Endurhæfing lungnasjúklinga

Endurhæfing lungnasjúklinga er sniðin að þörfum einstaklingsins með nákvæmri sjúkdómsgreiningu, andlegum stuðningi, þjálfun og fræðslu. Hún miðar að því að viðhalda eða bæta líkamlega, andlega og félagslega heilsu og ná þannig fram bestri mögulegu færni til að lifa lífinu betur en lungnasjúkdómurinn hefði annars leyft (1).

Markmið endurhæfingar lungnasjúklinga

Markmið lungnaendurhæfingar eru mörg og göfug enda markið sett hátt, að lifa lífinu eins lifandi og sjúkdómurinn leyfir og helst aðeins betur. Þau helstu eru:

  • Minnka öndunarvinnu
  • Auka afköst við æfingar og athafnir daglegs lífs
  • Færa slagæðablóðgös í eðlilegt horf
  • Minnka mæði
  • Auka skilvirkni í orkunotkun
  • Bæta andlega líðan
  • Hægja á framgangi sjúkdómsins, stöðva hann eða jafnvel bæta
  • Minnka kostnað heilbrigðiskerfisins.

Margar starfsstéttir vinna sameiginlega að þessum markmiðum, þær helstu eru sjúkraþjálfari, iðjuþjálfi, læknir, hjúkrunarfræðingur, sálfræðingur, næringarráðgjafi og félagsráðgjafi (3). Hvert hlutverk hverrar stéttar er, er ekki fast afmarkað og miðast við aðstæður hverju sinni. Ekki er nauðsynlegt að allar þessar starfstéttir komi að endurhæfingunni og oft nóg að geta leitað til þeirra (1-3).

Þættir endurhæfingar og árangur af henni

Aðaláherslan í endurhæfingunni er líkamleg þjálfun og hefur gagnsemi hennar verið vísindalega sönnuð. Þar er bæði þjálfað úthald til hreyfinga eins og að ganga eða hjóla en einnig er þjálfaður styrkur vöðva. Rannsóknir sýna að þjálfunin minnkar mæði því öndunarvinnan minnkar og öndunin batnar, jafnvel þó blástursprófin lagist lítið. Hægt er að þjálfa öndunarvöðvana sérstaklega en gagnsemi þeirrar þjálfunar er umdeild þar sem hún nýtist einungis takmörkuðum hópi lungnasjúklinga og erfitt að finna þá í fjöldanum.

Fræðsla og leiðbeiningar samfara þjálfun er mjög mikilvæg. Lungnasjúklingar þurfa að læra að mæðin í sjálfu sér er ekki hættuleg og óhætt er að leyfa sér að verða móð(ur) við aðstæður sem við þekkjum. Við það hverfur líka kvíðinn og örvilnunin er fylgir mæðinni. Fræðsla um skilvirkni í orkunotkun og skipulag athafna er mjög mikilvæg því margir lungnasjúklingar ná tæplegast að anda að sér nógu miklu súrefni í hvíld hvað þá við áreynslu (1).

Allir þessir þættir vinna saman að því að auka lífsgæði og minnka félagslega einangrun sem oft er fylgifiskur lungnasjúkdóma. Persónuleg tengsl við aðra í hópnum skipta einnig miklu máli. Í sumum tilfellum þarf auk þess andlegan og félagslegan stuðning. Reykingavarnir og stuðningur til að hætta reykingum eru nauðsynlegar ef hægja á á framgangi sjúkómsins (1-4).

Hvar geta lungnasjúklingar komist í endurhæfingu?

Sjúkrahústengd endurhæfing: Í huga flestra tengist lungnaendurhæfing eflaust Reykjalundi enda hefur þar, vel á annan áratug, verið starfandi öflug endurhæfing fyrir lungnasjúklinga og er sú þjálfun í fararbroddi á norðurlöndunum. Þar er fjöldi fagfólks sem í sameiningu vinnur að ofangreindum markmiðum. Í langflestum tilfellum skilar sú þjálfun mjög góðum árangri og hafa margir öðlast „nýtt líf” eða „endurnýjun á lífinu”. Engin önnur stofnun á landinu býður upp á sambærilega þjálfun.

Göngudeildar þjálfun: Á HL stöðinni hefur frá upphafi verið starfandi þjálfun og endurhæfing fyrir lungnasjúklinga. Þjálfað er í hóp tvisvar í viku og boðið er upp á fræðslu sniðna að þörfum lungnasjúklinga. Þeir sem þurfa að þjálfa með súrefni geta fengið það á staðnum.

Einkastofur sjúkraþjálfara hafa líka boðið upp á þjálfun og endurhæfingu fyrir lungnasjúklinga og útvegað súrefni ef þörf er á. Á þessum stofum starfa yfirleitt sjúkraþjálfarar með reynslu af lungnaendurhæfingu.

Sjúkrahústengd heimaendurhæfing: Hér á landi hefur ekki verið boðið upp á þjálfun í heimahúsum sem framhald af sjúkrahúslegu. Erlendis hefur þessi tegund þjálfunar verið reynd með ágætis árangri (4). Á Landspítala Vífilsstöðum er að fara í gang tilraun með sjúkrahústengda lungnaendurhæfingu. Sjúklingi verður fylgt eftir á göngudeild eða farið heim til þess sem ekki getur sótt þjálfun vegna heilsufars. Markmiðið er að stytta sjúkrahúsleguna og bæta heilsutengd lífsgæði.

Viðhaldsþjálfun

Áhrif endurhæfingarinnar vara því miður ekki endalaust. Ef ekkert er þjálfað eftir endurhæfinguna vara áhrifin í mesta lagi 18-24 mánuði. Hinsvegar vara áhrifin mun lengur ef þjálfað er áfram. Sú þjálfun getur verið í ýmsu formi og er mikilvægt að hver og einn velji sér þjálfunarform sem honum hentar. Nefna má sem dæmi göngur, hjólreiðar, golf, sund og skipulagða þjálfun t.d. á HL stöðinni.

Hvernig er best að þjálfa?

Þjálfunin þarf að vera skemmtileg og við hæfi hvers og eins. Þeir sem þurfa aðhald og hvatningu ættu að fara í skipulagða þjálfun. Uppbygging þjálfunarinnar ætti að vera þannig:

– Róleg upphitun í 5-15 mínútur eftir getu. Mæði á að vera það lítil að hægt sé að halda uppi samræðum.
– Þjálfun í 15-40 mínútur eftir getu. Mæði má vera meiri en þó ekki það mikil að það þurfi að stoppa, best er að minnka álagið áður en til þess kemur.
– Kæling, teygjur. Þeir sem hitna vel þurfa að hreyfa sig rólega í 2-5 mínútur eftir þjálfun og teygja síðan. Hinir geta farið beint í vöðvateygjur fyrir fótleggi og handleggi.
– Þjálfa 2-3 sinnum í viku en hreyfa sig í 20-30 mínútur hina dagana.

Lokaorð

Í lokinn vil ég minna á að öll hreyfing skilar árangri til bættrar heilsu, minnkar áhættu sjúkdóma og hægir á þróun þeirra sem fyrir eru. Landlæknisembættið ráðleggur 20-30 mínútna hreyfingu á dag til heilsubótar.

Höfundur er yfirsjúkraþjálfari á Endurhæfingu Landspítala Vífilsstöðum og hefur yfirumsjón með þjálfun lungnasjúklinga á HL stöðinni í Reykjavík.

Heimildir:

1. ACCP/AACVPR Pulmonary Rehabilitation Guidelines Panel. Chest 1997; 112:1363-96.
2. Pulmonary rehabilitation for COPD. A practical approach for improving ventilatiory conditioning. Celli B. Postgraduate Medicine vol 103, no. 4 april 1998.
3. Chronic Obstructive Pulmonary Disease, Celli, Benditt, Albert, from Comprehensive Respiratory Medicine.
4. Which pulmonary rehabilitation program is best for your patient? Rochester C. The Journal of Respiratory Diseases; vol 21, no. 9, september 2000.

Birt með góðfúslegu leyfi SÍBS, en greinin birtist áður í SÍBS blaðinu