Eitranir – Kolsýringseitrun

Þeir sem verða fyrir kolsýringseitrun vita oft ekki af því. Kolsýringur er ósýnilegur, bragð- og lyktarlaus og ertir ekki. Hann verður til við ófullkominn bruna lífrænna efna eins og bensíns, timburs, pappírs, viðarkola, kola og jarðgass. Í stórum skömmtum er korsýringur lífshættulegur.

Mikilvægt er að hafa ökutæki aldrei í gangi inni í lokuðu rými því þá myndast kolsýringsmökkur sem getur valdið dauða ef ekkert er að gert. Hafa þarf í huga ef bíll er fastur í snjóbyl að púströrið fyllist ekki af snjó því þá fyllist farþegarýmið af kolsýringi.

Hvað sérðu?
Erfitt er að greina kolsýringseitrun. Kvörtun fólks um flensu getur verið vísbending um kolsýringseitrun. En þótt mörg einkenni flensu og kolsýringseitrunar séu lík greinir þar líka margt á milli. Kolsýringseitrun veldur til dæmis ekki hita eða beinverkjum né hefur hún áhrif á eitlana.

Einkenni kolsýringseitrunar eru þessi:
• Höfuðverkur
• Hringing fyrir eyrum
• Brjóstverkur (hjartaöng)
• Máttleysi í vöðvum
• Ógleði eða uppköst
• Svimi og sjóntruflanir (óskýr eða tvöföld sjón)
• Meðvitundarleysi
• Öndunar- og hjartastopp

Hvað gerirðu?
• Komdu viðkomandi strax í ferskt loft.
• Hringdu strax á sjúkrabíl til að geta gefið þeim sem orðið hefur fyrir eitrun hreint 100% súrefni. Nota þarf 100% til að bæta súrefnisupptökuna í blóðinu og rjúfa tengslin milli kolsýringsins og blóðrauðans.
• Ef viðkomandi er meðvitundarlaus leggðu hann á hliðina.
• Fylgstu með meðvitund og öndun á meðan beðið er.
Allir sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kolsýringseitrun, hvort sem þeir missa meðvitund eða ekki, ættu að hafa samband við lækni því líklegt er að viðkomandi þurfi að fara í blóðrannsókn til að kanna eiturmagnið í líkama hans.

Nánari upplýsingar
Kolsýringur kemur í veg fyrir súrefnisflutning í blóðinu vegna þess að binding hans við rauðu blóðkornin er sterkari en binding súrefnis við þau. Þannig tekur kolsýringur þau sæti sem súrefninu eru ætluð. Þetta leiðir til vægrar fjölgunar rauðra blóðkorna, eins og líkaminn sé að reyna að bæta fyrir minnkaða súrefnisburðargetu. Fjölgun á rauðum blóðkornum leiðir til aukinnar seigju blóðsins sem getur valdið blóðtappamyndun og leitt til annarra alvarlegra blóðrásarsjúkdóma. Í blóði reykingarmanns hefur mælst allt upp í 15% kolsýringur en 50% mettun boðar bráðan dauða ef ekkert er að gert.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands