Einhverfuráðgjöf

 

Hvað eru einhverfa og Aspergersheilkenni?

Einhverfa er þroskaröskun sem lýsir sér í hegðunarfrávikum sem koma fram á þremur meginsviðum, þ.e. í félagslegum samskiptum, í tjáskiptum og í sérkennilegri, áráttukenndri hegðun. Margir einstaklingar með einhverfu búa við skertan vitsmunaþroska. Aspergersheilkenni er ólíkt einhverfunni að því leyti að ekki er um að ræða umtalsverða seinkun í máli og vitsmunaþroska. Fólk með einhverfu og skyldar fatlanir er afar sundurleitur hópur og þarfir þess því mismunandi. Það sem er sameiginlegt hjá fólki á einhverfurófinu eru miklir erfiðleikar í félagslegum samskiptum, m.a. í að geta sett sig í spor annarra og að skilja og lesa í hinar ólíku félagslegu aðstæður. Á seinustu árum hefur myndast sú hefð að tala um einhverfurófið þar sem einstaklingum er raðað á róf eftir alvarleika fötlunarinnar. Nýleg íslensk rannsókn sýnir fram á að algengi einhverfu, þar með talin ódæmilgerð einhverfa, sé 13.2 af hverjum 10.000 einstaklingum. Í skýrslu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Þjónusta við börn og ungmenni með einhverfu (1999), er gert ráð fyrir að 30-40 af 10.000 einstaklingum greinist með Aspergersheilkenni.

Í hverju er starfsemi einhverfuráðgjafarinnar fólgin?

Hugmyndafræði sú sem við vinnum eftir byggist á TEACCH-líkaninu, (Treatment and Education of Autistic and related Communication handicapped CHildren) sem á rætur sínar að rekja til Norður Karolínu í Bandaríkjunum. TEACCH-líkanið er heilsteypt þjónustulíkan fyrir fólk með einhverfu og fjölskyldur þeirra. Skipulögð kennsla (Structured Teaching) er einn aðalþáttur TEACCH. Gengið er út frá stöðu hvers einstaklings og skipulag þróað út frá getu, áhugamálum og þörfum hans. Með þessu er átt við að einstaklingurinn er aðalatriðið, fremur en einstaka kennsluaðferðir eða kenningar. Lögð er áhersla á einstaklingsmat til að geta skilið þarfir viðkomandi einstaklings betur. Skipulag er þróað fyrir hvern og einn út frá stöðu hans á hverjum tíma. Þetta er frábrugðið þeirri nálgun að ákveða hvað sé eðlileg hegðun fyrir hvern og einn og gera þær kröfur að einstaklingar með einhverfu falli inn í þann ramma, hvort sem það er þeim auðvelt eða ekki.

Áhersla á sterkar hliðar og áhugasvið einstaklings með einhverfu fremur en að einblína á erfiðleika hans er einnig mikilvægur þáttur í TEACCH- hugmyndafræðinni. Einstaklingar með einhverfu hafa margar sterkar hliðar sem geta haft áhrif á vilja þeirra til að vinna og auðveldað þeim að skilja hvað þeir eru að gera. Sterku hliðarnar og áhugamálin eru því markvisst nýtt sem grundvöllur að einstaklingsmiðaðri námskrá. Mikil áhersla er lögð á stöðuga og ítarlega fræðslu um einhverfu á öllum aldursstigum.

Ráðgjöf:

Ráðgjöfin er í flestum tilvikum sniðin að þörfum hvers nemanda eða einstaklings. Hún felst m.a. í mati og greiningu á náms- og félagslegri stöðu nemandans, aðstoð við gerð einstaklingsnámskrár, skipulagningu á kennslu og kennsluumhverfi og fræðslu til kennara, foreldra og annarra sem málið varðar. Veigamikill þáttur í ráðgjöfinni er að aðstoða kennara og foreldra við að finna leiðir til að efla félagsfærni og félagslegan skilning hjá þessum nemendum.

Námskeið og fyrirlestrar:

Einhverfuráðgjöfin ÁS stendur fyrir námskeiðum og fyrirlestrum, m.a. um: Skipulagða kennslu (Structured Teaching), TEACCH- hugmyndafræðina, einhverfu og Aspergersheilkenni og kennsluaðferðir til að efla félagshæfni. Form námskeiða eru mismunandi eftir þörfum viðkomandi hópa. Námskeiðin eru haldin bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Greiningarvinna:

Greiningarvinna okkar felst aðallega í að meta náms- og félagslega stöðu nemenda sem og hegðun og þroska. Notuð eru mismundandi greiningartæki sem flest eru samin til prófunar og mats á nemendum með einhverfu og eru notuð víða um heim. Við höfum aflað okkur réttinda til að nota þessi greiningartæki.

