E-taflan

Það vímuefni sem náð hefur einna mestri útbreiðslu hérlendis og erlendis, er hin svonefnda e-tafla. Hið efnafræðilega heiti þessa fíkniefnis er 3,4-metýlendíoxímetamfetamín, skammstafað MDMA. Það er kallað ýmsum nöfnum, svo sem e-taflan, ecstasy, alsæla og vansæla.

Efnið varð til árið 1914 í þeim tilgangi að draga úr matarlyst en það var aldrei sett á markað í því skyni. Á sjöunda áratugnum vöknuðu hugmyndir um að nota mætti efnið til geðlækninga. Gildi þess sem lækningalyfs var aldrei metið hlutlægt og árið 1985 var e-taflan sett á lista yfir ólöglega vímugjafa í Bandaríkjunum, vegna óvæntra dauðsfalla sem hlutust af neyslu hennar.

Það hafði verið vinsælt í Bandaríkjunum að dansa undir áhrifum e-töflunnar og sú tíska barst þaðan til Evrópu, einkum til Miðjarðarhafslanda og Bretlands. Það varð einkum vinsælt að neyta e-töflunnar við house-tónlist, en nafnið á þessari tónlist kemur frá veitingastaðnum Warehouse Club í Chicago. Þessi tónlist á m.a. rætur sínar að rekja til techno-tónlistar í Detroit. Þessi hraða og taktfasta tónlist fellur vel að hinum örvandi áhrifum e-töflunnar.

Vinsældir e-töflunnar urðu með mismunandi hætti í löndum Evrópu, en tengslin á milli e-töflunnar og tónlistar voru þó alls staðar hin sömu. Árið 1988 var haldin tónlistarhátíðin ,,Summer of love" í Bretlandi, sem leiddi til aukinnar neyslu e-töflunnar. Neikvæð viðbrögð urðu hjá almenningi, m.a. vegna dauðsfalls sem rakið var til neyslu e-töflunnar. Fyrsta ,,love parade" samkoman var haldin í Berlín árið 1989 og hefur haft veruleg áhrif á útbreiðslu e-töflunnar í Þýskalandi. Í þessum ,,skrúðgöngum" dansar gífurlegur fjöldi ungmenna við techno-tónlist. Á Spáni varð vinsælt hjá ungu fólki að neyta e-töflunnar um helgar, fara á milli bæja og dansa við bakalao-tónlist (skyld house-tónlist) á stórum diskótekum.

Sú breyting varð á nokkrum unglingatímaritum að horfið var frá andfélagslegum áróðri og í staðinn var endurvakinn áhugi á tísku og tónlist. Einnig fór að bera á greinum í tímaritum og á Internetinu þar sem mælt var með neyslu e-töflunnar.

IREFREA er evrópsk stofnun sem rannsakar áhættuþætti í lífi ungmenna og byggist á samstarfsneti evrópskra sérfræðinga í vímuvörnum. Stofnunin kannaði með rannsókn neyslu e-töflunnar í Evrópu á árunum 1996-1997. Rannsóknin fór fram í eftirtöldum fimm borgum: Coimbra í Portúgal, Modena á Ítalíu, Nice í Frakklandi, Palma á Mallorca (Spáni) og Utrecht í Hollandi. Í henni voru 1.627 einstaklingar spurðir staðlaðra spurninga og var u.þ.b. helmingur hópsins neytendur e-töflunnar en hinn helmingurinn ekki og var hafður sem viðmiðunarhópur. Einnig fór fram ítarleg könnun á opinberri umfjöllun um e-töfluna. IREFREA gerði síðan aðra rannsókn í framhaldi af þessari til þess að kanna sérstaklega tengsl vímuefna og næturlífs. Til viðbótar við fyrrnefndar borgir voru valdar Aþena í Grikklandi, Berlín í Þýskalandi, Manchester í Englandi og Vínarborg í Austurríki. Í hverri borg var rætt við 300 ungmenni eða samtals 2.700 manns. Einnig var rætt við 90 manns sem þekktu vel til næturlífsins, m.a. lögreglumenn, plötusnúða, dyraverði og eigendur skemmtistaða. Hér á eftir verða nokkrar niðurstöður þessara tveggja rannsókna reifaðar.

Í ljós kom að í flestum borgum er áfengi fyrsta vímuefnið sem fólk neytir, við meðalaldurinn 14,6 ára og síðan tóbak við 14,8 ára aldur. Síðan kemur kannabis við 16 ára aldur, amfetamín og LSD 17,7 ára, e-taflan 18,4 ára og að lokum kókaín við 19,3 ára aldur.

Neytendur e-töflunnar sögðust telja mikilvægustu ástæðuna fyrir neyslu hennar þá, að taflan yki þeim ánægju og úthald í dansi. Það reyndist vera munur á milli borga á því hve lengi ungmenni skemmta sér, allt frá um 4 klukkustundum í Modena og Aþenu og upp í meira en 7 klukkustundir í Palma og Berlín. Fyrir nokkrum árum fór ungt fólk sjaldnar út að skemmta sér og ekki jafn lengi í hvert sinn. Það virðist sem sumt ungt fólk sækist eftir að auka og lengja vellíðun með því að neyta e-töfluna, flýja hið daglega líf og finna fyrir frelsi. Einnig til þess að auka tilfinninganæmi og bæta þannig samskipti við annað fólk.

