Er einelti á vinnustaðnum?

Samkvæmt tölum frá nágrannalöndunum má ætla að um 3-10% starfsmanna verði fyrir einelti í vinnu en algengi þess hérlendis hefur ekki verið kannað. Einelti getur gert lífið óbærilegt fyrir þann sem fyrir því verður, dregið úr starfsorku og haft slæm áhrif á starfsandann. Einelti er eitt alvarlegasta samskiptavandamál sem upp kemur á vinnustað.

Hvað er einelti?

Einelti má skilgreina sem endurtekna lítilsvirðandi og særandi framkomu gagnvart einstaklingum. Stundum er einelti fólgið í því að einn einstaklingur níðist á öðrum, stundum standa fleiri að verki þannig að sá sem lagður er í einelti verður útundan í vinnuhópnum. Oft átta gerendur sig ekki á afleiðingum athafna sinna.

Vinnuveitanda ber að sjá til þess að einelti líðist ekki
á vinnustaðnum. Stjórnendur gegna lykilhlutverki í
því að skapa starfsandann og eiga að bregðast við ef
einelti kemur upp.

Einelti kemur öllum við. Gerendur njóta verndar svo lengi sem stjórnendur og hinn þögli meirihluti á vinnustaðnum láta einelti viðgangast.

Orsakir eineltis eru margs konar. Á vinnustöðum er m.a. unnt að skoða hvort vinnuskipulagið stuðlar að því að einelti komi upp.

Upplýsingaflæði, starfslýsingar

Er upplýsingaflæði tregt? Viðgengst baktal á vinnustaðnum? Eru starfslýsingar óskýrar og hætta á hagsmunaárekstrum?

Athafnafrelsi, svigrúm, starfsþróun

Hafa starfsmenn lítil tækifæri til að hafa áhrif á hvernig þeir vinna? Er eftirlit með vinnunni þannig háttað að það skapi spennu og ríg? Hafa starfsmenn ójafna möguleika á framgangi í starfi?

Tímaþröng

Vinna starfsmenn ákvæðisvinnu? Eru óraunhæfar kröfur um hraða og/eða fjölda verkefna? Eru þeir sem minna mega sín í hópnum litnir hornauga?

Vinnutími

Er starfsmönnum mismunað svo gróflega varðandi viðveru í vinnu, sveigjanlegum vinnutíma eða við skipulag vakta að það geti verið liður í einelti?

Einangrun

Eru starfsmenn faglega eða félagslega einangraðir í vinnunni? Geta starfsmenn fengið hjálp frá samstarfsmönnum eða yfirmönnum þegar þörf krefur?

Umburðarlyndi

Skortir umburðarlyndi t.d. gagnvart aldri, þjóðerni, fötlun, kynhegðun, kynferði eða öðrum sem kann að aðgreina starfsmann frá starfshópnum?

HVAÐ ER TIL RÁÐA GEGN EINELTI?

Samkvæmt vinnuverndarlögum (46/1980) skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Ráð gegn einelti eru ekki einhlít en ef það kemur upp á vinnustað og stjórnendur bregðast geta starfsmenn leitað fulltingis trúnaðarmanna, verkalýðsfélags eða aðstoðar óháðra, utanaðkomandi aðila. Á heimasíðu Vinnueftirlitsins er listi yfir nokkra ráðgjafa sem leita má til við lausn slíkra mála.

Birt með góðfúslegu leyfi Vinnueftirliti ríkisins og Landlæknisembættisins