Búddismi

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Búddismi

Buddhism
Búddatrú er upprunnin á Indlandi og á sér 2500 ára gamla sögu. Upphafsmaður trúarinnar var indverskur prins Siddharta Gautama, sem síðar hlaut tignarheitið Búdda, sem þýðir “hinn upplýsti”. Til eru mismunandi stefnur innan búddismans sem eru mótaðar af ýmsum siðum og venjum. Inntakið er þó hið sama þ.e. kenningar Búdda, trúin á endurfæðinguna og grunnskilningur á karmalögmálinu. Allar stefnur búddismans leggja áherslu á auðmýkt í daglegu lífi svo og á augnablik dauðastundarinnar. Þó svo búddisminn sé skilgreindur sem trúarbrögð er hann fremur heimspeki og lífsmynstur.

Búddatrúarmenn hafa tileinkað sér kenninguna um hina eilífu hringrás sem felur m.a. í sér trú á endurfæðingu einstaklingsins í öðrum líkama eftir dauðann. Samkvæmt karmalögmálinu fæðist einstaklingurinn aftur og aftur, hann fer frá einu tilverustigi til annars eftir því sem hann hefur unnið til með breytni sinni á hverju æviskeiði. Er karmalögmálið þannig lögmál orsaka og afleiðinga. Vonin felst í því að vald karmalögmálsins þrjóti og þar með viðjar endurfæðingarinnar, þannig að leiðin opnist inn í “nirvana” – æðstu sælu, þar sem hvíld er að finna og þar sem algjör og varanlegur friður ríkir – eilíf fullkomnun. Markmiðið er að ná stigi fullkomnunar og komast þannig undan því að fæðast á ný. Þetta er þrotlaus barátta og torsótt leið við að ná valdi á sjálfum sér og gjörðum sínum. Grunnhugsunin er að feta meðalveginn milli meinlætis og nautnafýsnar.

Búddisminn skiptist í tvær meginstefnur og ræður þar mestu landfræðileg skipting. Annars vegar er Hinayana/ Theravada “farið minna eða litli vagninn” sem er ríkjandi á Indlandi, Tælandi og mörgum öðrum löndum Suður-Asíu. Hinayana/Therevada búddismi er íhaldssamur í eðli sínu. Þar er áhersla lögð á sjálfsafneitun, meinlæti og sjálfsendurlausn einstaklingsins. Hin stefnan, þ.e. Mahayana “farið meira eða stóri vagninn”, er ríkjandi í Kína, Japan og Tíbet. Megininntak þessarar stefnu er að æðsta hugsjónin er að verða vera sem hefur náð fullkominni uppljómun í þeim tilgangi að hjálpa öðrum að ná sama stigi. Þessi stefna er frjálslyndari en Theravada búddismi. Hún hefur skipst í margar greinar, aðlagast mismunandi menningu og býr þar af leiðandi yfir meiri fjölbreytileika.

Búddistafélag Íslands telur vel á 4. hundrað manns og eru flestir meðlimir þess frá Tælandi. Auk þess eru um 300 Víetnamar búsettir hér á landi og eru þeir nær allir búddatrúar. Þá eru nokkur mismunandi búddatrúarsamfélög þar sem flestir meðlimir eru Íslendingar.

Helgisiðir

Búddistar hafa eigin helgisiði sem fela m.a. í sér íhugun, bænir, fórnir til Búdda og að brenna reykelsi.

Ekki eru allir búddatrúarmenn jafn meðvitaðir eða uppteknir af kennisetningum eða mismunandi stefnum búddismans, heldur rækta trú sína á eigin forsendum. Helgisiðir geta verið litaðir af menningararfleifð og þá t.d. blandaðir forlagahyggju og/eða forfeðradýrkun. Sumir útbúa sér altari heima við, þar sem þeir fara með bænir og brenna reykelsi fyrir látna ættingja. Þá halda þeir upp á dánardægur ættingja með því að öll fjölskyldan kemur saman og er þá elduð stórmáltíð sem er ætluð hinum framliðna.