Rannsakendurnir telja að skipta megi þeim sem fara út að skemmta sér í tvo hópa. Annars vegar þá sem hafa það að aðaltilgangi í lífi sínu að skemmta sér og fyrir þá er allt réttlætanlegt til þess að ná þessu markmiði. Þeir eru líklegri til þess að misnota vímuefni. Hinn hópurinn hefur einnig ánægju af næturlífinu, en hefur einnig önnur hugðarefni í lífinu og þess vegna ekki sömu þörf á að nota vímuefni.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar nota neytendur e-töflunnar önnur vímuefni jafnframt en tilgátur höfðu verið um að svo væri ekki. Þeir sem neyta e-töflunnar urðu mun oftar ölvaðir af völdum áfengis en samanburðarhópurinn. Sumir neytendur e-töflunnar halda að með því að gera ákveðnar varúðarráðstafanir þá sé óhætt að neyta hennar, t.d. með því að ganga úr skugga um efnasamsetningu hennar, hvílast og drekka nógu mikið af vökva til &t horn;ess að forðast hitaslag. Því miður hefur e-taflan reynst mun hættulegri en þessir neytendur halda og ekki eru öll kurl komin til grafar í því sambandi. Neysla e-töflunnar hefur leitt til alvarlegra veikinda og jafnvel dauðsfalla. Það er ekki að ástæðulausu að Dr. med. Þorkell Jóhannesson, prófessor í lyfjafræði og eiturefnafræði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að MDMA (e-taflan) sé ,,vafasamasti, ef ekki langvafasamasti vímugjafi, sem skotið hefur upp kollinum á fíkniefnamarkaði hér á landi". Dýratilraunir, m.a. með apa, sýna að MDMA (e-taflan) getur valdið langvarandi breytingum í svokölluðum seratoninferjum, sem ferja boðefnið serotonin aftur upp í þá taugunga sem boðefnið hefur komið úr. Slíkar ferjur eru þekktar fyrir mörg boðefni í miðtaugakerfinu og eru nauðsynlegar til þess að starfsemi þess haldist rétt. Nýlegar rannsóknir með PET-myndgreiningu hjá mönnum renna einnig sterklega stoðum undir þá skoðun að svipað gerist í mönnum. Gæti þetta skýrt langvarandi geðdeyfð, óróa, kvíða og minnisleysi, sem vel þekkt er hjá neytendum MDMA.

IREFREA hefur sett fram tillögur um forvarnir og verða nokkrar þeirrar reifaðar hér. Vegna svipaðra viðhorfa til neyslu e-töflunnar í þeim löndum Evrópu þar sem rannsóknin fór fram, væri hægt að þróa forvarnir sem nýtast í mörgum löndum. Leggja þarf meiri áherslu á forvarnir gegn neyslu þeirra vímuefna, sem eru undanfarar og í orsakasambandi við neyslu e-töflunnar, sérstaklega áfengis en einnig tóbaks. Það þarf að vinna gegn því viðhorfi sem hvetur til og réttlætir neyslu e-töflunnar.

Tengslin á milli house-tónlistar og neyslu e-töflunnar reyndust mjög sterk og væri þess vegna skynsamlegt að beita sér gegn þessum tengslum í samstarfi við þá sem gegna lykilhlutverkum í tónlistarheiminum, m.a. plötusnúða sem eru ,,leiðtogar næturlífsins". Mikilvægt er að þekkja vel til lífsstíls og skemmtanalífs ungs fólks, ásamt því hvaða hlutverki vímuefni gegna í því sambandi. Það ber að forðast að taka neikvæða afstöðu til og ófrægja lífsstílinn og skemmtanalífið af þeirri ástæðu að vímuefni koma þar við sögu. Slíkt gæti aukið tengslin á milli þessara þátta og vímuefna. Ungt fólk, sem þekkir vel til skemmtanalífsins, getur gegnt mikilvægu hlutverki við að miðla skilaboðum um hættur samfara vímuefnaneyslu. Hér má geta þess að í handbók Evrópuráðsins í forvörnum kemur m.a. fram að ef upplýsingar um hættur vímuefna koma frá aðila, sem markhópur telur áreiðanlegan og forðast hræðsluáróður, þá getur það haft víðtæk og jákvæð áhrif. Þá niðurstöðu, að í flestum borgunum hafði meira en helmingur neytenda e-töflunnar hugleitt að hætta neyslu hennar, væri hægt að nýta við forvarnir.

Greinin birtist í ársskýrslu ríkislögreglustjórans 1997 – 1998

Heimildir

Calafat, A., Stocco, P., Mendes, F. Simon, J., van de Wijngaart, G., Sureda, P. et al. (1998) Characteristics and Social Representation of Ecstasy in Europe. Palma de Mallorca: IREFREA.

Calafat, A., Stocco, P., Mendes, F. Simon, J., van de Wijngaart, G., Sureda, P. et al. (1999) Night life in Europe and recreative drug use. SONAR 98, Palma de Mallorca: IREFREA.

Jóhannesson, Dr. med. Þorkell (1997) Um MDMA (3,4-metýlendíoxímetamfetamín) og skyld efni. www.vimuvarnir.is/mdmathj.htm

U D McCann, Z Szabo, U Scheffel, R F Dannals, G A Ricaurte (1998) Positron emission tomographic evidence of toxic effect of MDMA („Ecstasy") on brain serotonin neurons in human beings. Bretland: The Lancet, Vol 352, Október 31, 1998.

van der Stel, Dr. Jaap et. al. (1998) Handbook Prevention: alcohol, drugs and tobacco. Holland: Pompidou Group – Council of Europe.