Er ég með kynsjúkdóm?

Hvað er kynsjúkdómur?

Sjúkdómur sem smitast við kynmök (samfarir jafnt sem önnur mök) nefnist kynsjúkdómur. Smit á sér oftast stað við beina snertingu slímhúða. Sýklar sem valda kynsjúkdómum lifa einungis við líkamshita og deyja utan líkamans. 
Hættan á kynsjúkdómum eykst eftir því sem fólk hefur fleiri rekkjunauta! 

Hvernig get ég komið í veg fyrir það að ég fái kynsjúkdóm?

    — Skírlífi
    — Forðast það að skipta ört um bólfélaga
    — Nota smokkinn
    — Alltaf nota smokkinn
    — Það má einnig nota smokkinn
    — Og síðast en alls ekki síst … nota smokkinn

Hvernig veit ég að ég er með kynsjúkdóm?

Sumir hafa engin einkenni – aðrir mjög augljós, til dæmis: 
    — öðruvísi eða þykkari útferð úr leggöngum 
    — verkir neðarlega í kvið
    — útferð úr typpi (kannski eins og hor) 
    — sviði við þvaglát 
    — sár, sérstaklega á kynfærum og við endaþarm 
    — kláði við kynfæri og endaþarm 
    — útbrot 
    — bólgnir eitlar í nára 
Þessi einkenni geta verið ein eða fleiri saman! 

Hvenær á ég að fara til læknis?

Ef þú hefur eitthvað af ofangreindum einkennum. Ef þú hefur stundað óvarið eða óábyrgt kynlíf. 
Ef þú ert að byrja í sambandi er gott að báðir aðilar fari í skoðun áður en að hætt er að nota smokkinn og þá byrjað að notast við aðrar getnaðarvarnir, þegar þið eru fullviss um að hvorugt hafi kynsjúkdóm. 

Af hverju ætti ég að fara til læknis ef að ég er einkennalaus?

Sumir kynsjúkdómar geta haft alvarlegar afleiðingar ef þeir eru ekki meðhöndlaðir: Klamydía getur til dæmis valdið utanlegsfóstrum eða ófrjósemi, eistun bólgna líka upp 
Þú ert smitberi, þú smitar aðra!!! 

Hvað er gert hjá til dæmis Húð og kyn?

Ef þú ert einkennalaus þá ferðu í viðtal hjá hjúkrunarfræðingi, eða lækni ef þú óskar eftir því.  Það er tekin þvagprufa og blóðprufa.  Svo færðu sérstakt leyninúmer sem þú einn veist og getur athugað niðurstöðurnar eftir nokkra daga.
Ef um smit er að ræða þarf að rekja það.  Því þarf að gefa upp rekkjunauta sl. 6 mánuði.  Oft man fólk ekki nöfn og stundum er ekki um raunverulegar samfarir að ræða.
Ef fólk er skoðað þá má hugsanlega greina vörtur, stundum Herpes, bakteríusýkingar, flatlús, kláðamaur, húðsjúkdóma, húðæxli, njálg eða gleymda túrtappa.

Er það satt að maður megi ekki drekka áfengi ofaní sýklalyf?

Nei það er ekki alveg rétt.  Á þó við þegar að fólk tekur sýklalyf sem heitir Flagyl (Metronidazol), það verkar eins og Antabus og veldur mikilli vanlíðan.
Því á fólk alls ekki að hætta að taka sýklalyf þó að það ætli að fá sér í glas.

 

Grein þessi birtist fyrst á vefnum Ástráður – Forvarnastarf læknanema