Lífshættir

Til eru búddistar sem einnig hafa tileinkað sér taóisma og taka mið af honum í daglegu lífi og þegar sjúkdóma ber að höndum. Felst þetta meðal annars í matarræði, þ.e. í vali á fæðutegundum eftir því hvert ástand líkamans er hverju sinni. Sjá Taóismi.

Fæðuvenjur
Það eru engar fæðuforskriftir fyrir hinn almenna búddatrúarmann, hann má borða hvað sem er, hvenær sem er. Hins vegar geta fæðuvenjur og hefðir verið nokkuð mismunandi eftir því hvaða stefnu búddistar fylgja. Margir þeirra borða bæði kjöt og fisk. Þó er algengara að kínverskir búddatrúarmenn og fylgjendur búddisma á Vesturlöndum neyti einungis jurtafæðu og þá af siðfræðilegum ástæðum sem byggja á því viðhorfi að valda engu sem lifir sársauka.

Sumar konur hafa vanist því að ekki er borðaður fiskur eða fiskafurðir í allt að þrjá mánuði eftir fæðingu.

Föstur
Það eru engar föstuforskriftir fyrir hinn almenna búddatrúarmann. En þeir sem fylgja Hinayana/Theravada stefnunni fasta gjarnan einn dag í viku. Það þýðir að þeir neyta matar frá sólarupprás fram á miðjan dag en fasta síðan fram á næsta dag.

Hreinlæti
Búddistar hafa almennt sama viðhorf til hreinlætis og þekkist í íslensku samfélagi. Til eru þeir sem þvo sér sérstaklega fyrir íhugun, svo og þvo þeir líkamshluta sína eftir útskilnað úrgangsefna.

Sumar konur hafa vanist því að fara ekki í bað, þvo hári&e th; eða bursta tennur í allt að viku eftir fæðingu.

Hreyfing
Við hugleiðslu kjósa sumir að ganga í hringi með hendur í skauti sér, drjúpa höfði með lokuð augu meðan aðrir sitja í jógastellingum meðan þeir hugleiða.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Almennt er ekki bannað að drekka áfengi.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við búddista sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Almennt er mikil áhersla á virðingu og samheldni innan fjölskyldunnar, en trúræknir búddistar taka stundum samskipti við trúsystkin fram yfir fjölskylduna.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Arfleifð Asíubúa varðandi læknismeðferðir eru mjög svo frábrugðnar þeim vestrænu og verður að hafa það í huga í samskiptum við fólk úr þessum heimshluta. Hins vegar er það svo að búddatrúarmenn sem hafa flust til Vesturlanda hafa flestir tileinkað sér og þiggja vestrænar læknismeðferðir.

Orsakir sjúkdóma
Oft er það viðhorf ríkjandi að sjúkdómar séu orsök slæmrar breytni á fyrri tilverustigum. Skömmin sem fylgir veikindum getur orsakað það að sumir reyna fyrst eigin hjálparmeðul áður en leitað er læknis og koma því seinna en æskilegt hefði verið. Þessir sjúklingar kvarta oft lítið þar sem erfiðleikar og þjáning er álitin hluti af lífinu og því verði ekki breytt. Með því að þola þjáninguna samfara sjúkdómnum vonast einstaklingurinn til að bæta fyrir syndir sínar og komast þannig nær æðra tilverustigi í næsta lífi.

Það er orðið mun algengara að ekki er litið á líkamlega sjúkdóma sem skömm. Enn gætir lítils skilnings á geðsjúkdómum og andlegri vanlíðan.

Þá finnst það viðhorf að þeir sem deyja af slysförum hafi slæmt karma en þeir sem deyja eðlilegum dauðdaga hafi gott karma.

Getnaðarvarnir
Það er engin siðfræðileg andstaða við notkun getnaðarvarna.
Fóstureyðingar
Í búddisma skipta aðstæður meira máli en trúarsetningar. Meginreglan er sú að varðveita beri allt líf.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við búddista sem lýtur að meðgöngu.

Líffæraflutningar
Trúarlega er engin fyrirstaða varðandi líffæraflutninga.

Verkjameðferð
Viðhorf mjög íhaldssamra búddista til slævandi verkjalyfja er að þeir leggja áherslu á að deyjandi sjúklingur mæti dauða sínum með meðvitund og skýrri hugsun. Kann hann því að hafna verkjameðferð nema honum sé tryggt að hún slævi ekki. Þetta getur einnig átt við sjúkling sem ekki er deyjandi, þar sem áhersla er lögð á fulla meðvitund, þ.e. mikilvægi þess að vera meðvitaður um það sem er að gerast.

Blóðgjafir
Trúarlega er engin fyrirstaða fyrir því að þiggja eða gefa blóð.

Krufningar
Trúarlega er engin fyrirstaða varðandi krufningar. Krufning má þó ekki fara fram fyrr en þremur dögum eftir andlát.

Snerting

Þreifing brjósta við brjóstaskoðun getur verið konum framandi og eins þegar brjóstin eru skoðuð með tilliti til brjóstagjafar eftir fæðingu.

Hafa ber í huga við læknisskoðun og umönnun að snerting er á engan hátt jafn eðlileg og algeng meðal margra sem eru búddatrúar og við eigum að venjast. Svo dæmi sé tekið þá álíta sumir að höfuðið sé heilagt og ber því að koma við það af varfærni og reyna að útskýra hver tilgangurinn er, t.d. við skoðun í ungbarnavernd. Þá geta sumir sjúklingar upplifað það sem vanvirðu við sig að vera strokið um höfuð og andlit. Við andlát er mjög mikilvægt að meðhöndla líkamann með aðgát. Sjá Umönnun sjúkra og deyjandi hér að neðan.

Samskipti

Í sumum samfélögum þykir ókurteisi að horfa beint í augu þess sem talað er við, einkum ef viðmælandinn er álitinn hærra settur í þjóðfélagsstiganum.

Algengt er að ekki er farið út með börn fyrstu þrjá mánuðina eftir fæðingu og þau ekki látin sofa úti þótt veður sé til þess fallið.

Sjúklingnum er ætlað að hafa jákvætt hugarfar gagnvart eigin dauða. Ef kvíði, angist eða grátur grípur um sig meðal aðstandenda eða vina við dánarbeð sjúklings, er talið æskilegt að þeir geti farið afsíðis og fengið útrás fyrir tilfinningar sínar, þar sem mikil áhersla er lögð á algjöra kyrrð við andlátið.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Þar sem búddismi byggir á mismunandi stefnum og er mótaður af siðum og menningu hvers lands getur verið erfitt að átta sig á hvað gildir og hvað ekki, ekki síst þegar kemur að umönnun sjúkra og deyjandi. Rétt er því að mæta aðstæðum með opnum huga.

Það getur verið mikilvægt fyrir sjúklinginn að sinna búddískum helgisiðum. Hafi hann ekki til þess kraft eða getu sjálfur kann einhver að vilja gera það fyrir hans hönd. Trúrækinn sjúklingur þarf næði til að íhuga og til þess að geta móttekið myndir úr undirmeðvitundinni sem kunna að birtast honum við og eftir andlátið, samkvæmt inntaki búddismans. Þar af leiðandi gæti hann óskað eftir því að mæta dauða sínum me ð skýrum huga en ekki slævður af lyfjum.

Búddistum er ætlað að mæta dauða sínum af æðruleysi og með allt að því jákvæðu viðhorfi. Þeir trúræknu líta svo á að við andlátið, sé það vitund mannsins sem hverfur úr líkamanum um eina af tíu gáttum hans. Hvernig vitundin yfirgefur líkamann byggir að mestu á hugarástandi sjúklingsins meðan á dauðaferlinu stendur. Ef vitundin yfirgefur líkamann um gáttir höfuðsins þá mun einstaklingurinn öðlast lánsama endurfæðingu. Ef vitundin hins vegar yfirgefur líkamann um eina af neðri gáttum líkamans mun hann að öllum líkindum þurfa að þola mjög ólánsama endurfæðingu. Getur liðið nokkur tími þar til vitundin, sem staðsett er í hjartastöðinni samkvæmt skilningi búddista, skilji við líkamann og er það ekki fyrr en það hefur gerst að hin raunverulega dauðastund hefur átt sér stað. Litið er á dauðann sem mikilvægt skref í andlegum þroska og lið í því að færast nær æðra tilverustigi.

