Endaþarmsskoðun

Hvað er endaþarmsskoðun?

Sért þú með einkenni sem læknirinn álítur vera frá ristli eða endaþarmi, er oft nauðsynlegt að skoða þarminn nánar. Við endaþarmsskoðun er neðanverður þarmurinn skoðaður.

  • Skoðunin reynist mörgum erfið þar sem afturendinn er einn viðkvæmasti líkamshluti okkar. Skoðuninni fylgir jafnan vanlíðan, sem minnir mest á iðrakveisu því blása þarf lofti inn í þarminn til þess að læknirinn sjái til.

Hvernig er skoðunin undirbúin?

  • Áður en skoðun fer fram þarf að tæma þarminn. Það er gert með notkun hægðalyfja nokkrum dögum fyrir rannsóknina og daginn sem skoðunin er framkvæmd, með stíl eða innhellingu sem losa um hægðir og hreinsa þarminn.
  • Til þess að læknirinn geti framkvæmt skoðunina þarf einstaklingurinn að vera á fjórum fótum, á hliðinni eða á bakinu í stoðum líkt og þegar konur eru skoðaðar í móðurlífsskoðun.

Hvernig er skoðunin framkvæmd?

  • Kremi er sprautað upp endaþarminn til að auðvelda skoðunina. Endaþarmssjánni er síðan komið fyrir. Hún er þumalfingursþykkur málm- eða plasthólkur um 25 cm að lengd. Meðan læknirinn blæs svolitlu lofti inn um hólkinn, sem er með ljósabúnað á endanum, er hægt að ýta honum upp í þarminn. Hólkurinn er svo dreginn hægt út aftur, og þá skoðar læknirinn slímhúð þarmsins vandlega. Á þennan hátt er hægt að komast að raun um hvort um sé að ræða sár eða æxli. Einnig eru tekin vefjasýni til smásjárrannsókna, ef þurfa þykir.
  • Ef skoða á neðsta hluta endaþarmsins er endaþarmskíkir, sem er aðeins 8-10 cm langur, settur inn strax á eftir til að læknirinn geti einnig fengið glögga mynd af neðsta hluta þarmsins.

Þarf að leggjast inn á sjúkrahús?

Ekki er nauðsynlegt að leggjast inn á sjúkrahús til rannsóknar þó svo að þær séu framkvæmdar þar. Einnig er hægt að framkvæma rannsóknina á læknastofu og það tekur sjaldnast meira en 10-15 mínútur. Þú getur farið heim að skoðun lokinni.