Ekki er ætlunin að ráðgjafarþjónustan sinni greiningu á einhverfu, enda er það hlutverk Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Í untantekningartilfellum gæti þó verið um frumgreiningu að ræða. Því miður er ástandið í þessum málaflokki á Íslandi í dag þannig að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins býr engan veginn yfir því fjármagni eða mannafla sem þarf til þess að veita þessum einstaklingum viðunandi þjónustu.

Markmið okkar er því að þjóna þeim hópum sem fá takmarkaða eða enga þjónustu í dag.

Einhverfuráðgjöfin ÁS

Einhverfuráðgjöfin ÁS er sjálfstætt starfandi sérkennslufræðileg ráðgjafarþjónusta í eigu þeirra Ásgerðar Ólafdóttur og Sigrúnar Hjartardóttur, einhverfuráðgjafa. Boðið er upp á ráðgjöf til skóla, stofnana og aðstandenda vegna fólks með einhverfu, Aspergersheilkenni og skyldar fatlanir. Einnig er boðið upp á námskeið og fyrirlestra og ákveðna kennslufræðilega greiningarvinnu.

Eigendur ráðgjafarþjónustunnar hafa langa reynslu af kennslu, ráðgjöf og námskeiðahaldi vegna nemenda með einhverfu og Aspergersheilkenni.

Heimasíða einhverfuráðgjafarinnar ÁSS er í vinnslu en hægt er að hafa samband vi& eth; okkur í símum 863 4629 og 698 1805 eða gegnum netföng: asgol@ismennt.is og sighjart@ismennt.is

Ásgerður Ólafsdóttir:
Nám:
Kennarapróf frá Kennaraskólanum 1970.
Nám í umferlis-og ADL kennslu blindra og sjónskertra við Instituttet for blinde og svagsynede í Kaupmannahöfn 1984-1985.
BA – nám (60 einingar) í sérkennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands 1989-1993.
Stundar nú M.Ed. nám í sérkennslufræðum við Kennaraháskóla Íslands og nám í stjórnun við sömu stofnun. M.Ed. ritgerðin fjallar um Kennsluaðferðir til að efla félagshæfni hjá nemendum með einhverfu og Aspergerheilkennni.
Störf:
Kennsla við grunnskóla í Reykjavík og Vestmannaeyjum 1970-1979
Kennsla við skóla BUGL 1979-1980
Blindraráðgjafi hjá Blindrafélaginu 1980-1984
Deildarstjóri Endurhæfingardeildar við Sjónstöð Íslands 1985-1990
Kennsla við sérdeild fyrir einhverf börn, Digranesskóla 1990-1998
Kennsla við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, sérdeild fyrir fatlaða nemendur, frá 1998. Deildarstjóri 1999-2000
Sjálfstætt starfandi hjá Einhverfuráðgjöfinni ÁS frá 2001

Hefur kennt á námskeiðum um einhverfu hjá Umsjónarfélagi einhverfra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, fræðslumiðstöðvum o.fl.
Annað:
Skrifaði bók fyrir Námsgagnastofnun er nefnist Pictogram – handbók (1997). Bókin er ætluð fagfólki og foreldrum.

Sigrún Hjartardóttir:
Nám:
Leikskólakennarapróf frá Fósturskóla Íslands 1973.
Nám í sérkennslufræðum frá Statens Spesiallærehögskole í Osló 1976-1978.
Starfsþjálfun í greiningu og kennslu barna með einhverfu við The University of North Carolina at Chapel Hill, Bandaríkjunum, 1992.
M.Ed.-gráða við Kennaraháskóla Íslands í febrúar 2001. Rannsókn hennar nefnist: Áhrif kennslu á getu barna með einhverfu til að hefja félagsleg samskipti við jafnaldra í leikskóla.
Störf:
Leikskólakennari/skólastjóri við ýmsa leikskóla á Íslandi og Noregi 1973-1976.
Sérkennari við Dalbrautarskóla (BUGL) 1978-1986.
Fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Íslands 1986-1988.
Deildarstjóri við sérdeild fyrir einhverf börn í Digranesskóla, 1988-1998.
Einhverfuráðgjafi við grunnskóla víða um land 1988-1998.
Leikskólasérkennari og einhverfuráðgjafi á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins frá 1998.
Sjálfstætt starfandi hjá Einhverfuráðgjöfinni ÁS frá 2001
Hefur kennt á fjölda námskeiða um einhverfu hjá Umsjónarfélagi einhverfra, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, svæðisskrifstofum og fræðslumiðstöðvum víða um land o.fl.
Annað:
Höfundur handrits og umsjón með gerð fræðslumyndbands um einkenni einhverfu sem notuð eru á námskeiðum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.

Báðar hafa sótt fjölda námskeiða og ráðstefna innan lands og erlendis um einhverfu og skyldar fatlanir. Menntun og starfsreynsla eigenda: