Endurhæfing hjartasjúklinga

Þrjú stig endurhæfingar

Endurhæfing fyrir hjartasjúklinga hefur undanfarin ár verið í föstum skorðum. Hjartaendurhæfingu er gjarnan skipt í þrjú stig: Stig I fer fram á sjúkradeildum spítalanna, Stig II, grunnþjálfun, hefst 4- 6 vikum eftir hjartaáfall eða skurðaðgerð og tekur að jafnaði 4 vikur á Reykjalundi en 8 vikur í HL stöðinni. Stig III er viðhaldsþjálfun sem hægt er að stunda á HL stöðinni og víðar.

R-in þrjú

Mörgum reynist erfitt að viðhalda þjálfun eftir að endurhæfingu er lokið. Hér eru nokkur atriði sem geta reynst þér hjálpleg:

Veldu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg. Dæmi um slíka þjálfun er ganga, skokk, þolfimi, hjólreiðar, skíðaganga, sund og dans. Þú getur haldið þig við gönguna fyrst og fremst, eða breytt stundum til sem er ennþá betra. Þjálfun af þessu tagi getur gefið þér aukið þol, aukið brennslu, styrkt líkamann og gefið þér aukna vellíðan og hugarró.

Mundu: Ekki ætla þér um of. Taktu mark á R-unum þremur. Þá gengur þér betur að gera þjálfunina að eðlilegu lífsmunstri.

REGLULEGA:
Besta þjálfunaráætlunin er sú sem þú getur framkvæmt viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Gott er að þjálfa sig 2-5 sinnum í viku, 20 til 60 mínútur í hvert skipti, og mundu að lítið er betra en ekkert. Löng tímabil án þjálfunar gera þig þrekminni.

RÓLEGA:
Taktu á hægt og sígandi. Það er í lagi að mæðast, en ekki svo mikið að mæðin trufli tal þitt. Þeir sem þekkja Borg skalann ættu að halda sig á bilinu 11-16 á Borg.

RÉTT HJÁ:
Reyndu að þjálfa þig sem styst frá heimili eða vinnustað svo þú hikir ekki við að skella þér á æfingu. Mundu að ganga er fyrirtaks þjálfun sem auðvelt er að stunda einn, eða sem betra er, í góðum félagsskap.

Ef þú ert í lítilli æfingu þá skaltu ekki byrja að skokka nema að hafa fengið góðar leiðbeiningar hjá fagfólki, þar á meðal lækni þínum.

Þar sem hjartaendurhæfingin kemur meira af sjálfu sér eftir hjartaaðgerðina (stýrt af læknum, sjúkraþjálfurum og hjúkrunarfólki) þá er rétt að undirstrika nauðsyn viðhaldsþjálfunar með því að birta hér innihald bæklings frá HL stöðinni um viðhaldsþjálfun:

Þjálfun fyrir hjartasjúklinga, hvers vegna?

Þeir sem þjálfa reglulega fá síður kransæðasjúkdóma eða seinna á ævinni en þeir sem þjálfa ekki. Þeir fá einnig minni hjartaskemmdir og ná sér fyrr.

  • Hjá þeim sem hafa fengið hjartaáfall eða farið í hjartaaðgerð dregur reglubundin þjálfun úr líkum á endurteknum áföllum.
  • Reglubundin þjálfun eykur afkastagetu, styrkir hjartavöðvann og minnkar orkuþörf hans við álag.

Hvar er hægt að þjálfa sig?

HL stöðin er endurhæfingarstöð fyrir hjarta- og lungnasjúklinga.

  • Hjá okkur fer fram þjálfun fyrir hjartasjúklinga undir eftirliti lækna og sjúkraþjálfara.
  • Þátttakendur greiða sjálfir fyrir þjálfunina, einn mánuð í senn.
  • Innifalið í mánaðargjaldi er þrekpróf og læknisskoðun, sem endurtekin eru á eins árs fresti eða eftir ástæðum.

Uppbygging þjálfunar

Áður en þjálfun hefst er framkvæmd læknisskoðun og þrekpróf. Þjálfunaráætlun er síðan byggð á niðurstöðum þrekprófsins.

  • Þjálfunartímar eru tvisvar í viku, eina klukkustund í senn.
  • Hver tími skiptist í upphitun, þjálfun á hjólum, ýmsar æfingar, teygjur og slökun.
  • Fylgst er með púlsi og blóðþrýstingi hjá fólki eftir þörfum.

Fyrir hverja er þjálfunin á HL stöðinni?

Einstaklinga, sem hafa farið í hjartaaðgerð, kransæðaútvíkkun eða eiga við lungnasjúkdóma að stríða.

  • Einstaklinga sem fengið hafa hjartaáfall.
  • Einstaklinga með kransæðasjúkdóm, háþrýsting eða einstaka aðra hjartasjúkdóma.

Birt með góðfúslegu leyfi Landssamtaka hjartasjúklinga