Búddistar telja það mjög mikilvægt að hugarástand sjúklings sé í jafnvægi og að umhverfi hans sé friðsælt. Þá er ekki síður mikilvægt að þeir sem eru í herbergi hans hafi jákvætt hugarfar. Ættingjum og vinum er ætlað að skilja að til þess að hjálpa þeim sem eru að deyja þurfa þeir sjálfir einnig að hafa jákvæðan og friðsælan huga og mjög sterkar tilfinningar á þessu stigi geti í raun orðið sjúklingnum skaðlegar. Álitið er að friðsælt andlát skapi góð skilyrði fyrir lánsama endurfæðingu.

Flestir sjúklingar sem eru búddatrúar finna mikinn styrk í nærveru ættingja sinna og trúfélaga sem hvetja og styrkja sjúklinginn í trú sinni m.a. með bænum. Þeir óska yfirleitt ekki eftir sálusorgara eða heimsókn fulltrúa trúfélaga nema úr sínum eigin röðum. Þó getur þetta verið breytilegt eftir einstaklingum.

Samkvæmt búddískum hefðum er hreyft sem minnst við líkinu eftir andlát. Sérstaklega skal þess gætt að snerta aðeins efsta hluta höfuðsins þar sem álitið er að það geti hjálpað vitundinni að fara um gáttir höfuðsins. Ef hægt er að koma því við ætti líkaminn að fá að bíða óhreyfður í nokkurn tíma. Það eina sem kann að vera óskað eftir að starfsfólk aðhafist þegar andlát hefur átt sér stað er að leggja aftur augu hins látna, skorða kjálka hans og höfuð og að leggja helga bók eða trúartákn við höfuð hans. Að meðhöndla líkamann fljótt eftir andlátið getur haft áhrif á hvernig vitundin yfirgefur líkamann og orsakað á þann hátt ólánsama endurfæðingu. Helst ætti ekki að hreyfa við líkinu í nokkurn tíma (eða allt að 8 klukkustundir eftir andlát). Ef óskað er eftir krufningu má hún helst ekki fara fram fyrr en eftir 3 daga. Samráð við ættingja og/eða trúfélaga í hverju tilfelli fyrir sig varðandi umönnun við andlát getur verið hjálplegt, þar sem óskir og venjur kunna að vera breytilegar. Engar sérstakar reglur ríkja í búddisma varðandi endanlegan frágang líkamans fyrir útför en hefðir frá heimalandinu gætu komið þar inn í.

Tælenskir búddistar búsettir hér á landi hafa oftast engar sérstakar óskir er tengjast siðum eða venjum við umönnun sjúkra og deyjandi fram yfir það sem hér tíðkast, né heldur við og eftir andlát. Þó kann þetta að vera einstaklingsbundið.

Tælenskir búddistar trúa því að við andlátið sé skuldinni vegna fyrra lífs þ.e. “karma” lokið og vonin felst í því að betra líf taki við.

Umhverfi

Sjúklingurinn kann að kjósa að hafa muni í sínu nánasta umhverfi sem minna hann á trú hans s.s. Dharma-bækur, styttur af Búddum eða myndir af andlegum leiðbeinendum hans. Áhersla er lögð á kyrrð í kringum andlátið því friðsælt andlát skapar góð skilyrði fyrir lánsama endurfæðingu.

Útför og greftrun

Búddatrúarmenn hafa samskipti við útfararstofur, en sjá venjulega sjálfir um kveðjuathöfnina sem getur farið fram í búddískum salarkynnum eða í kirkju og eru þá gerðar viðeigandi ráðstafanir.Ýmist fer fram bálför eða greftrun. Sérstakur grafreitur er í Grafarvogskirkjugarði fyrir búddatrúarmenn.

Flestir Tælendingar sem búið hafa hér á landi, vilja hvíla hér. Að tælenskum sið er hinn látni ýmist brenndur eða grafinn á 7. degi frá andláti. Sorgarklæði eru hvít eða svört, aðrir litir eru ekki við hæfi.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda