húðsjúkdóma á Landspítalanum.

Birt í tímaritinu Heilbrigðismál, 1. tbl. 1996.

Birt með góðfúslegu leyfi Geislavarna ríkisins