Eldsvoði – Slysaforvarnir

Mikilvægt er að fara varlega með eld og reyna þannig að koma í veg fyrir bruna og tjón af hans völdum. Eldvarnir á heimilum miða fyrst og fremst við að tryggja líf og heilsu þó brunavarnir geti einnig dregið úr eignatjóni.

Mannslát af völdum elds verða oftast þegar eldur kemur upp og íbúar eru sofandi. Þess vegna skipta reykskynjarar höfuðmáli. Eldvarnarteppi, handslökkvitæki og reykskynjarar eiga að vera á hverju heimili, helst einn í hverju herbergi. Skynjara á að staðsetja sem næst miðju lofts og ekki nær vegg en 20 sentimetra.

Nokkur heilræði
• Æskilegt er að sofa með svefnherbergisdyr lokaðar en það getur komið í veg fyrir að eitraður reykur komist inn í svefnherbergi.
• Ef dyrnar eru heitar þarf að nota aðra flóttaleið.
• Ef herbergi er fullt af reyk er best að skríða út.
• Gott er að fara á fyrirfram ákveðinn stað fyrir utan húsnæðið svo hægt sé að kanna hvort allir í húsinu séu óhultir.
• Það á aldrei að fara aftur inn í eld eða reyk. Fjöldi fólks hefur látist við að reyna slíkt.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands