Einelti og netið

Netið og síminn eru oft nefnd þegar rætt er um einelti, enda hafa þessir miðlar opnað nýjar leiðir til að komast að fólki t.d. með gestabókum á bloggsíðum og SMS boðum í farsímum. Hluti af vandamálinu er eflaust sá að við höfum hingað til verið svo upptekin af öllum þeim möguleikum sem ný tækni býður upp á að það gleymist að þegar við notum Netið eða símann gilda að sjálfsögðu sömu reglur um umgengni við annað fólk og gilda í hinu áþreifanlega umhverfi. Börn og unglingar eru alls ekki ein um þetta. Ljót og sóðaleg skrif eftir fullorðið fólk er líka að finna á Netinu. Það virðist vanta talsvert á að allir átti sig á því að Netið er opinber vettvangur. Það er galopinn vettvangur og það sem sett er á Netið er aðgengilegt hverjum sem er og auðvelt að finna. Það gleymist líka oft að það sem einu sinni er komið á Netið er erfitt – eða ómögulegt – að fjarlægja. Mynd sem einhver setur á Netið í gríni eða reiðikasti er hægt að fjarlægja þegar viðkomandi áttar sig. En í millitíðinni getur einhver annar hafa vistað myndina í tölvunni hjá sér og getur sett hana á Netið þegar honum eða henni sýnist. Við þurfum því að fara varlega þegar við setjum efni inn á Netið og hafa það sífellt í huga að við erum úti á meðal fjölda fólks þegar við erum á Netinu. Kurteisi og tillitssemi eiga að einkenna samskipti okkar þar, rétt eins og þegar við hittum fólk augliti til auglitis.

Bloggsíður hafa verið sérstaklega áberandi í umræðu um einelti að undanförnu. Þessum “dagbókum” á Netinu hefur fjölgað gífurlega síðustu ár og þær eru sérstaklega vinsæll miðill meðal unglinga. Einelti á bloggsíðum felst oft í ljótum skrifum eða myndbirtingum, ýmist með því að eigandi síðunnar setur inn texta eða myndir sem særa einhvern, eða með því að særandi skrif eru sett inn í gestabækur, sem eru hluti af bloggsíðum. Stundum eru þetta einstaklingar sem eru að leggja ákveðna manneskju í einelti, en líka er til fólk sem stundar það að fara inn á bloggsíður einstaklinga sem það þekkir ekkert og setja þar inn andstyggilegar athugasemdir.
Sá sem setur ljót skrif, eða myndir af öðrum í leyfisleysi, á sína eigin bloggsíðu á yfir höfði sér að síðunni verði lokað. Hægt er að senda kvartanir til þjónustuaðila sem halda úti vefsvæðum sem bjóða upp á blogg og biðja þá að loka síðum. Ef um er að ræða efni sem fellur undir meiðyrðalög er hægt að kæra viðkomandi og ef um er að ræða óforráða barn eða ungling eru það foreldrarnir sem eru ábyrgir.

Einnig er hægt að rekja ljót skrif sem sett eru í gestabækur. Þjónustuaðilar skrá niður svokallaðar IP tölur sem eru nokkursskonar kennitölur tölva, og þannig er hægt að sjá úr hvaða tölvu skrifin koma. Til þess að fá upplýsingar um slíkt þarf hins vegar að leita til lögreglunnar og þá er það metið hversu alvarleg skrifin eru áður en gengið er lengra.

Það er því mikilvægt að foreldrar fylgist með netnotkun barna sinna og viti um það hvort þau hafa eigin heimasíðu eða bloggsíðu. Best er að ræða þessi mál við börnin, heimsækja síður þeirra reglulega og skrifa í gestabókina þannig að þau sjái að foreldrarnir hafa komið í heimsókn. Þá er líka auðveldara að bregðast við ef þau verða fyrir áreiti af einhverju tagi. Ég hef heyrt foreldra tala um að það sé einhvers konar innrás í einkalíf barns eða unglings að fylgjast með bloggsíðum þeirra eða heimasíðum. Þetta er hættulegur misskilningur því það sem sett er á Netið er opinbert efni. Einkalíf er ekki til á Netinu. Við getum farið inn á leitarvef og slegið inn hvaða nafn sem er. Þá birtast bloggsíðurnar í löngum bunum og við getum lesið blogg allra sem heita viðkomandi nafni.

Netið er óþrjótandi brunnur upplýsinga og skemmtunar og sífellt fleiri miðlar tengjast því með æ auðveldari hætti. Sýndarveruleikinn er orðinn stór hluti þess veruleika sem börnin okkar alast upp í og koma til með að lifa í sem fullorðnir einstaklingar. Til þess að geta orðið virkir einstaklingar þurfa þau að taka þátt í þessari þróun og rétt eins og við kennum börnum okkar að haga sér í umferðinni til þess að varna því að þau lendi í slysum, er nauðsynlegt að kenna þeim að fóta sig á Netinu. Mest af netnotkun barna fer fram á heimilum og því er nauðsynlegt fyrir foreldra að fylgjast með og afla sér lágmarksþekkingar á möguleikum Netsins. Margir foreldrar finna hins vegar til vanmáttar gagnvart allri þeirri tækni sem börnin þeirra virðast hafa fullt vald á. Góð leið til að bæta úr þessu og auka um leið samskip ti foreldra og barna er að fá börnin og unglingana til að kenna þeim fullorðnu að nota þennan miðil. Um leið er hægt að ræða um eðli Netsins sem opinbers vettvangs og hvernig best er að haga sér á Netinu til þess að geta notið alls þess jákvæða en kunna um leið að varast hætturnar.

Á vefsíðu SAFT, www.saft.is er að finna góð ráð fyrir foreldra og kennsluefni fyrir börn um örugga netnotkun. Það er góð leið fyrir foreldra að fara í gegnum þetta námsefni með börnunum. Á vefsíðunni er einnig að finna ýmsar fréttir, upplýsingar og tengla sem varða þetta efni.

Við berum öll ábyrgð á því að samfélagið í kring um okkur sé gott og að ekki sé verið að skemma eða eyðileggja líf einstaklinga í okkar nánasta umhverfi. Með því að tala saman og minna hvert annað á þessa ábyrgð getum við komið í veg fyrir mikið af sárindum og vanlíðan.

Höfundur starfaði sem verkefnisstjóri SAFT hjá Heimili og skóla Greinin birtist fyrst í tímariti Regnbogabarna í nóvember 2005.

Hvað er SAFT?

SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er vakningarverkefni um jákvæða og örugga notkun barna og unglinga á Netinu og tengdum miðlum. Verkefnið er unnið af Heimili og skóla – landssamtökum foreldra og er til tveggja ára, frá 1.október 2004 – 30. september 2006. Það er unnið innan aðgerðaáætlunar Evrópusambandsins og með styrk frá sambandinu. Samningsaðili við ESB er Menntamálaráðuneytið sem hefur falið Heimili og skóla alfarið að sjá um skipulagningu og framkvæmd á verkefninu.
Nánari upplýsingar um verkefnið: www.saft.is