Endurlífgun

Beita þarf endurlífgun ef um öndunar- og hjartastopp er að ræða. Hjartaáfall er algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum. Drukknun, köfnun, raflost, lost og lyfjaeitrun geta einnig valdið hjartastoppi.

Ljóst er að ef hjartastopp verður utan sjúkrahúss skiptir meginmáli fyrir bata að hefja endurlífgun sem allra fyrst. Hræðsla við að geta ekki beitt réttum handtökum og gera eitthvað rangt aftrar fólki þó oft frá því að reyna aðstoð.

Hvað sérðu?
· Í tilfellum þar sem um skyndilegt meðvitundarleysi er að ræða skaltu hringja strax í Neyðarlínuna 112 áður en þú ferð út í frekari aðgerðir.
· Athugaðu viðbrögð við áreiti. Ef einstaklingurinn bregst ekki við skaltu kanna öndun.
· Opnaðu öndunarveg og kannaðu hvort öndun er eðlileg. Leggðu vangann við andlitið og horfðu á hvort brjóskassin hreyfist, hlustaðu eftir öndunarhljóðum og reyndu að finna hvort viðkomandi andar frá sér.
· Byrjaðu strax endurlífgun með hjartahnoði og blæstri ef engin viðbrögð eru til staðar og öndun er óeðlileg. Þegar um börn er að ræða skal fyrst framkvæma endurlífgun í 1 mínútu, áður en hringt er á aðstoð.

Hjartahnoð
· Hnoðaðu á taktinum 100 hnoð á mínútu á miðjan brjóstkassann með beinum handleggjum, úlnliðir og olnbogar eiga að vera læstir og axlir beint yfir hnoðstað.
· Léttu öllum þunga af brjóstkassanum eftir hvert hnoð.

Blástur
· Opnaðu öndunarveginn með því að setja aðra hendi á ennið og ýttu höfðinu aftur, lyftu samtímis undir hökuna með hinni hendinni.
· Dragðu eðlilega að þér andann og blástu þannig að þú sjáir brjóstkassann lyftast aðeins. Komist loftið ekki ofan í lungun skaltu reyna að sveigja höfuðið aðeins betur. 

 

 

Aldur Hvar eiga hendurnar að vera við hjartahnoð? Hversu hratt á að hnoða? Hvernig á að blása? Hveru oft á að hnoða og blása?
0-1 árs Á miðjum brjóstkassa – einni fingurbreidd neðan við geirvörtur. Notaðu tvo fingur – löngutöng og baugfingur. 100 sinnum á mínútu. Blástur í gegnum munn og nef á um 2 sek. fresti, 25 x mín. Hnoðaðu 30 sinnum og blástu 2 sinnum, endurtaktu eftir þörfum.
1 árs til kynþroska Á miðjum brjóstkassa – á milli geirvartna Notaðu þykkhönd – aðra höndina. 100 sinnum á mínútu. Blástur í gegnum munn á um 5 sek. fresti, 12 x mín. Hnoðaðu 30 sinnum og blástu 2 sinnum, endurtaktu eftir þörfum.
Fullorðnir Á miðjum brjóstkassa – á milli geirvartna. Notaðu þykkhönd – báðar hendur. 100 sinnum á mínútu. Blástur í gegnum munn á um 5 sek. fresti, 12 x mín. Hnoðaðu 30 sinnum og blástu 2 sinnum, endurtaktu eftir þörfum.

Hvenær má hætta lífgunartilraunum?
· Sjúklingurinn fer að anda. 
· Læknir, hjúkrunarfræðingur eða sjúkraflutningamaður tekur við af þér. 
· Læknir gefur fyrirmæli um að hætta. 
· Þú örmagnast. 
· Aðstæður verða þannig að hættulegt gæti verið að halda áfram. 
· Hjartastoppið hefur varað lengur en hálfa til eina klukkustund, með eða án lífgunartilrauna, nema þegar um mikla kælingu er að ræða þá skaltu halda áfram þar til þú örmagnast eða líkami einstaklingsins hefur hitnað.

 

Ítarleg grein um endurlífgun barna eftir Þórð Þórkelsson, barnalækni, er að finna á heimasíðu Barnaspítala Hringsins. 

 

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands