Ég er húsið mitt – forvarnarstarf

Eflum framtíð Íslands! Verndum börnin okkar.

Verkefnið „Ég er húsið mitt“, hóf starfsemi sína árið 1997, með það í huga að aðstoða og hvetja foreldra og aðra uppalendur, til að ræða við börnin um lífshamingju og heilbrigði. Þar sem foreldrar gegna lykilhlutverki í forvörnum er mikilvægt að aðstoða þá og styðja til dáða.

Forvarnir snúast ekki eingöngu um áfengi og hörð eiturlyf því ýmsar aðrar hættur herja að börnunum okkar í daglegu lífi. Allskyns gildrur og gylliboð bíða þess að hrifsa til sín börnin okkar. Sterkasta vörnin er opin fræðsla og leiðandi umræða.

Með þetta í huga var myndaður samstarfshópur sem samanstendur af Hugo L. Þórissyni sálfræðingi, Iðunni Steinsdóttur barnabókarithöfundi, Hlín Gunnarsdóttur grafíkhönnuði, Ragnheiði Hermannsdóttur grunnskólakennara og Guðlaugi S. Pálmasyni verkefnisstjóra.

Leitað var eftir ráðgjöf hjá „Íslandi án eiturlyfja“ hvernig hægt væri að koma verkefninu þannig fyrir, að það samræmdist því forvarnarstarfi sem á sér stað í landinu. Úr urðu tvær barnabækur sem heita báðar „Ég er húsið mitt". 1999 var lögð lokahönd á bækurnar og fóru þær í dreifingu 15 des. það sama ár.

Í bókunum er líkamanum líkt við hús sem hver og einn þarf að læra að umgangast af ábyrgð, umhyggju og virðingu. Meðal annars er lögð áhersla á leiðbeinandi og verndandi reglur í fjölskyldum er varða hreinlæti, mataræði og svefn. Í umfjöllun bókanna er lagt til grundvallar að börnin þurfa sjálf að læra að bera ábyrgð á hegðun sinni og skilja að afleiðingar sem hljótast af hegðun þeirra, bitnar á þeim sjálfum.

Meginmarkmið allra þeirra sem hlut eiga að máli hlýtur að vera, að byggja upp einstakling með góða sjálfsímynd og gott sjálfstraust til að segja nei þegar á reynir. Í næstu bókum er tekist á við hin ýmsu vandamál og hættum sem þeim fylgja. Þar verður athugað með lesblindu, ofvirkni, einelti, áreiyti og hópþrýsting svo eitthvað sé nefnt.

Verkefnið hentar vel til kennslu þannig að margir grunnskólar hafa tekið það upp til aðstoðar við sérkennslu eða til kennslu í lífsleikni. Verkefnið fellur vel að því er getur í námsskrá um lífsleikni; „Skólinn aðstoðar foreldra í uppeldishlutverkinu og er menntun og velferð nemenda því sameiginlegt verkefni heimili og skóla“. „Ég er húsið mitt“ er hugsað sem innlegg í kennslu í lífsleikni þar sem m.a. er lögð áhersla á að barnið sé aðstoðað strax á unga aldri við að móta sér ábyrgan lífsstíl. Í lokamarkmiði lífsleikni í grunnskóla er bent á að nemandinn „öðlist áræði til að móta eigin ímynd, lífsstíl og lífsskoðun á sjálfstæðan og ábyrgan hátt og átti sig á samhengi þessa við að setja sér markmið er lúta að framtíðinni“. Efni bókanna „Ég er húsið mitt“ getur stutt kennara við að vinna m.a. að ofangreindu markmiði. Einnig er unnið að því að koma verkefninu vel fyrir í leikskólum þannig að það sé nýtanlegt í t.d. undirbúning fyrir grunnskóla.

Það er siðferðisleg skylda okkar allra að tryggja börnum okkar örugga framtíð. Til þess að slíkt sé mögulegt þarf að búa þau betur undir það áreiti sem fyrir þeim liggur.

Erlendis hafa sambærileg verkefni skilað um 70 % árangri á 10 ára tímabili þ.e.a.s. ofbeldi, fíkniefnaneysla og sjálfsmorðstíðni hefur fækkað um 70% svo dæmi séu nefnd. Það er mikilvægur þáttur þegar haft er í huga hve mikið af ungu fólki lendir villur vegar um og eftir fermingu. Ef að 70 % árangur næst, þýðir það, að það er hægt að einbeita sér enn betur og markvissar með sérhæfingu að þeim hópi sem eftir situr.

Þetta er eitt megin markmið framtíðarþróunar „Ég er húsið mitt“. Ef litið er framhjá þeim verðmætum sem myndast með því að vernda börnin okkar, myndi þetta hljóða þannig, að hver milljarður sem það kostar þjóðfélagið í meðferðir og stofnanir þeim tengdum á ári, fellur í 300 milljónir á ári.Verkefnið „Ég er húsið mitt“ er því mikilvægur undirbúningur fyrir alla forvarnarstarfsemi.

Nú þegar, hefur tekist að dreifa bókum til 75% barna á öllu landinu og er stefnt að því að klára fyrstu dreifingu um þessi áramót. Þetta verkefni er eingöngu fjármagnað af styrkjum frá bæjarfélögum, fyrirtækjum og svo framlögum frá einstaklingum. Eins hafa Forseti Íslands, Menntamálaráðuneytið, Félagsmálaráðuneytið, Dóms og kirkjumálaráðuneytið, Heilbrigðis og tryggingamálaráðuneytið, Landbúnaðarráðuneytið, Sjávarútvegsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Námsgagnastofnun, Heimili og Skóli, Ísland án eiturlyfja og margir fleiri stutt vel við verkefnið.

Mikið má ef duga skal og eru fulltrúar okkar að leitast eftir stuðningi fyrirtækja og einstaklinga til að ljúka fyrsta áfanga verkefnisins og vonumst við til að vel verði tekið á móti erindi þeirra.

Byrgjum æskubrunninn áður en hann mengast.

Vefur verkefnisins „Ég er húsið mitt"