Dyslexía

Hugtakið dyslexía merkir á latínu að eiga í erfiðleikum (dys) með orð (lexia). Á seinni hluta 19. aldar eru hugtökin dyslexía og orðblinda bæði notuð í þeirri merkingu, annars vegar yfir meðfætt málstol eða aphasiu (Broadbent, 1872, um Kussmaul 1877- sjá hjá Richardson , 1992) og hins vegar um áunnið mál- og ritstol sem heilablæðing vegna höfuðáverka eða veikinda getur valdið (Berlin, 1887).

Alla 20. öldina hefur merking hugtaksins dyslexia takmarkast við einkenni sem benda til erfiðleika með rituð orð, í lestri og í stafsetningu. Orsakir erfiðleikanna eru talin vera ásköpuð frávik í afmarkaðri heilastarfsemi (m.a. Morgan, 1896; Galaburda,1992;1994 Paulesu o.fl. 1996). Hver þessi frávik eru, hvar þau eru staðsett í heila og tengsl þeirra við afleiðingarnar eru viðfangsefni rannsókna nútímans og framtíðarinnar á dyslexíu.

Á meðan merking dyslexíuhugtaksins er háð óvissu og breytileika, er afstaðan til þess háð mismunandi viðhorfum og fræðilegri þekkingu fólks. Einnig hefur ríkjandi stefna á hverjum tíma í skóla- og menntamálum áhrif á hvaða merking er lögð í það. Notkun hugtaksins krefst því útskýringa.

 • Hvað er það í lestri og stafsetningu sem reynir á afmarkaða heilastarfsemi?Að umskrá stafi í hljóð:
  Lesandi umskráir stafarunur, sýnileg orð, upphátt eða í huganum í hljóðarunur, þ.e. huglæg orð – til þess að hann geti skilið þau.Að umskrá hljóð í stafi:
  Sá sem stafsetur, umskráir hljóðrunur (huglæg orð) og gerir þær sýnilegar með því að skrá þær á blað – þannig að hann og aðrir geti lesið og skilið.

  Í báðum tilvikum er lesskilningur markmið umskráningar.

 • Umskráningarerfiðleikar – algeng einkenni í lestri og stafsetninguRaddlestur er oft sundurslitinn, og hikandi. Lesandi endurtekur oft orðhluta, orð og setningar þegar hann les samfelldan texta eða stök orð. Fjöldi orða og atkvæða sem lesandinn kemst yfir að lesa upphátt er lítill miðað við lesendur sem lesa á þjálan og samfelldan hátt. Lestur stakra orða og orðleysa reynast sérstaklega erfið verkefni.Oft stafsetja þeir sem eiga erfitt með umskráningu út frá framburði en ekki rithefðum málsins. Villur í lestri og stafsetningu einkennast af brottföllum stafa, viðbótum stafa og stafavíxli. Þessar villur eru miklu tíðari en meðal jafnaldra sem geta lesið og stafsett án mikillar umhugsunar (Rannveig G. Lund og Ásta Lárusdóttir, 1998 óbirtar niðurstöður).
 • Einkenni umskráningar í tengslum við aldur og greindReynsla margra kennara er sú að börn ná tökum á því að umskrá ritmálið á fyrsta og öðru ári skólagöngunnar, bæði börn sem virðast framúrskarandi vel gefin, eðlilega gefin og með slaka greind. Framangreind einkenni eru eðlileg á þeim aldri sem börn eru að ná tökum á lestrarnámi en bregður sjaldnar fyrir eftir því sem eðlileg tök nást í lestri (Treiman og Hirsh-Pasek, 1985).Þau börn sem ekki ná tökum á umskráningu á þessum árum eru einnig á mismunandi greindarstigi. Þessi reynsla kemur heim og saman við rannsóknir sem sýna að tengsl milli greindar og lestrarnáms við upphaf skólagöngu eru væg (sjá í Adams, 1990; sjá í Höien og Lundberg, 1997).
  • Hugtakið dyslexía í merkingunni að eiga í erfiðleikum með að umskrá rituð orð eins og framangreind einkenni vitna um, eiga því við um erfiðleika nemenda á hvaða greindarstigi sem þeir eru (Höien og Lundberg, 1991; Stanovich, 1991; Siegel, 1989; sjá í J. Pind, 1997). Dyslexía getur því leitt til námsörðugleika hjá sumum en verið alltaf samhliða öðrum námsörðugleikum hjá öðrum.
  • Ætla má að vitræn færni í máli og uppvaxtarskilyrði hafi áhrif á framfarir (Höien og Lundberg 1991; Rack, Snowling og Olson, 1992). Einnig hefur skapgerð, baráttuvilji og iðni nemandans áhrif til framfara (Rannveig G. Lund).
 • Einkenni í máli og hljóðkerfiVeikleikar í hljóðkerfisþáttum virðast flestum sameiginlegir sem eiga í erfiðleikum með rituð orð, en einkennir lítt eða ekki þá sem auðvelt eiga með að umskrá rituð orð. Það er breytilegt milli einstaklinga í hvaða þáttum hljóðkerfisins veikleikar koma fram og hver styrkur þeirra er (Snowling, 1997).
  • Talið er að dyslexía stafi af varanlegum veikleikum í hljóðkerfi einstaklingsins og leiði til röskunar á umskráningu ritmálsins (m.a.Elbro, Nielsen og Petersen, 1994; Höien og Lundberg, 1991; Rack, Snowling og Olson, 1992; Stanovich, Cunningham og Cramer, 1984).
  • Veikleikar í hljóðkerfinu birtast með breytilegum hætti eftir aldri og þroska (Catts, 1989; Lyon, 1995).

  1. Á leikskólaaldri eru máltruflanir oft merkjanlegar eða undirliggjandi (Catts, 1989)

  2. Á grunnskólaaldri íþyngja lestrarerfiðleikar mest og stafsetningarerfiðleikar eru jafnframt áberandi.

  3. Á unglinga-, framhaldsskóla- og háskólastigi svo og á fullorðinsárum hafa umskráningarerfiðleikar mest áhrif á stafsetningu og tungumálanám, þar sem allflestir hafa náð viðunandi tökum á lestri móðurmálsins (Höien og Lundberg, 1991; Lyon, 1995).

 • Er dyslexia fötlun eða hömlun?Þegar foreldrar óska greiningar á lestrarörðugleikum barna sinna spyrja þeir um:
  • hvort einkennin í lestri og stafsetningu bendi til dyslexíu (lesblinda, leshömlun),
  • hvort vonir séu um framfarir,
  • hvernig þjálfun stuðli að þeim og
  • hvernig þeir geti stutt við framfarir.

  Jákvæð svör og ráðgjöf við spurningum foreldra merkja að ekki er um óbreytanlega fö tlun að ræða eins og blindu, lömun eða heyrnarleysi, heldur hömlun í umhverfi bóka sem oftast tekur breytingum með aldri, þroska og þjálfun. Í Lestrarmiðstöð er því litið á dyslexíu sem hömlun. Það þýðir að lestur og nám sem byggist á ritmáli reyndist auðveldara ef dyslexía væri ekki til staðar.

  Þjálfun er líkleg til að valda breytingum:

  • Í rannsókn Helgu Sigurmundsdóttur á lestri framhaldsskólanemenda sem voru athugaðir 3-4 árum eftir að þeir höfðu fengið greiningu og ráðgjöf um þjálfun komu fram breytingar á lestrarfærni (Ný menntamál, 1996).
  • Stafsetningarþjálfun sem beinist að einkennum í stafsetningu nemendanna gefur til kynna framfarir við þjálfun (Baldur Sigurðsson, 1998 óbirt grein).

  Hér gætu margir lesendur hugsað: En voru þessir nemendur þá nokkuð með dyslexíu? Hafi þessi spurning vaknað, er það vegna rótgróinna viðhorfa um að dyslexía sé endanleg fötlun sem kennsla breyti lítt. Langtímaathuganir á fullorðnum ,,dyslektikerum“ gefa til kynna breytingar þrátt fyrir viðvarandi veikleika í hljóðkerfisþáttum (Wolf, 1991; Korhonen, 1995).

 • Ásköpuð frávik í heilastarfiRannsóknir á blóðflæði í heila t.d. við lestur orðleysa (hljóðaferli) eða verkefna sem reyna á afmarkaða þætti í hljóðkerfi sýna mismun á virkni ákveðinna heilastöðva hjá nemendum sem auðvelt eiga með verkefnin og þeim sem erfitt eiga með þau.Í nokkrum rannsóknum hefur komið fram mismunur á virkni í hornafellingunni (gyrus anguli) en þar er talið að umbreyting bókstafa í hljóð eigi sér stað (sjá hjá J. Pind, 1997). Nýlegar rannsóknir beinast einnig að heilasvæði (insular) sem hefur með að gera hve hratt og sjálfvirkt boð ganga á milli heilahluta (Broca og Wernicke svæðin) þegar þessir tveir mismunandi hópar lesa (sjá í Snowling, 1997).
 • Heimildir:Adams, M. J. (1990). Beginning to read. Cambridge, Mass.: The MIT Press.Baldur Sigurðsson. Orðhlutaleið í stafsetningarkennslu. Grein af sama meiði, rit helgað Indriða Gíslasyni sjötugum.

  Berlin, R. (1887). Eine Besondere Art Der Wortblindheit (Dyslexie). Wiesbaden: Verlag Von J. F. Bergmann.

  Broadbent, W. H. (1872). Cerebral mechanism of speech and thought. Í Medico – Chirurgical Transactions (bls. 10 – 194). London: Longmans, Green, Reader and Dyer.

  Catts, H. W. (1989). Defining Dyslexia as a Developmental Language Disorder. Annals of Dyslexia, 39, 50 – 64.

  Elbro, C., Nielsen, I. og Petersen, D. K. (1994). Dyslexia in Adults: Evidence for Deficits in Non-word Reading and in the Phonological Representation of Lexical Items. Annals of Dyslexia, 44, 69 – 85.

  Galaburda, A. M. (1992). Neurology of developmental dyslexia. Current Opinion in Neurology and Neurosurgery, 5, 71 – 76.

  Gough, P. B. og Tunmer, W. E. (1986). Decoding, Reading and Reading Disability. Remedial and Special Education, 7 (1), 6 – 9.

  Helga Sigurmundsdóttir (1996). Er gagn af lestrargreiningu? Ný menntamál, 14 (4), 31 – 35.

  Høien T. og Lundberg, I. (1997). Dysleksi: Fra teori til praksis. Oslo: Gyldendal.

  Høien, T. og Lundberg, I. (1991). Dysleksi. Oslo: Gyldendal.

  Jörgen Pind (1997). Sálfræði ritmáls og talmáls. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

  Korhonen, T. T. (1995). The persistence of rapid naming problems in children with reading disabilities: A nine year follow-up. Journal of Learning Disabilities, 28, 232 – 239.

  Lyon, G. R. (1995). Toward a definition of dyslexia. Annals of Dyslexia, XLV, 3 – 27.

  Morgan, W. P. (1896). Case of congenital word blindness. The British Medical Journal II, 1378.

  Paulesu, E., Frith, U., Snowling, M., Gallagher, A., Morton, J., Frackowiak, R. S. J. og Frith, C. D. (1996). Is developmental dyslexia a disconnection syndrome? Evidence from PET scanning. Brain, 119, 143 – 157.

  Rack, J. P., Snowling, M. J. og Olson, R. K. (1992). The nonword reading deficit in developmental dyslexia: A review. Reading Research Quarterly, 27, 29 – 53.

  Rannveig G. Lund (1996). Greinandi próf í lestri og réttritun fyrir 9. bekk grunnskóla. Óbirt ME – ritgerð, Kennaraháskóli Íslands.

  Rannveig G. Lund (1997). Tengsl umskráningar við lesskilning, leshraða og stafsetningu. Veggspjöld á málþingi Kennaraháskóla Íslands.

  Richardson, S. O. (1992). Historical Perspectives on Dyslexia. Journal of Learning Disabilities , 25 (1), 40 – 47.

  Siegel, L. S. (1992). An Evaluation of the Discrepancy definition of Dyslexia. Journal of Learning Disabilities, 25, 618 – 629.

  Snowling, M. J. (1997). Phonological skills and learning to read: A developmental perspective on children´s reading difficulties. Í Å. Olofsson og S. Strömqvist (Ritstjórar), Social sciences, Cost A8 (bls. 109 – 118). Luxembourg: Office for Official Publications of the European Communities.

  Snowling, M.J., og Nation,K.A. (1997). Language, phonology and learning to read. Í Hulme and Snowling (Ritstjórar), Dyslexia: Biology, cognition and intervention, ( bls. 153-166).

  Stanovich, K. E. (1991). Word Recognition: Changing Perspectives. Í R. Barr, M. L. Kamil, P. B. Mosenthal og P. D. Pearson (Ritstjórar), Handbook of Reading Research, (bls. 418 – 452).

  New York: Longman. Stanovich, K. E., Cunningham, A. E. og Cramer, B. (1984). Assessing phonological awareness in kindergarten children: Issues of task comparability. Journal of Experimental Child Psychology, 38, 175 – 190.

  Treiman, R. og Hirsch-Pasek, K. (1985). Are there qualitative differences in reading behavior between dyslexic and normal readers? Memory and Cognition, 13, 357 – 364.

  Wolf, M. (1991). Naming speed and reading: The contribution of the cognitive neurosciences. Reading Research Quarterly, XXVI (2), 123 – 141.