Cellulite eða appelsínuhúð

Undirrituð var stödd í snyrtivöruverslun í Reykjavík í þessum mánuði og varð vitni að því þegar afgreiðslustúlka verslunarinnar var að selja krem frá virtum syrtivöruframleiðanda sem að sögn hennar myndi losa hana við óvelkomna „lærapoka“ og hreinsa út eiturefni úr vöðvunum! Konur vilja ólmar stytta sér leið í átt að grönnum líkama og þess vegna eru framleidd ógrynnin öll af skyndilausnum sem ekki virka, en margar virðast tilbúnar að borga fyrir og prófa í þeirri trú og von um að það beri árangur. Hér eru skilaboð unirritaðrar til allra þeirra kvenna sem hafa eytt stórfé í krem bursta, gel o.fl. til að öðlast læri með lágmarks fitu og sléttri húð.

Hvað er cellulite/appelsínuhúð?

Klíptu í lærið með tveim fingrum. Ef húðin kiprast saman í holótt og ójafnt yfirborð sem líkist appelsínuhúð ert þú með cellulite! Það þýðir að þú ert ósköp eðlileg kona. Þú hefur heyrt ýmislegt og munt heyra margt en hér eru lokaorðin um málefnið: Það er vísindalega sannað að cellulite er ekki til! Það var búið til og er einfaldlega sölubrella. Cellulite er ekkert annað er ósköp venjuleg fita. Verstu svæðin eru efri hluti læra og oft er þá talað um lærapoka. Nafnið lærapokar bendir til þess að þetta séu óæskilegir pokar sem eiga ekki að vera, en sannleikurinn er sá að fyrir flestar konur er eina leiðin til að losna við pokana að falla í versta stig lystarstols (anorexia nervosa). Heilbrigð þjálfun og rétt mataræði hjálpa auðvitað mikið til en er oft ekki nóg til að losna algjörlega við þessa appelsínuhúð.

Vísindalegar sannanir eru nú fyrir því að appelsínuhúð myndast þegar net bandvefstrefja, sem liggja á milli vöðva og húðar, deildaskipta fitunni eins og að vattera teppi. Því meiri sem fyllingin er því ójafnari verður áferðin. En jafnvel örþunnt lag getur einnig verið ójafnt.

Ástæðan fyrir því að sumar konur og flestir karlmenn fá ekki appelsínuhúð, jafnvel þó að þau bæti á sig fitu má rekja til ákveðinna litninga sem valda mismun í uppbyggingu og staðsetningu bandvefstrefjanna. Karlmenn hafa að auki þykkari húð sem felur ójafna fitu undir yfirborðinu.

Þrátt fyrir þá staðreynd að appelsínuhúð er arfgeng, hafa konur reynt flestallt til að losna við appelsínuhúðina síðan árið 1973 þegar frönsk kona nokkur nefndi þessa fitu í bók sinni sem hún gaf út í Bandaríkjunum: Cellulite -Those Lumps, Bumps and Bulges You Couldn´t Lose Before. Fegrunarmarkaðurinn hefur haldið þráhyggjunni gangandi og snýst allt um skyndikúra, vafninga, krem, nudd, rafmagnsbylgjur, pillur og hylki af ýmsu tagi og fleira, eða það sem kalla má ,,óskhyggju".

Draumakrem

Skyndimeðalið sem er ríkjandi á markaðnum í dag, til að losna við appelsínuhúð, fæst í túpum og krukkum. Skyndilega framleiða öll snyrtivörufyrirtæki undir sólinni krem eða gel. Það er aðeins hægt að gera sér í hugarlund milljarðana sem þessi fyrirtæki velta á sölu þessara krema!

Könnun var gerð nýlega þar sem óeinkennisklætt fólk var sent til að spyrja nokkurra spurninga í snyrtivöruverslunum í Bandaríkjunum og kom þá í ljós að í 36% tilfella var rangt farið með vörukynningu. Einn fulltrúi snyrtivöruframleiðanda hélt því fram að þeirra cellulitegel væri náttúrulegt þvagræsilyf. Annar sölumaður hélt því fram að gel nokkurt sem fyrirtæki hans selur styrki og þétti fituna á lærum, rassi, maga og undir handleggjum og enn annar snyrtivörusölumaður sagði: „Þjálfun minnkar bara fituna en fitufrumurnar fara ekki svo að það þarf að bera þetta krem á til að brjóta þær upp og fjarlægja þær“. Svona fullyrðingar eru auðvitað tóm vitleysa og er því miður ekki aðeins haldið fram í Bandaríkjunum heldur einnig á Íslandi eins og fram kemur í upphafi greinar.

Vísindi eða vitleysa?

Sérfræðingar segja að umrædd krem innihaldi mýkjandi efni og mikið af gerviefnum. Það er e.t.v. hægt að hrista aðeins upp í ysta lagi húðarinnar með því að bera raka á húðina en áhrifin eru aðeins tímabundin, að mati sérfræðinga.
Það má segja að þrátt fyrir engar breytingar á appelsínuhúðinni er samt sem áður ánægjulegt að nudda þessa vanræktu líkamshluta með vellyktandi kremi!
En þessi cellulitekrem geta í mesta lagi lofað mildum árangri. Mun meiri árangur næst með því að minnka fituna í fæðunni og að stunda reglulega líkamsþjálfun. En til að ná algjörlega af sér holunum og krumpunum þarf að breyta algjörlega uppbyggingu húðarinnar og það þýðir að þú þarft að ná þér í nýtt sett af ömmu og afa!

sjá fleiri greinar á heimasíðu Hreyfingar: www.hreyfing.is