Eldsneyti líkamans við föstu

Fita, prótín og sykrur eru orkuefni eða eldsneyti líkamans. Þegar inntaka fæðu (og þar með orkuefna) minnkar við megrun eða föstu þarf líkaminn að nota orkubirgðir sínar til að halda líkamsstarfseminni gangandi. Þessar orkubirgðir eru af mismunandi gerðum og í mismiklu magni í líkamanum.

Það fyrsta sem líkaminn nýtir sér eru sykrurnar. Þær eru geymdar sem fjölsykran glýkógen í lifrinni og einnig svolítið í vöðvunum. Glýkógeni er sundrað í einsykruna glúkósa en það er eina eldsneytið sem heili okkar getur nýtt sér. Glýkógenbirgðir líkamans eru ekki nema um hálft kíló og þegar þær eru uppurnar snýr líkaminn sér að myndun ketónkorna (e. ketone bodies) úr fitu.

Flestir vefir geta með góðu móti notfært sér ketónkorn sem eldsneyti en heilinn er ekki í þeim hópi. Glúkósaþörf heilans gerir það að verkum að líkaminn neyðist til að mynda nýjan glúkósa þegar ekkert er eftir af honum í líkamanum. Það gerir hann ekki með því að breyta fitu í glúkósa heldur með því að ganga á prótín vöðvanna og umbreyta þeim í glúkósa. Með þessu móti helst lífsnauðsynleg heilastarfsemi gangandi en afleiðingin er sú að vöðvarnir rýrna. Ef fastað er lengi getur jafnvel farið svo að önnur prótín en vöðvaprótín séu notuð sem hráefni til glúkósamyndunar og getur það á endanum leitt til dauða.

Áður birt á Vísindavef Háskóla Íslands.